Home / Fréttir / Nord Stream 2 í uppnámi vegna bandarískra refsiaðgerða

Nord Stream 2 í uppnámi vegna bandarískra refsiaðgerða

Hlé hefur verið gert á vinnu um borð í gasleiðsluskipinu.
Hlé hefur verið gert á vinnu um borð í gasleiðsluskipinu.

Hlé hefur verið gert á lagningu rússnesku Nord Stream 2 gasleiðslunnar á lokametrum tengingar í Eystrasalti vegna refsiaðgerða af hálfu Bandaríkjastjórnar. ESB lýsir áhyggjum vegna afskipta Bandaríkjamanna og Rússar hóta gagnaðgerðum.

Svissneska skipafélagið Allseas á skipið Pioneering Spirit sem notað er við að leggja gasleiðsluna í danskri lögsögu. Félagið gaf fyrirmæli um að stöðva vinnu um borð í skipinu eftir að bandarísku refsiaðgerðirnar voru kynntar.

Við þetta hefur skapast óvissa um framhald verksins. Gasleiðslan er eign rússneska orkurisans Gazprom. Evrópsk stórfyrirtæki hafa einnig fest mikið fé í verkefninu. Áður en þetta hlé varð lá fyrir að verkinu kynni að ljúka á fáeinum vikum. Leiðslan er frá Viborg í Rússlandi til Eystrasaltsstrandar Þýskalands, alls 1.230 km og nú er unnið að því að leggja síðustu 140 km innan danskrar lögsögu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði undir lögin föstudaginn 20. desember en í þeim er að finna ákvæði um bann við útgáfu vegabréfsáritana og fjármálagjörningum í Bandaríkjunum. Gildistökufrestur laganna er 30 dagar og töldu margir að unnt yrði að ljúka verkinu innan þess tíma. Svissneska skipafélagið Allseas ákvað hins vegar að hætta vinnu við gasleiðsluna strax.

Framkvæmdastjórn ESB athugar hvaða áhrif þetta hefur fyrir evrópsk fyrirtæki. Framkvæmdastjórnin leggst almennt gegn öllum refsiaðgerðum gegn fyrirtækjum innan ESB sem stunda löglega starfsemi.

Skipið Pioneering Spirit hefur lagt stærstan hluta gasleiðslunnar. Það beið í tvö ár, þar til í október 2019, eftir að Danir heimiluðu að leiðslan yrði lögð innan lögsögu þeirra við Borgundarhólm. Skömmu síðar lýsti rússneska ríkisstjórnin yfir að leiðslan yrði tekin í notkun á árinu 2020.

Árum saman hefur Trump varað við gasleiðslunni. Hann telur hættu á að Evrópumenn og sérstaklega Þjóðverjar verði „gasgíslar“ Vladimirs Pútins Rússlandsforseta. Þá hafa Trump og Bandaríkjamenn sjálfir mikilla eigin fjárhagslegra hagsmuna að gæta í gasstríðinu. Bandaríkjamenn hafa stóraukið eigin framleiðslu á jarðgasi sem flytja má í fljótandi formi (LNG) með tankskipum til Evrópu. Trump fer ekki leynt með áhuga sinn á að selja gas til Evrópu.

Markmið bandarísku laganna er að fækka tækifærum Rússa til að nota gassölu í pólitískum tilgangi og einnig að hindra að það verði meira en 25% samdráttur í flutningi á rússneskri orku í gegnum núverandi leiðslur, einkum í Úkraínu.

Dmitríj Peskov, talsmaður Pútins, segir refsiaðgerðirnar „beint brot á alþjóðalögum“. Rússar kanni allar leiðir til að vinna áfram að lagningu leiðslunnar. Hann sagði einnig að þessu yrði svarað á einhvern hátt. Rússneskir þjóðarhagsmunir réðu hvernig og hvenær það yrði gert.

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF: „Evrópsk orkustefna verður ákveðin í Evrópu.“

Richard Grenell, sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi, segir við The Financial Times að hér sé um ákvörðun í þágu Evrópu að ræða þegar til þess sé litið að 15 ríki, auk framkvæmdastjórnar ESB og ESB-þingsins hafi lýst áhyggjum vegna gasleiðslunnar. Hann hafi fengið þakkir frá fjölmörgum evrópskum stjórnarerindrekum eftir að Trump ritaði undir lögin.

Fyrr á árinu 2019 samþykkti ESB gastilskipun þar sem Nord Stream 2 er sett undir evrópsku orkulöggjöfina sem felur í sér vernd gegn misnotkun á ráðandi stöðu á gasmarkaðnum.

Volker Perthes, forstjóri þýsku hugveitunnar Stiftung für Wissenschaft und Politik, segir á Twitter: „Hvað sem maður segir um Nord Stream 2 (Þjóðverjum urðu greinilega á mistök með því að átta sig ekki á geópólitísku mikilvægi hennar): Beiting bandarískra refsiaðgerða gegn orkuinnviðum sem lúta ESB-lögum er árás á flullveldi evrópskra ríkja og hættulegt fordæmi.“

 

Heimild: Jyllands-Posten.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …