
Níu ESB-ríki hafa samþykkt að koma á fót nýjum evrópskum herafla sem grípa megi til með stuttum fyrirvara á hættustundu. Bretar hafa ákveðið að taka þátt í þessu verkefni og líta á það sem leið fyrir sig til að eiga hernaðarleg tengsl við ESB-ríkin eftir úrsögn sína úr sambandinu.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hreyfði fyrst hugmyndinni um þetta nýja hernaðarlega samstarf í ræðu um framtíð ESB í Sorbonne-háskóla í september 2017.
Varnarmálaráðherrar frá Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Eistlandi, Spáni og Portúgal skrifuðu undir viljayfirlýsingu um málið í Lúxemborg mánudaginn 25. júní.
Ítalir höfðu lýst áhuga á þátttöku en nýja ríkisstjórnin þar heldur að sér höndum í málinu, að minnsta kosti að sinni.
Fréttaskýrendur segja að innan NATO standi ekki öllum á sama um þessa þróun. Embættismenn óttist að til tvíverknaðar kunni að koma auk þess sem Evrópuríki fjarlægist Bandaríkin.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sem tók þátt í umræðum í Lúxemborg um evrópsk öryggis- og varnarmál fyrir ríkisoddvitafund NATO í Brussel í júlí sagði við fjölmiðlamenn um viljayfirlýsingu ráðherranna:
„Ég fagna þessu framtaki þar sem ég tel að geta eflt viðbragðsflýti heraflans. Það er einmitt atriði sem NATO leggur mikla áherslu á um þessar mundir.
Í mínum augum mun þetta nýja framtak aðeins styðja við og raunar efla það starf sem nú fer fram innan NATO og miðar að því að styrkja og auka viðbragðsstyrk herafla okkar.“
Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakka, sagði við blaðið Le Figaro, sunnudaginn 24. júní:
„Innan varnarmálasamstarfs Evrópu þarf að þróa sameiginlega herstjórnarlist… Tímamörk eru of rúm innan ESB og ákvarðanir taka alltof langan tíma þegar hugað er að nauðsyn skjótra aðgerða vegna hættuástands í landi þar sem Evrópumenn telja að um ríka öryggishagsmuni sína sé að ræða.“
Á ensku kallast þetta nýja samstarf European Intervention Initiative (EII) – Evrópska íhlutunar frumkvæðið. Það er utan ramma ESB-samstarfsins og þess vegna geta Bretar tekið fullan þátt í því eftir úrsögn úr ESB.
Innan ramma ESB hefur verið stofnað til samstarfs í varnarmálum undir enska heitinu Permanent Structured Cooperation (PESCO) Fastmótaða samstarfsskipulagið um varnar og öryggismál. Voru starfsreglur innan þessa samstarfsramma til umræðu hjá varnarmálaráðherrum ESB-ríkjanna í Lúxemborg.
Upphaflega var ætlunin að íhlutunarheraflinn yrði undir hatti PESCO sem hefur að markmiði að samræma hernaðarútgjöld, gerð vopna og áætlanagerð en af hálfu Frakka var talið að það yrði erfitt að ná niðurstöðu á skömmum tíma um ákvarðanir í samstarfi ríkjanna 28.
Á meðan Bretar voru virkir þátttakendur innan ESB lögðust þeir gegn evrópsku varnarsamstarfi sem þeir töldu að kynni að raska samstarfinu innan NATO. Eftir að þeir ákváðu að kveðja ESB hafa þeir hins vegar hvatt til aukins varnarsamstarfs innan vébanda ESB.
Breska blaðið The Guardian hefur eftir frönskum embættismanni að þátttaka Breta í varnarmálasamstarfinu skipti sköpum þar sem samhljómur væri í afstöðu Frakka og Breta til hernaðarlegra viðfangsefna og hvernig ætti að takast á við þau. „Þetta á ekki við um samstarf allra ESB-ríkja,“ sagði heimildarmaðurinn.
Talið er að undir merkjum EII verði hugað að sameiginlegri áætlanagerð meðal annars vegna náttúruhamfara, íhlutunar á hættustundu eða brottflutnings fólks frá hættusvæðum.