Home / Fréttir / Nóbelsverðlaunin: Hugsanlega tekin frá Sænsku akademíunni

Nóbelsverðlaunin: Hugsanlega tekin frá Sænsku akademíunni

Lars Heikensten
Lars Heikensten

Hugsanlegt er talið að kynferðisleg áreitni og hneyksli í tengslum við hana verði til þess að Sænska akademían verði til frambúðar svipt hlutverki sínu við veitingu Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum.

Lars Heikensten, forstöðumaður Nóbelstofnunarinnar, gaf til kynna föstudaginn 28. september að stigin yrðu „afdrifarík skref“ gripi Sænska akademían ekki til frekari aðgerða til að rétta hlut sinn vegna hneykslisins.

„Verði þetta svona áfram og þeim tekst ekki að afla sér trausts kunnum við að neyðast til að stíga afdrifarík skref. Eitt þeirra kynni að verða að óska heimildar til að einhver önnur stofnun úthluti verðlaununum,“ sagði Heikensten í samtali við Reuters-fréttastofuna.

Fjöldi manna sagði sig úr Sænsku akademíunni eftir að 18 konur sökuðu Jean-Claude Arnault, 72 ára Frakka, um kynferðislega áreitni, ofbeldi og nauðgun. Arnault hefur verið áhrifamaður í menningarlífi Stokkhólms í marga áratugi.

Arnault hefur hafnað öllum ásökunum í sinn garð. Fyrr í mánuðinum var réttað í máli gegn honum fyrir að hafa nauðgað sömu konunni tvisvar árið 2011. Að loknum málflutningi varð héraðsdómur Stokkhólms við kröfu ákæruvaldsins um að hann yrði í varðhaldi þar til dómur félli. Þykir það benda til þess að hann verði sakfelldur fyrir að minnsta kosti aðra nauðgunina.

Þetta hneyksli tengist Sænsku akademíunni vegna þess hve lengi Arnault hefur átt þar innangengt. Hann er kvæntur Katarinu Frostenson sem sat í akademíunni og gortaði hann sig stundum af því að hann væri „19 félagi“ í henni.

Innri rannsókn í akademíunni leiddi í ljós að sumir félagar í henni og auk þess eiginkonur og dætur félaga hefðu mátt þola „óboðin náin kynni“ af Arnault. Innan hópsins risu hins vegar djúpstæðar deilur um hve langt ætti að ganga í viðbrögðum við ásökunum í hans garð vegna þessa.

Vegna þessara mála allra hurfu sex félagar í akademíunni úr henni, annaðhvort að fullu og öllu eða tímabundið, og að auki fyrsta konan sem er ritari akademíunnar, Sara Danius. Þá var ákveðið að veita engin bókmenntaverðlaun árið 2018.

Heikensten og Nóbelstofnunin hvatti Sænsku akademíuna á sínum tíma til að stofna nýja verðlaunanefnd með því að fá nýja sérfróða  fulltrúa til að koma í stað þeirra sem áttu um sárt að binda vegna kynferðisbrotanna. Akademían hafði þá ósk að engu.

Heikensten sagði föstudaginn 28. september að málið liti „illa út“ fyrir Akademíuna. Tækist félögum í henni ekki að leysa sómasamlega úr hneykslismálinu kynnu engin Nóbelsverðlaun í bókmenntum að verða veitt árið 2019.

„Við vonum innilega að Sænska akademían geti veitt verðlaunin árið 2019 og beitum okkur eindregið fyrir því,“ sagði hann við Reuters. „Sé hins vegar ekki tekið á málum á viðunandi hátt innan hæfilegs tíma … er líklegt að úthlutun verði frestað að nýju sem yrði mjög óheppilegt.“

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …