
Lars Findsen, forstjóra leyniþjónustu danska hersins, FE, (Forsvarets Efterretningstjeneste), hefur verið vikið tímabundið frá störfum eftir að eftirlitsnefnd með starfsemi FE telur hann og tvo samstarfsmenn hans ekki hafa farið að lögum við störf sín. Samstarfsmönnunum var einnig vikið til hliðar mánudaginn 24. ágúst.
Eftirlitsstofnunin telur að starfsmennirnir hafi gerst brotlegir við ýmis lög, nefnd eru persónuverndarlög, brot á upplýsingaskyldu við eftirlitsnefndina og villandi rannsóknir á vegum stofnunarinnar.
Danska varnarmálaráðuneytið sendi stutta tilkynningu um frávikninguna mánudaginn 24. ágúst og upplýsingafulltrúi ráðuneytisins sagði við danska ríkisútvarpið, DR, að hann hefði engu við fréttatilkynninguna að bæta.
Verkefni FE snúa að upplýsingaöflun erlendis, hernaðarlegu öryggi og netöryggi. Á vegum lögreglunnar starfar PET (Politiets Efterretningstjeneste) sem sinnir upplýsingaöflun innan lands og gætir innra öryggis.
Ein stofnun hefur eftirlit með starfsemi FE og PET, hún er þekkt undir skammstöfuninni TET (Tilsynet med Efterretningstjenesterne). Það var TET sem tilkynnti að hún væri að rannsaka misbresti í starfsemi FE og sagði að hún hefði undir höndum „umtalsvert magn gagna varðandi FE“.
Í DR upplýsti TET að áður en eftirlitið kom til sögunnar árið 2014 hefði FE stofnað til aðgerða sem brytu gegn dönskum lögum, þar á meðal söfnun og miðlun upplýsinga um danska ríkisborgara.
TET sagði einnig að rannsókn stofnunarinnar hefði hafist á grundvelli upplýsínga sem hefðu borist frá „einum eða fleiri“ uppljóstrurum.
Í yfirlýsingu sem TET birti á vefsíðu sinni mánudaginn 24. ágúst er því haldið fram að FE láti ekki upplýsingar af hendi; láti undir höfuð leggjast að grafast fyrir um réttmæti ábendinga um njósnir innan varnarmálaráðuneytisis; tileinki sér „óviðeigandi umgengni við lögin“ með því að halda leyndri starfsemi sem sé hugsanlega heimildarlaus,; og afli og dreifi umtalsverðu magni upplýsinga um danska ríkisborgara í andstöðu við dönsk lög.
Þá sakar TET einnig FE um „óhæfilega meðferð á upplýsingum varðandi starfsmann TET“. Þetta er túlkað á þann veg að TET saki FE um njósnir gegn starfsmanni TET.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði við DR og TV2 að það lægi í augum uppi að leyniþjónusturnar yrðu að fara að lögum. Nauðsynlegt væri fyrir danska ríkið að halda úti vel starfhæfum leyniþjónustum og þess vegna yrði farið í saumana á skýrslu TET og ábendingum sem þar væri að finna.
„Af hálfu ríkisstjórnarinnar er þetta mál litið mjög alvarlegum augum,“ sagði forsætisráðherrann. „Sé haldið uppi óháðu eftirliti á þann veg sem gert er ber að sjálfsögðu veita því aðgang að öllum upplýsingum sem óskað er.“
Fyrir utan að þjá starfsmenn FE var Thomas Ahrenkiel, fyrrverandi forstjóri FE, einnig settur til hliðar. Hann var ráðuneytisstjóri í varnarmálaráðuneytinu til 1. ágúst 2020 og beið eftir að taka til starfa sem sendiherra Danmerkur í Þýskalandi.