Home / Fréttir / Njósnaafrek: Mossad stal kjarnorkuvopnagögnum Írana í falinni vörugeymslu

Njósnaafrek: Mossad stal kjarnorkuvopnagögnum Írana í falinni vörugeymslu

Benjamin Natanyahu, forsætisráðherra Ísraela, sýnir írönsku leynigögnin.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraela, sýnir írönsku leynigögnin.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, skýrði mánudaginn 30. apríl frá þúsundum skjala og hundruð gagnadiska sem ísraelskum leyniþjónustumönnum, starfsmönnum Mossad, hafði á einstakan hátt tekist að stela frá Teheran, höfuðborg Írans. Í gögnunum er sagt frá framkvæmd kjarnorkuáætlunar Írana. Þarna er að finna lýsingu á gerð kjarnorkusprengju sem talið er að írönsk stjórnvöld hafi ætlað að geyma til síðari tíma smíði hennar.

Vegna blaðamannafundarins sem Netanyahu hélt til að kynna gögnin hafa stuðningsmenn þess sem á ensku nefnist Joint Comprehensive Plan of Action (JCPOA), það kjarnorkusamningsins við Írana, gripið til þess ráðs að gera sem minnst úr gildi þessara gagna. Því er haldið fram að í þeim sé ekki að finna neitt nýtt.

Á vefsíðu bandaríska tímaritsins Commentary segir í grein eftir Noah Rothman að í þessum málflutningi um lítið gildi gagnanna sé litið fram hjá því sem raunverulega skipti máli. Hér verður stuðst við þessa grein sem birtist miðvikudaginn 2. maí.

Um 100 starfsmenn Mossad unnu að því að ná írönsku gögnunum en þar er að finna 55.000 prentaðar blaðsíður og 183 gagnadiska sem hafa að geyma nákvæmar upplýsingar um kjarnorkusprengju-áætlun Írana. Allt var þetta geymt í almennri birgðaskemmu í Teheran. Talsmenn kjarnorkusamningsins við Írana vilja gera sem minnst úr þessari einstæðu aðgerð. Jeffrey Lew við Middlebury Institute of International Studies sagði að Netanayahu hefði efnt til áróðurskynningar á árangri njósnaranna sem snerist í raun aðeins um að upplýsa það sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefði þegar upplýst. Trita Paris, forstöðumaður National Iranian American Council (NIAC), sagði að í raun hefðu Ísraelar stolið frá IAEA en ekki úr leynilegri geymslu Írana. Ben Rhodes, sem var vara-þjóðaröryggisráðgjafi Baracks Obama sagði að þetta hefði allt verið „vel þekkt fyrir Íransamninginn“. Tommy Vietor, fyrrverandi talsmaður þjóðaröryggisráðs Obama, gekk svo langt að saka stjórnir Bandaríkjanna og Ísraels um að „kokka upp upplýsingar“ til að réttlæta fráhvarf frá JCPOA.

Á vefsíðu Commentary segir Noah Rothman að öll þessi ummæli einkennist af ákafri viðleitni til að fara fram hjá aðalatriðinu. Hafa beri í huga að skjölin séu öll frá því áður en samningurinn var gerður árið 2015 og sýni þess vegna eðli málsins samkvæmt engin brot á honum, þar sé þó alls ekki að finna gamlar fréttir.

Þarna eru nákvæmar tæknilegar upplýsingar sem hafa ekki áður verið kunnar á Vesturlöndum og sama er að segja um kjarnorkutilraunasvæði sem Íranir höfðu valið. Stórtíðindin felast þó ekki í því sem segir í skjölunum. Að þau skuli yfirleitt vera til eru stórtíðindi og einnig hitt að þau voru geymd í húsi sem var valið til að fela þau fyrir alþjóðlegum eftirlitsmönnum.

John Kerry, fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði hvað eftir annað við almenning og þingmenn að alþjóðlegir eftirlitsmenn yrðu að fá aðgang að öllum gögnum um kjarnorkuvopnasögu Írana við samningsgerðina – án slíks aðgangs yrði ekki samið um neitt. Nú er því á hinn bóginn haldið fram að helsta ástæðan fyrir mikilvægi samningsins sé að Íranir brutu gegn anda hans ef ekki beinum ákvæðum við gerð hans.

