Home / Fréttir / Njósnastofnun rússneska hersins að baki kosningaárásunum í Bandaríkjunum

Njósnastofnun rússneska hersins að baki kosningaárásunum í Bandaríkjunum

 

Þetta er ein  bygginga GRU í Moskvu.
Þetta er ein bygginga GRU í Moskvu.

Robert Mueller. sérstakur saksóknari í Bandaríkjunum, sem birti föstudaginn 13. júlí ákæru á hendur rússneskum njósnurum fyrir tölvuinnbrot hjá Demókrataflokknum í bandarísku forsetakosningabaráttunni árið 2016, segir njósnarana koma frá rússneskri njósnastofnun sem áður var þekkt undir skammstöfuninni GRU. Hún starfaði innan sovéska hersins.

Stofnunin starfar enn fyrir herinn og hafa bandarísk yfirvöld nokkrum sinnum beitt refsiaðgerðum gegn henni á undanförnum árum. Nú hefur hins vegar í fyrsta sinn verið höfðað sakamál á hendur starfsmönnum stofnunarinnar vegna ólögmætra athafna í Bandaríkjunum, að þessu sinni vegna afskipta forsetakosningum þar.

Áður höfðu verið gefnar út ákærur á hendur tólf óbreyttum rússneskum borgurum og þremur fyrirtækjum sem tengdust nettröllamiðstöð í St. Pétursborg.

Enn þann dag í dag er njósnastofnunin almennt þekkt undir skammstöfuninni GRU. Öryggismálasérfræðingar segja að GRU hafi undanfarin ár átt aðild að mörgum illvirkjum eins og eldflaugaárásinni á farþegaflugvélina yfir Úkraínu, aðgerðum í Sýrlandi og afskiptum af bandarísku kosningunum.

Í ákærunni frá Mueller og samstarfsmönnum hans sem nú hefur verið birt eru tvær rússneskar tölvu-njósnamiðstöðvar nefndar, ein skammt frá Gorkíj-garði í miðborg Moskvu og hin nálægt verslunarmiðstöð í úthverfi borgarinnar. Frá þeim hafi gerð víðtæk tölvuatlaga að bandarísku forsetakosningabaráttunni árið 2016.

Einn þeirra sem nefndur er í ákærunni heiti Viktor B. Netjiksho. Hann er sagður hafa stjórnað hópnum sem braust inn í tölvukerfi stjórnar Demókrataflokksins. Hann er alnafni manns sem stundaði tölvufræðinám árum saman og hefur birt fræðigreinar um tölvumál.

Árið 2003 lagði hann til dæmis fram fræðiritgerð í háskólastofnun sem var í tengslum við rússnesku leyniþjónustuna, FSB. Þessi stofnun sérhæfir sig í dulmálsletri.

Bandarískar njósnastofnanir höfðu þegar komist að vel rökstuddri niðurstöðu um að GRU hefði búið til netverja og kallað hann Guccifer 2.0 og vefsíðuna DCLeaks.com. Með þessu hafi GRU komið á framfæri tölvubréfum sem stolið var frá stjórn Demókrataflokksins og formanni forseta-kosningastjórnar Hillary Clinon, John D. Podesta, á árinu 2016.

Igor V. Korobov, forstjóri GRU, þrír aðstoðarforstjórar hans voru fyrstir settir á refsilista Obama-stjórnarinnar í desember 2016 vegna afskipta þeirra af kosningunum. Í mars 2018 kynnti bandaríska fjármálaráðuneytið að nýjar refsiaðgerðir hefðu komið til sögunnar gegn GRU og Korobov.

Obama-stjórnin beindi einnig spjótum sínum gegn Sergei A. Gizunov, vara-forstjóra GRU. Þá var ekki getið um samband Gizunovs við hóp innan GRU, Einingu 26165, sem í ákærunni nú er lýst sem höfuðgeranda í árásinni á stjórn Demókrataflokksins.

Gizunov stjórnaði þessari einingu á sínum tíma eftir því sem sagði í stjórnarblaðinu Rossískaja Gazeta árið 2009 þegar skýrt var frá því að Gizunov hefði unnið ríkisverðlaun á sviði vísinda.

Bellingcat, hópur sem rannsakar framvindu deilunnar í Úkraínu á opnum gagnagrunnum, segir að rússneski herforinginn sem skaut niður farþegavél Malaysia Arline flug 17 frá Amsterdam til Kuala Lumpur árið 2014 hafi verið starfsmaður GRU.

Fyrr á þessu ári greip Bandaríkjastjórn til refsiaðgerða gegn GRU fyrir að brjóta gegn banni gegn dreifingu kjarnorkuvopna í Íran, Norður-Kóreu og Sýrlands en í því felst að bannað er að láta í té tækni eða tæki sem nota má til framleiðslu á gjöreyðingarvopnum eða eldflaugakerfum.

 

Heimild: New York Times

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …