Home / Fréttir / Níu rússneskir sendiráðsmenn reknir frá Finnlandi

Níu rússneskir sendiráðsmenn reknir frá Finnlandi

Pekka Haavisto, fráfarandi utanríkisráðherra Finna.

Starfandi ríkisstjórn Finnlands vísaði þriðjudaginn 6. júní níu rússneskum sendiráðsmönnum úr landi og sakaði þá um að hafa stundað njósnir.

Finnski utanríkisráðherrann, Pekka Haavisto, hefur ekki viljað skýra frá því hvernig njósnir Rússarnir stunduðu. Finnsk stjórnvöld væru undir það búin að Rússar gripu til gagnaðgerða.

Þegar blaðamenn gengu á Haavisto miðvikudaginn 7. júní vildi hann hvorki upplýsa hverjir hefðu verið starfstitlar Rússabnna í sendiráðinu né hve lengi þeir hefðu verið í Finnlandi.

Hann sagði að ráðuneytið hefði fengið skýrslur frá finnsku leyniþjónustunni um framgöngu sendiráðsmannanna og þær hefðu verið ræddar í ráðherranefnd um utanríkis- og öryggismál og við Finnlandsforseta. Það væru engin rök gegn brottvísun mannanna. Hún væri í samræmi við Vínarsamninginn um stjórnmálasamband ríkja.

Finnska ríkisstjórnin er ekki ein á báti þegar ákvörðun er tekin um að reka rússneska sendiráðsmenn úr landi vegna ólöglegra athafna þeirra. Þess er skemmst að minnast að norska ríkisstjórnin vísaði 15 rússneskum sendiráðsmönnum úr landi í apríl 2023. Skömmu síðar í apríl voru fimm Rússar reknir frá Svíþjóð fyrir að nota titla sem sendiráðsmenn til ólögmætra athafna.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …