
Ítalska ríkisstjórnin gagnrýnir harðlega áform um Nord Stream-2 gasleiðsluna frá Rússlandi á botni Eystrasalts til Þýskalands, leiðslu sem gerir Rússum kleift að selja Þjóðverjum gas án þess að leiðslan fari um Úkraínu. Málið snertir tengsl ESB og Rússlands, framtíð Úkraínu og orku-sjálfstæði ESB. Fyrir baráttu Ítala og Visegrad-ríkjanna náði hugmyndin um leiðsluna ekki fram á fundi leiðtogaráðs ESB í síðustu viku.
Með nýju leiðslunni verður unnt að tvöfalda flutning á gasi þessa leið um Eystrasaltið frá Rússlandi til Þýskalands. Enginn efast um viðskiptahagsmunina sem eru í húfi. Um þriðjungur af gasneyslu innan ESB er keyptur af Rússum.
Af hálfu Rússa er Gazprom aðili að þessum samningi. Frá Þýskalandi koma BASF og E.ON, frá Frakklandi Engie, frá Bretlandi Shell og Austurríki OMV.
Fyrir utan viðskiptahagsmuni hefur ákvörðun um þetta efni einnig hlið sem snýr að öryggismálum. Auk þess sem ESB hefur sett sér það markmið að beina orkukaupum sínum til fleiri aðila en áður.
Um nokkurra vikna skeið hefur spenna magnast vegna þessa máls milli aðildarríkja ESB. Hún leystist úr læðingi föstudaginn 18. desember á fundi leiðtogaráðs ESB sem snerist einkum um viðræður við Breta um nýja aðildarskilmála og útlendingamál.
Á leiðtogafundinum var Angela Merkel Þýskalandskanslari sökuð um tvöfeldni. Annars vegar hvetti hún til þess að viðskiptaþvinganir á Rússa vegna framgöngu þeirra í Úkraínu yrðu framlengdar um 6 mánuði sem var samþykkt. Hins vegar lægi fyrir ósk um að komið yrði til móts við óskir, einkum frá Þýskalandi, um aukin orkukaup af Rússum þrátt fyrir viðskiptaþvinganir ESB og hagsmuni stjórnvalda í Úkraínu. Angela Merkel brást við gagnrýni af þessu tagi á leiðtogaráðsfundinum með því að segja að Nord Stream-2 væri „einkum fjárhagslegt hagsmunamál einkafjárfesta“.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, snerist af mestum þunga gegn áformunum um Nord Stream-2. Fór hann af leiðtogaráðsfundinum í Brussel með þau orð á vörunum að sér hefði tekist að stöðva tilraunina til að láta nýju leiðsluna koma hljóðlega til sögunnar. Minnt er á að í lok árs 2013 hafi framkvæmdastjórn ESB stöðvað lagningu South Stream gasleiðslu frá Rússlandi þar sem ítalska orkufyrirtækið ENI átti hlut að máli.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, vakti máls á Nord-Stream-2 opinberlega og sagði: „Verði Nord-Stream-2 leiðslan lögð koma 80% af rússnesku gasi eftir sömu leið og Gazprom verður ráðandi á þýska markaðnum.“ Áður en þessi orð hans féllu höfðu leiðtogar Visegrad-ríkjanna fjögurra – Póllands, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands – krafist þess að farið yrði að samþykktum ESB og virt ákvæði þeirra um dreifð kaup á eldsneyti.
Í niðurstöðum leiðtogaráðsins er haldið í fyrri samþykktir. Án þess að nefna Nord Stream-2 er lögð áhersla á að „öll ný mannvirki skulu að öllu leyti í samræmi við“ lög ESB. Á það er bent að framkvæmdastjórn ESB eigi enn eftir að fjalla um málið og þar séu skiptar skoðanir milli manna um hvort hafa beri viðskiptahagsmuni að leiðarljósi eða strategísk markmið.
Heimild: Le Figaro