Enn er þó ástæða til að árétta að með því að einblína á upplýsingarnar sem Netanyahu miðlaði er litið fram hjá aðalatriðinu. Að skýrt skuli frá því að gripið hafi verið til svo ótrúlega flókinnar aðgerðar til að upplýsa heiminn er í sjálfu sér alvarleg áminning um hættulega þróun. Fréttamaðurinn Barack Ravid hjá Axios-vefsíðunni í Bandaríkjunum ræddi við ísraelska embættismenn sem sögðu honum að skjala- og gagnasafn írönsku kjarnorkuáætlunarinnar hefði verið flutt í felustað sinn í febrúar 2016 í þeim tilgangi til að fela hernaðarlegan þátt áætlunarinnar fyrir eftirlitsmönnum. Af hálfu Ísraela unnu hundruð njósnara og tengiliða þeirra árum saman að því að finna geymslustaðinn, aðeins lítill hópur íranskra embættismanna vissi um hann. Með því að segja frá aðgerðinni er tekin áhætta varðandi alla þá sem að henni komu og þeir ef til vill gerðir óvirkir þrátt fyrir einstæða þekkingu og reynslu sem ekki er fyrir hendi hjá neinum öðrum. Engin ríkisstjórn grípur til slíks án þess að kostir og gallar séu metnir af kostgæfni. Annaðhvort var það mat Ísraelsstjórnar að það væri þess virði vegna pólitískra hagsmuna að birta þessar upplýsingar eða stjórnin mat stöðuna þannig að aðstaða hennar í Teheran mundi hvort sem er missa gildi sitt vegna framvindu mála. Og óhætt er að segja að framvindan sé næsta ógnvænleg.

Á þremur mánuðum hafa Ísraelar gert þrjár loftárásir á írönsk skotmörk í Sýrlandi. Ísraelar segjast hafa skotið niður íranskan dróna í febrúar, hann hafi komið frá Sýrlandi inn í lofthelgi þeirra. Til að hefna fyrir þetta áhlaup réðust Ísraelar á og eyðilögðu fjórar stöðvar Írana og stjórnstöðina þaðan sem dróninn kom en hún laut íranskri stjórn. Í aðgerðinni skutu Sýrlendingar niður eina ísraelska flugvél með loftvarnakerfi sínu. Snemma í apríl gerðu Ísraelar loftárás á stöð íranskra byltingarvarðliða í Sýrlandi, þar voru íranskir hermenn og liðsmenn Hezbollah drepnir. Fyrir fáeinum dögum réðust Ísraelar síðan á tvær herstöðvar í Sýrlandi með tengsl við Írana og drápu nokkra tugi íranskra og sýrlenskra hermanna fyrir utan að kveikja í vopnabúri sem leiddi til nokkurra öflugra sprenginga. Tíðni aðgerða Ísraela eykst og bandarískir heimildarmenn segja að full ástæða sé að óttast hraðvaxandi þróun.

Fréttir berast um að á undanförnum tveimur vikum hafi Íranir flutt aukið magn af léttum vopnum og loftvarnaflaugum til Sýrlands til að styrkja eigin herafla þar og til árása á Ísrael. Hugsanlegt er að þessi liðs- og vopnaflutningur Írana hafi leitt til alvarlegustu niðurstöðu við mat ísraelskra stjórnvalda á stöðu sinni. Í fréttum NBC News í Bandaríkjunum sagði nýlega að þrír bandarískir embættismenn teldu Ísraela búa sig undir hernað og þeir óskuðu eftir bandarískri aðstoð.

Í lok greinar sinnar segir Noah Rothman að deilur innan Bandaríkjanna varðandi Íranssamninginn séu í raun aukaatriði vegna þess sem kunni að vera mun brýnna viðfangsefni: að bráðlega komi til átaka milli Ísraela og Írana svo að ekki sé minnst á staðgenglahernað íranskra stjórnvalda í Sýrlandi, Líbanon og Gaza. Með vísan til þessa sé ekki unnt afskrifa sem einskis virði ákvörðun Netanyahus um að skýra frá mesta njósnaafreki sögunnar í heilan mannsaldur.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …