Home / Fréttir / Niðurstöður varðandi fjölgun kjarnavopna á Kóla-skaga sagðar „ógnvekjandi“

Niðurstöður varðandi fjölgun kjarnavopna á Kóla-skaga sagðar „ógnvekjandi“

Kortið af Kóla-skaganum birtist á Barents Observer og sýnir fjögur kjarnorkuvopnabúr Rússa skammt frá norska bænum Kirkenes.
Kortið af Kóla-skaganum birtist á Barents Observer og sýnir fjögur kjarnorkuvopnabúr Rússa skammt frá norska bænum Kirkenes, neðst við ströndina til hægri.

Thomas Nilsen, ritstjóri vefsíðunnar Independent Barents Observer, birtir mánudaginn 8. maí langa grein á síðunni með gervihnattarmyndum þar sem hann sýnir að kjarnorkuvopnum fækki síður en svo á norðurslóðum. Þróunin á Kóla-skaga sé í andstöðu við allar hugmyndir um fækkun kjarnorkuvopna.

Minnt er á að í í nýja START-samningnum sé gert ráð fyrir að frá og með 5. febrúar 2018 verði langdræg kjarnorkuvopn í skotstöðu ekki fleiri en 1.550 hjá Bandaríkjamönnum annars vegar og Rússum hins vegar. Undanfarin tvö ár hafa Rússar fjölgað kjarnaoddum sínum í skotstöðu og eru þeir 215 fleiri en hámarkið leyfir.

Nilsen segir að miklar byggingarframkvæmdir séu á tveimur stöðum þar sem rússneski Norðurflotinn geymir kjarnaodda og langdrægar eldflaugar fyrir kafbáta (SLBM) við strönd Barentshafs. Af hálfu Barents Observer hafi menn rannsakað gervihnattarmyndir af Kóla-skaganum sem nálgast megi á Google Earth auk þess sem stuðst sé við tölur sem birtar hafa verið um kjarnaodda í Rússlandi. „Niðurstöðurnar eru ógnvekjandi,“ segir Thomas Nilsen í upphafi langrar úttektar sinnar (um 4.000 orð).

Gervihnattarmyndirnar sýni þó aðeins það sem sjáist ofanjarðar. Flestir kjarnaoddarnir séu geymdir neðanjarðar.

Fjögur kjarnorkuvopnabúr eru á Kóla-skaga. Ekki er vandasamt að finna þau á gervihnattarmyndum. Umhverfis þau er tvöföld eða þreföld gaddavírsgirðing, mikil öryggisgæsla og aðeins einn inn- og útgangur.

Zaozersk er kjarnorkuvopnabúrið næst Noregi í 65 km fjarlægð frá landamærunum við Grense Jakobselv, aðeins lengra en milli Reykjavíkur og Selfoss. Norski bærinn Kirkenes er í 94 km fjarlægð frá vopnabúrinu, álíka langt og Hella frá Reykjavík. Fjarlægðin að búrinu frá Finnlandi er 120 km, frá Reykjavík rétt austur fyrir Hvolsvöll. Öll kjarnorkuvopnabúrin fjögur á Kóla eru í innan við 190 km radíus frá Noregi og 180 km frá finnsku landamærunum.

Í ár, 2017, eru 30 ár liðin síðan Mikhaíl Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, flutti fræga ræðu í Múrmansk, 1. október 1987, og hvatti til þess að Norður-Evrópa yrði kjarnorkuvopnalaust svæði. Eftir það fækkaði kjarnaoddum á Kóla-skaga jafnt og þétt til ársins 2015, fimm árum eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti og Dmitríj Medvedev Rússlandsforseti rituðu undir nýja START-samninginn í Prag. Sagt var í júlí 2015 að Rússar ættu færri langdræga kjarnaodda í skotstöðu en Bandaríkjamenn, 1.582 á móti 1.597.

Nýjustu tölur um staðfestan fjölda kjarnaodda eru frá 1. apríl 2017. Nú eiga Rússar 1.765 kjarnaodda en Bandaríkjamenn 1.411. Rússar eru með öðrum orðum með 215 fleiri kjarnaodda en heimilað er miðað við hámarkið sem tekur gildi eftir níu mánuði. Spurning er hvort líklegt sé að Rússar fjarlægi rúmlega 200 kjarnaodda á innan við einu ári.

Fyrir utan þá kjarnaodda sem eru í skotstöðu eiga Rússar odda í vopnabúrum, talið er að 2.390 séu í varaliðsstöðvum og 4.300 í miðlægum geymslum, þar af um 2.700 sem séu úrelt og bíði úreldingar. Alls eiga Rússar því um 7.000 kjarnaodda annaðhvort í skotstöðu eða geymslum víðs vegar um Rússland.

Thomas Nilsen ræðir við Rasmus Gjedssø Bertelsen, prófessor við UiT – The Arctic University of Norway, norðurslóða háskóla Norðmanna í Tromsø. Prófessorinn segir að Kóla-skaginn ráði eins og áður úrslitum um aðgang Rússa að úthöfunum. Hann lýsir hvernig norðurslóðir hafa um aldir verið óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála, efnahagsmála og öryggismála.

„Nú á dögum eru norðurslóðir skilgreindar í ljósi hnattvæðingarinnar og stjórnmálalegra og landfræðilegra samskipta Rússa og vestrænna þjóða eftir kalda stríðið. Langdræg kjarnorkuvopn eru eins og áður þungamiðja í samskiptum stórveldanna sem mótast af stjórnmálum og landafræði. Staða Rússlands sem stórveldis ræðst mjög af kjarnorkumætti Rússa og kjarnorkuvopnajafnvæginu milli Bandaríkjamanna og Rússa. Ekkert hefur breyst þegar litið er til þessa langdræga kjarnorkuvopna jafnvægis. Stjórnmálalegt og landfræðilegt mikilvægi norðurslóða hefur ekki breyst heldur. Kóla-skaginn ræður því eins og áður úrslitum fyrir aðgang langdrægra kjarnorkukafbáta Rússa að úthöfunum og fyrir flugvélarnar og herskipin sem vernda þessa langdrægu kjarnorkukafbáta,“ segir Gjedssø Bertelsen við Barents Observer.

Hann hvetur yngri kynslóðina til að skilja gildi fælingarmáttar kjarnorkuvopna sem kom til sögunnar í kalda stríðinu og mikilvægt hlutverk norðurslóða.

„Almenningur, fjölmiðlamenn, fræðimenn, embættismenn og stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir samfellu í stjórnmálalegum og landfræðilegum aðstæðum sem hafa djúp áhrif á norðurslóðum en ákvarðast ekki af norðurslóðum. Sem prófessor í alþjóðastjórnmálum norðurslóða tek ég eftir að yngri samstarfsmenn og nemendur hafa oft ekki áhuga, þekkingu eða hæfni til að átta sig á kjarnorkuvopna hlið kalda stríðsins. Ég er rétt nógu gamall (42), bjó auk þess á Íslandi á níunda áratugnum og kynntist Keflavíkurstöðinni í kalda stríðinu svo að ég man því þá sögu. Að hafa stjórn á kjarnorkuvopnatækninni, sem getur leitt af sér mestu hörmungar, í stöðugleika og samskiptum sem mótast af fælingu og afvopnun felur í sér gífurlega mikla vitsmunalega áskorun. Það er því mjög mikilvægt að við viðhöldum og þróum þessa þekkingu og hæfni meðal námsmanna, ungra vísindamanna, stjórnmálamanna, embættismanna og annarra þótt hún virðist úr sér gengin. Þögula þjónustan heldur áfram þótt við heyrum ef til vill ekki í henni,” segir Rasmus Gjedssø Bertelsen.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …