Home / Fréttir / Nord Stream-2 gasleiðslan á lokametrunum

Nord Stream-2 gasleiðslan á lokametrunum

p01c-1068x712

Danska orkumálastofnunin heimilaði í október að Nord Stream-2 gasleiðslan yrði lögð á hafsbotn innan efnahagslögsögu Danmerkur fyrir suðaustan Borgundarhólm. Eftir að leyfið fékkst er ekki nein fyrirstaða á rússneska risafyrirtækið Gazprom geti lokið við að leggja leiðsluna til Þýskalands. Bandaríkjastjórn og stjórnir nokkurra ESB-ríkja hafa árangurslaust reynt að hindra lagningu leiðslunnar.

Innan tíðar verður hafist handa við að koma leiðslunni á umsaminn stað innan dönsku lögsögunnar. Fyrst þarf að fullnægja kröfum sem snúa að lagalegum þáttum, tækniatriðum og umhverfismálum.

Nú hafa um 2.100 km af leiðslunni verið lagðir eða um 87% af lengd hennar. Leiðslan hvílir nú þegar á svæðum sem falla undir lögsögu Rússa, Finna og Svía. Auk þess hefur leiðslan verið lögð frá Þýskalandi í átt að lögsögu Dana. Þá er smíði landtöku-stöðva í Rússlandi og Þýskalandi langt komin.

Þegar leiðslan verður tekin í notkun á næsta ári minnkar flutningur á gasi til ESB-landa um Úkraínu. Ósamið er um hvernig draga eigi úr tjóni Úkraínumanna.

Bandaríkjastjórn reyndi að bregða fæti fyrir Nord Stream 2 en hafði ekki árangur sem erfiði. Þjóðverjar létu sér ekki segjast og segja þeir sem til þekkja að það sé ein af ástæðunum fyrir því að Donald Trump Bandaríkjaforseti agnúist gjarnan út í Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Meðal ESB-þjóða hafa Pólverjar lýst mestri andstöðu við Nord Stream 2. Mest er í húfi fyrir Þjóðverja en almennt líta stjórnvöld allra ESB-þjóðanna sem kaupa gas frá Rússlandi af velvilja til þess að leiðslan sé lögð, telja hana auka orkuöryggi sitt.

Sérfræðingar segja að það sem helst gæti valdið vandræðum í samskiptum ESB-landa og Bandaríkjanna á þessu stigi málsins væri að Bandaríkjastjórn reyndi enn að bregða fæti fyrir gasflutninginn með refsiaðgerðum.

 

Heimild: New Europe

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …