Home / Fréttir / Nöglunum fjölgar í kistu Pútíns

Nöglunum fjölgar í kistu Pútíns

„Ragnarakahershöfðinginn“ Sergei Surovikin og Vladimir Pútín

Hér er lausleg þýðing á grein eftir Hamish de Bretton-Gordon, fyrrverandi yfirmann í breska hernum, sem birtist á vefsíðunni The Telegraph fimmtudaginn 24. ágúst:

Þegar Vladimir Pútín situr hugsi í sprengjuheldu skrifstofunni sinni kann hann að harma þá staðreynd að allur heimurinn er viss um að hann hafi gefið fyrirmæli um að uppreisnargjarn málaliðaforinginn, Jevgeníj Prígósjín, skyldi drepinn. Líkja má Kreml við Camorru, leynisamtök mafíunnar sem stjórna glæpastarfsemi til að fylla vasa Pútíns og ólígarka hans og elítuhópa. Hins vegar má minnast þess sem Japanir kynntust í Búrma árið 1944. Stundi maður ógnarstríð er líklegt að lenda í vandræðum andspænis vel skipulögðum, sókndjörfum og siðsömum liðsafla á borð við „gleymda herinn“ sem hershöfðinginn Bill Slim stjórnaði.

Í raun kann Pútín að hafa ritað undir eigin aftökuskipun. Fingraför hans voru ef til vill ekki hnappnum þegar þota Prígósjíns var skotinn niður og þau kunna ekki að hafa verið póloninu eða nóvistjókinu sem varð sumum öðrum andstæðingum hans að bana en DNA hans er á öllum fyrirmælunum. Hann þarf nú að gæta sín á tveimur mjög voldugum hópum – alveg fyrir utan Alþjóðasakamáladómstólinn sem hefur vafalaust safnað svo miklum sönnunargögnum að fari hann nokkru sinni til Haag fer hann þaðan aldrei aftur.

Í fyrsta lagi verður Pútín að gæta sín á ólígörkunum sem hafa nú mátt dúsa í smáhöllum sínum í Moskvu í meira en 18 mánuði án þess að geta notað ofursnekkjur sínar eða villur við Miðjarðarhaf. Nú þegar leiðtoga þeirra er formælt enn einu sinni um heim allan vegna síðasta morðs hans kunna ólígarkarnir að sjá að eina tækifæri þeirra til brjótast út úr Rússlandi, niðurlægðu efnahagslega og félagslega, er að losna við Pútín.

Í öðru lagi er Wagner-hópurinn enn stórt samsafn ofbeldismanna og morðingja þótt þeir kunni að hafa misst „kúreka“ foringja sinn og varaforingja. Prígósjín var enginn herforingi, Wagner-hópurinn er hins vegar sigursælasta herliðið sem Rússar hafa megnað að senda á vígvöllinn og skiptir þá engu þótt þeir séu launaðir málaliðar sem margir hafa verið kallaðir á vettvang úr rússneskum fangelsum. Til að stjórna slíku illþýði er nauðsynlegt að ráða yfir mjög hörðum „lautinautum“ til að hafa stjórn á „ballinu“ og þeir velta nú framtíðinni fyrir sér í Belarús og Afríku. Það yrði vissulega kaldhæðnislegt ef einhver lofaði þeim gulli og grænum skógum fyrir að skapa öngþveiti í Rússlandi. Reynsla mín af málaliðum er að þeir séu hóflega vandlátir á hver borgar þeim.

Ólíklega er það tilviljun að tilkynnt var um endanlegan brottrekstur á „ragnarakahershöfðingjanum“ Sergei Surovikin sama dag og Prígósjín var tekinn úr umferð. Pútin hefur nú losað sig við skilvirkustu hershöfðingjana sína og situr uppi með skrifborðsknapa eins og Sergei Shoigu varnarmálaráðherra og Valeríj Gerasimov herráðsformann, þeir eiga að stjórna bardögum í Úkraínu og vörnum Moskvu. Þessir menn kunna að ganga um með brjóst sín hlaðin medalíum en þessar medalíur eru fyrir „bróderí og eldamennsku“ en ekki fyrir bardaga eins og þær sem Surovikin og Prígósjín hlutu. Nær höfuðlaus her er óaldarlýður og þetta er það sem Pútín hefur skapað.

Ég ímynda mér að næstu daga sé einnig líklegt að okkur berist straumur frétta um kompromat sem Jevgeníj heitinn Vitororvitsj hafi safnað um Pútín og   ömurlega stjórn hans til birtingar að safnaranum látnum. Þá gæti þrýstingur enn aukist á sífellt aðþrengdari Kremlverja.

Kaldur veruleikinn sem blasir við Moskvubúum þegar þeir verða enn einu sinni að leita skjóls vegna hættunnar af drónum Úkraínumanna og þegar þeir íhuga að ungu mennirnir þeirra komi heim í kistum en ekki sigri hrósandi leiðir þeim örugglega fyrir sjónir að „sérstök hernaðaraðgerð“ Pútíns er algjörlega misheppnuð. Ég held þó að það verði ólígarkarnir og Wagner-liðar sem binda enda á Pútín áður en hann eyðileggur rússneska ríkið endanlega.

Það sem á eftir kemur getur varla orðið verra eða grimmdarlegra; helvíti á jörðu hefur blasað við okkur undanfarna 18 mánuði. Eitt er víst, næsti leiðtogi Rússlands mun ekki ráða yfir nothæfum herafla eða hæfum hershöfðingjum til að stjórna honum næstu áratugi.

Óreiðan verður líklega meiri áður en ástandið batnar en eftir að Surovikin og Prígósjín hefur verið rutt úr vegi þarf ekki miklu fleiri nagla í kistu Pútíns.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …