Her Rússlands er talinn einn sá öflugasti á jarðarkringlunni og töldu sérfræðingar að hann sigraði í stríðinu í Úkraínu sem hófst fyrir 12 dögum.
Almennt var álitið að her Úkraínu hefði eflst í átta ára orrustum á Krímskaga og í Donbass en jafnvel bjartsýnustu álitsgjafar töldu hann ekki hafa afl til að stöðva volduga rússneska herinn í eigin hjólförum eins og nú hefur gerst í orðsins fyllstu merkingu.
Staðan kann að leiða til þess að Rússar verði undir í orrustum á vígvellinum og það hafi hugsanlega strategísk áhrif á heimavelli.
Eftir að Rússum mistókst að aflífa stjórnendur Úkraínu á fyrstu dögum átakanna er það mat sérfræðinga að annaðhvort bíði þeirra niðurlæging í ósigri eða þeir sæki fram af enn meiri grimmd og ofbeldi.
Ráðamenn í Moskvu sendu frá sér yfirlýsingu mánudaginn 7. mars sem má skilja á þann veg að þeir dragi úr kröfum sínum á hendur Úkraínumönnum. Talsmaður Kremlverja sagði að hernaðaraðgerðir gætu stöðvast „eftir augnablik“ hættu Úkraínumenn að berjast, breyttu stjórnarskrá sinni til að þurrka út allar líkur á NATO-aðild, sættu sig við að Krímskagi hefði gengið þeim úr greipum og viðurkenndu aðskilnaðarhéruðin í austurhluta Úkraínu.
Ekki er lengur minnst á kröfuna um að „afmá nazismann“ en hana bar hátt til að réttlæta innrásina í upphafi.
Herfræðingar benda á að sjái Rússar fram á að tapa í átökunum eða að pattstaða verði – sem kynni að verða litið á sem taktískan sigur Úkraínumanna – kynni það að leiða til meira ofbeldis á næstu dögum, einkum gegn almennum borgurum.
Andy Salmon, hershöfðingi, fyrrverandi yfirmaður breska landgönguliðsins, Royal Marines, sagði að Vladimir Pútin kynni að breyta borgum Úkraínu í „smá-Stalíngrad“ áður en átökum linnti. Hann sagði The Telegraph að rússneski herinn hefði verið „niðurlægður“. Vegna þess kynni Pútin að gripa til örþrifaráða til að hindra að innrás hans koðni niður.
„Úkraínumenn styrkja stöðu sína eftir því sem lengist í átökunum – þetta kann að enda í hryllilegri pattstöðu,“ segir Salmon hershöfðingi. „Þetta er niðurlæging nú þegar en verði Rússar reknir alveg á brott er það algjör ósigur fyrir Pútin. Þetta versnar enn þegar Rússar reyna að bæta stöðuna sér í vil. Þeir reyna kannski að mala Úkraínumenn mélinu smærra til ná tökum á þeim – það gerist ekki.“
Hershöfðinginn segir að ekki verið samið við Pútin nema hann hafi „einhverja útgönguleið“.
Michael Clarke, fyrrverandi forstjóri rannsóknastofnunarinnar Royal United Services Institute (RUSI) í Bretlandi, telur að Pútin sé „búinn“. „Við verðum að íhuga hvað gerist næst,“ sagði hann við Radio4.
Mark Galeotti, sérfræðingur í rússneskum öryggismálum, segir að árásin á Úkraínu leiði að lokum til þess að stjórnartíð Pútin ljúki: „Að sumu leyti er þetta eins og endalok Sovétríkjanna en þó stillt á meiri hraða áfram.“
Sársaukinn undan refsiaðgerðunum eykst og venjulegir Rússar sjá í gegnum vitleysuna um „afmánun nazismans“. Hann segir einnig að frásagnir heimkominna, særðra rússneskra hermanna af hörmungum stríðsins muni hafa mikil skoðanamyndandi áhrif á almenning.
„Við sáum þennan gang mála í Afganistan. Þetta grefur enn frekar undan lögmæti ríkisstjórnar sem glímir nú þegar við mikinn vanda,“ segir Galeotti.
Hann telur að enginn mannfjöldi muni „sækja að Kremlarkastala“ í bráð en sé litið á „almenna einangrun Kremlverja frá almenningi, held ég að við sjáum hana aukast núna“.