Home / Fréttir / Njósnabúnaður til hlerunar á þökum rússneskra sendiráða

Njósnabúnaður til hlerunar á þökum rússneskra sendiráða

Starfsmenn STT tóku myndir af að minnsta kosti 11 gervihnattardiskum og loftnetum á húsaþyrpingu rússneska sendiráðsins í Helsinki.

Fjölþjóðlegur hópur rannsóknarblaðamanna, VSquare, hefur birt niðurstöður úttektar í 15 löndum sem sýna að í þeim er að finna alls 182 loftnet á þökum 39 ólíkra bygginga rússneskra sendiráða.

Finnska fréttastofan STT  segir að loftnet og gervihnattardiskar á byggingum rússneska sendiráðsins í Helsinki gefi til kynna að um tæki til njósna sé að ræða.

Starfsmenn STT tóku myndir af að minnsta kosti 11 gervihnattardiskum og loftnetum á húsaþyrpingu rússneska sendiráðsins í Helsinki.

Blaðamenn Vsquare ræddu við sérfróða menn um njósnir sem sögðu að tólin sem sæjust á húsþökum væru bæði notuð til að vernda fjarskipti sendiráðanna sjálfra og til að hlera farsíma og önnur fjarskiptatæki í gistilandinu.

Ræddu blaðamennirnir meðal annars við Jack Watling, sérfræðing hjá Royal United Services Institute (RUSI) í London. Hann skoðaði myndirnar frá STT og sagði að loftnetin væru líklega hönnuð til að hlera fjarskipti.

Njósnir af þessu tagi með gervihnattardiskum og loftnetum eru kallaðar merkjanjósnir (e. signal intelligence) og er þá vísað til þess að safnað er rafrænum merkjasendingum og þær greindar.

Watling segir að sendiráð noti yfirleitt stór þakloftnet til dulkóðaðra fjarskipta.

„Á þaki rússneska sendiráðsins í Helsinki eru að minnsta kosti þrjú stór fjarskiptaloftnet sem líklega má nota til að senda dulkóðað efni miklar vegalengdir,“ sagði Watling við finnska ríkisútvarpið, Yle. „Auk þeirra eru mörg minni loftnet sem þjóna líklega þeim tilgangi að hlera fjarskipti annarra stofnana og finnskra ríkisstofnanna.“

Watling benti á að sendiráð væru kjörið athafnasvæði fyrir njósnara þar sem lög gistiríkisins næðu ekki til þess sem gerist innan veggja sendiráðanna. Þetta ætti ekki aðeins við um Rússa heldur gilti almennt í alþjóðlegum heimi njósna.

Finnska öryggislögreglan Supo vildi ekki ræða þetta mál við STT.

Í frétt Yle um málið er vitnað í samtal við Mikko Porvali, doktorsnema í njósnasögu við Jyväskylä-háskóla. Hann segir merkjanjósnir vera lykilaðferð í starfsemi njósnastofnana.

„Ríki hafa margar aðrar leiðir til að til að stunda merkjanjósnir fyrir utan sendiráð og byggingar þeirra, til dæmis flugvélar og skip,“ áréttaði Porvali.

Watling telur að Rússar geti fylgst með ferðum einstaklinga með því að safna merkjum frá farsímum þeirra og einnig hlerað símana. Hann benti á að í þessu skyni væri ekki nauðsynlegt að nota uppsettan tækjabúnað.

„Það er engin sérstök ástæða til að ætla að farsími sé meira óvarinn nálægt rússneska sendiráðinu veki viðkomandi einstaklingur ekki neinn áhuga Rússa. Sá sem Rússar hafa áhuga á er óvarinn fjarri rússneska sendiráðinu eins og nálægt því, það eru margar aðferðir sem nota má til að fylgjast með farsímum,“ sagði Watling við Yle.

Í frétt Yle er minnt á að hlerun á síma eða tölvusamskiptum sé aðeins heimil finnskum yfirvöldum með dómsúrskurði í Finnlandi.

Porvali bendir á að yfirvöld annars lands geti að sjálfsögðu ekki fengið slíka heimild frá finnskum dómara. Þess vegna verði erlend ríki að stunda merkjanjósnir með leynd í Finnlandi eða í hvaða landi sem er utan heimalands njósnaranna.

„Steli maður bréfi berst það aldrei til móttakanda. Rafrænt merki fer frá einum stað til annars þótt einhver hrifsi það til sín. Það er engin leið að sanna að það hafi verið gert,“ segir Porvali.

Hann segir að eina leiðin til að sanna njósnastarfsemina sé að fara inn í sendiráðið og taka í sundur tækin þar sem merkin eru geymd. Það sé hins vegar bannað með alþjóðasamningum að gera það.

Í úttekt rannsóknarblaðamanna VSquare kemur fram að mesti njósnabúnaður Rússa sé í Brussel. Vincent Van Quickenborne, dómsmálaráðherra Belgíu, sagði að það mætti rekja til höfuðstöðva NATO og ESB þar.

Í samtölum blaðamanna VSquare við fyrrverandi njósnara kom fram að skúrar á lóðum rússneskra sendiráða geymdu líklega tæki sem nota mætti til að hlera fjarskipti og farsíma. Skúrarnir væru notaðir til að fela þessi tæki fyrir myndavélum um borð í þyrlum eða drónum.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …