Home / Fréttir / Njósnaferð kínverska belgsins staðfest – Lisa Murkowski átelur herinn

Njósnaferð kínverska belgsins staðfest – Lisa Murkowski átelur herinn

Leitað að braki við strönd S-Karólínu.

Bandaríska utanríkisráðuneytið segir að með búnaði um borð kínverska loftbelgnum sem skotinn var niður við austurströnd Bandaríkjanna laugardaginn 4. febrúar hafi mátt fylgjast með fjarskiptum.

Talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði fimmtudaginn 9. febrúar að loftbelgurinn hefði verið búinn sólarskjöldum sem voru nógu stórir til að framleiða orku til að knýja „fjölþætta virka nema til njósna“. Belgurinn hefði borið loftnet sem „líklega gátu safnað og staðsett fjarskipti“.

Þessi fullyrðing stangast á við það sem kínversk stjórnvöld segja. Þau halda því fram að líta beri á belginn sem borgaralegt loftfar sem nýtist fyrst og fremst í þágu veðurathugana.  Bandaríska varnarmálaráðuneytið hafnar þessari skýringu Kínverja, belgurinn hafi verið notaður til eftirlits.

Xie Feng, vara-utanríkisráðherra Kína, sagði að hann hefði kvartað formlega við bandaríska sendiráðið í Peking vegna málsins sem hefði „alvarlega skaðað“ tilraunir ríkjanna til að skapa að nýju stöðugleika í samskiptum sínum. Bandaríkjamenn hefðu beitt „óvönduðum aðferðum gegn borgaralegum loftfari sem var að yfirgefa lofthelgi Bandaríkjanna, viðbrögðin voru augljóslega úr hófi og brutu gegn anda alþjóðalaga og alþjóðavenju“.

Kínverska utanríkisráðuneytið áskildi Kínastjórn rétt til gagnaðgerða. Kínverska varnarmálaráðuneytið tók undir þessa skoðun.

Bandarísk orrustuþota skaut kínverska belginn niður yfir Atlantshafi með heimild Joes Bidens Bandaríkjaforseta. Ákvað herstjórn Bandaríkjanna að láta loftbelginn svífa á haf út áður en honum var grandað. Var það gert til að minnka hættu á að brek úr belgnum ylli tjóni. Belgurinn kom frá Kanada inn yfir Bandaríkin 1. febrúar, sveif hann frá Idaho í norðvestri til Karólínuríkjanna í suðaustri og þar á haf út.

Bandaríska utanríkisráðuneytið segir að Kínverjar hafi áður sent svipaða loftbelgi yfir meira en 40 lönd í fimm heimsálfum.

Reiði öldungadeildarþingmanna

Fulltrúar bandaríska varnarmálaráðuneytisins sátu fyrir svörum vegna ferða loftbelgsins í undirnefnd fjárlaganefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings fimmtudaginn 9. febrúar.

Þegar reiðir þingmenn spurðu hvers vegna ekki hefði verið ráðist gegn loftbelgnum strax og hann kom inn í bandaríska lofthelgi við Alaska undir lok janúar sögðu embættismenn ráðuneytisins að það hefði meðal annars ráðist af því hve hættulegt hefði verið að leita að braki úr belgnum í köldu íshafinu fyrir utan hve hafið væri djúpt á þeim slóðum.

Melissa Dalton aðstoðar-varnarmálaráðherra sagði að það hefði ráðið miklu um allar ákvarðanir herstjórnarinnar að takast mætti að bjarga braki úr belgnum og rannsaka tækin um borð í honum. Að ná því markmiði hefði orðið mjög erfitt við eða yfir Alaska.

Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Alaska, fann að því við embættismennina að ekki skyldi snúist gegn belgnum yfir ríki hennar, sagði hún Alaska „fremstu varnarlínu Ameríku“.

Af ríkjum Bandaríkjanna er Alaska með einna flesta hermenn undir vopnum eða rúmlega 20.000 auk þess sem í flugherstöð þar verða fleiri fimmtu kynslóðar orrustuþotur en á nokkrum öðrum stað í heiminum segir í blaði varnarmálaráðuneytisins Stars and Stripes 10. febrúar. Þar segir einnig að Alaska sé einnig þungamiðjan í stefnu varnarmálaráðuneytisins sem miðar að því að bregðast við aukinni hervæðingu Rússa og Kínverja á norðurslóðum.

Murkowski sagði að réðust Rússar eða Kínverjar til atlögu við Bandaríkjamenn færu þeir um Alaska, um það efaðist enginn.

Hershöfðinginn Douglas Sims, aðgerðarstjóri sameinaða herráðsins, sagði þingmönnunum að af hálfu hersins hefði ekki verið litið á um 60 m háan loftbelginn sem óvinveittan þegar hann sveif yfir Alaska. Hann hefði ekki farið yfir hernaðarlega viðkvæm mannvirki. Yfir Alaska hefði hann ekki getað safnað viðkvæmum upplýsingum. Öðru máli gegndi þegar belgurinn kom frá Kanada inn í Idaho, þá hefði verið gripið til aðgerða til verndar ákveðnum stöðvum.

Öldungadeildarþingmenn létu í ljós áhyggjur á fundinum 9. febrúar yfir því að Kínverjar mundu færa sig upp á skaftið vegna þess hve seint bandaríski herinn brást við núna, þeir mundu láta reyna enn frekar á hve langt þeir gætu  gengið áður en þeir yrðu fyrir bandarískri mótspyrnu.

„Að mínu áliti hafa Kínverjum verið send skýr skilaboð um að þeir eigi opna leið í Alaska vegna þess að ekki verði amast við flugi þeirra fyrr en þeir nálgist viðkvæmari staði,“ sagði Murkowski.

 „Á hvaða stigi segjum við að eftirlitsbelgur, njósnabelgur frá Kína ógni fullveldi okkar? Það ætti að vera á þeirri mínútu sem hann fer yfir strikið, þetta strik er Alaska,“ sagði Lisa Murkowski.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …