Home / Fréttir / Neyð í Norður-Kóreu

Neyð í Norður-Kóreu

Hungursneyð er landlæg í Norður-Kóreu.
Hungursneyð er landlæg í Norður-Kóreu.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Af og til berast fréttir frá Norður – Kóreu. Þær fjalla oftast nær um samskipti ríkisins við umheiminn. Ráðamenn í Pyongyang hafa lengi stefnt að því að koma sér upp öflugum eldflaugaflota sem að hluta til er búinn kjarnorkusprengjum. Þegar þeir skjóta eldflaugum á loft í tilraunaskyni er fjallað um það á heimsvísu enda stefna skotin friði í Austur – Asíu í hættu. Norður – Kórea komst líka í fréttirnar nýlega eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hitti Kim Jong-un leiðtoga landsins í Singapore og síðan í Víetnam. Fundirnir voru miklir áróðurssigrar fyrir Kim en aðrir höfðu lítið upp úr þeim. Bandaríkjaforseti virðist þó ekki tilbúinn til að gefa einræðisherrann upp á bátinn og hefur ekki viljað styggja hann með því að tala um mannréttindabrot stjórnvalda í Norður – Kóreu gegn eigin þegnum.

Sú sorgarsaga er tvímælalaust mikilvægasta fréttaefnið frá hinu lokaða ríki. Nýlega kom út skýrsla frá mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (e. Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights) er ber enska heitið The price is rights. Hún er um stöðu mannréttinda í Norður – Kóreu og er að mestu byggð á viðtölum við 214 flóttamenn frá landinu sem tekin voru árin 2017 – 2018. Fjallað er um hana í nýlegum greinum á vef breska ríkisútvarpsins (bbc.com). Í skýrslunni er sjónum aðallega beint að fæðuöryggi í landinu. Dregin er upp svört mynd af stöðu mála á þeim vettvangi. Stjórnvöld í Pyongyang hafa lengi átt erfitt með að brauðfæða landsmenn og ekki bætti úr skák að á 10. áratug síðustu aldar liðaðist matvæladreifikerfi stjórnvalda í sundur vegna afleitrar efnahagsstjórnunar. Þetta leiddi til hungursneyðar í landinu sem dró mögulega nokkrar milljónir landsmanna til dauða en ekki eru til nákvæmar upplýsingar um hversu margir fórust. Alþjóðasamfélagið kom til hjálpar en stjórnvöld í Norður – Kóreu hafa þó ætíð haft horn í síðu hjálparstarfsmanna enda vilja þau ekki að landsmenn hafi mikil samskipti við útlendinga. Í dag treysta hundruð þúsunda íbúa landsins á erlendar matargjafir. Á sama tíma hefur stjórnvöldum lítið gengið að auka matvælaframleiðslu í landinu enda fer stór hluti af takmörkuðu fjármagni ríkissjóðs í að styrkja herinn og þá sérstaklega kjarnorkuheraflann. Líf hins almenna borgara í landinu er því afar erfitt. Ekki bætir úr skák að þar sem óstjórn einkennir efnahag landsins hefur svarta hagkerfið að miklu leyti tekið yfir matvælageirann. Þar eru mútur alls ráðandi, nokkuð sem íþyngir borgurum landsins enn meira.

Líf þeirra hefur verið sérstaklega erfitt að undanförnu. Auk togstreitu við stjórnvöld hafa íbúar landsins orðið að takast á við þurrka, hitabylgju og síðan flóð sem leiddu til lítillar uppskeru í landinu. Að mati Sameinuðu þjóðanna eru um 10 milljónir landsmanna vannærðar. Þar sem íbúar landsins eru rúmlega 25 milljónir gerir þetta um 40% þeirra. Fjöldinn þarf ekki að koma á óvart þegar haft er í huga að Sameinuðu þjóðirnar gera ráð fyrir að um 70% landsmanna verði að komast af á um 300 grömmum af mat á dag. Sumar fjölskyldur borða próteinríkan mat einungis nokkrum sinnum á ári.

Stjórnvöld í Norður – Kóreu brugðust ókvæða við útgáfu The price is rights-skýrslunnar enda vilja þau meina að það sé ekki hægt að treysta heimildarmönnum sem hafi ekki áhuga á að búa í landinu. Ráðamenn í Pyongyang hafa lengi kennt alþjóðlegum refsiaðgerðum, sem komið var á til að reyna að koma böndum á vopnaþróun þeirra, um efnahagslegar ógöngur sínar. Af viðbrögðum þeirra að dæma má því ráða að þeir hafi ekki í hyggju að bæta hag landsmanna. Alþjóðasamfélagið verður því að halda áfram að beita þá þrýstingi eigi að vera von um að ástandið skáni.

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …