Home / Fréttir / Netvarnir NATO

Netvarnir NATO

visuel_interview-of-merle-maigre

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Eitt sinn voru einu vopnin sem notuð voru í átökum á milli manna steinar.  Svo komu spjót til sögunnar og síðan riddarar.  Af þessu má ráða að vopn eru sífellt að þróast.  Í dag er mikið gert úr netárásum og ekki að ástæðulausu.  Þeir sem bera ábyrgð á öryggis- og varnarmálum í heiminum velta þessum málaflokki því sífellt meira fyrir sér.

Þetta á m.a. við um Atlantshafsbandalagið.  Í grein sem Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri þess skrifaði nýlega fyrir sérhefti Prospect tímaritsins um netöryggi minnti hann á að í framtíðinni kunni bandalagið að virkja fimmtu grein stofnsáttmála þess vegna netárásar.  Þessi grein Atlantshafssáttmálans er kjölfesta NATO og kveður á um að aðildarríkin líti á árás á eitt bandalagsríki sem árás á þau öll.  Áhersla bandalagsins á netvarnir er ekki ný af nálinni en á leiðtogafundi bandalagsins í Prag árið 2002 komust þessi mál á dagskrá NATO.  Nokkrum árum síðar eða árið 2008 gaf bandalagið út stefnuskjal um hættuna sem stafar úr þessari átt.  Á leiðtogafundinum í Varsjá árið 2016 samþykktu aðildarríkin síðan að skilgreina netvarnir sem sérstakt öryggissvið (e. domain) sem NATO þarf að verja á sama hátt og það ver landsvæði, lofthelgi og hafsvæði bandalagsríkjanna.

Bandalagið hefur gert ýmislegt til þess að efla varnir sínar á þessu sviði.  NATO styður starfsemi netöryggisvarnarmiðstöðvar í Tallinn í Eistlandi (e. NATO Cooperative Cyber Defence Center of Excellence) sem komið var á fót árið 2008.  Við hæfi er að hafa hana í borginni en árið 2007 réðust netþrjótar á ýmis netkerfi í landinu.  Í nóvember 2017 samþykktu síðan varnarmálaráðherrar NATO að koma á fót stjórnstöð netvarna (e. Cyberspace Operations Centre).  Verður hún hluti af varnararmi bandalagsins en höfuðstöðvar hans eru í Mons í Belgíu (í Brussel eru höfuðstöðvar stjórnmálaarms NATO).  Áætlað er að stöðin verði fullmönnuð árið 2023.

Öryggishagsmunir Íslands

Íslendingar hugsa frekar lítið um öryggismál.  Þetta er að mörgu leyti skiljanlegt.  Við erum herlaus þjóð og við höfum notið þeirrar blessunar að sleppa að mestu við afleiðingar stríðsátaka.  Sumir segja að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af öryggismálum því friður ríki í okkar heimshluta.  Þetta er mikil skammsýni.  Ekki þarf mikla þekkingu á sögu Evrópu til þess að átta sig á því að hún einkennist öðru fremur af átökum milli þjóða.  Þannig má geta þess að um þessar mundir er þess minnst að áttatíu ár eru liðin síðan Þjóðverjar réðust inn í Pólland og hófu þar með síðari heimsstyrjöldina.  Hún stóð í sex ár og leiddi til mikilla hörmunga ekki síst í Evrópu enda var mannfall þar afar mikið.  Friðartímabilið sem verið hefur í stórum hluta álfunnar frá lokum heimsstyrjaldarinnar er nánast einsdæmi í sögu hennar.  Atlantshafsbandalagið á stóran þátt í því að engin hernaðarátök hafa átt sér stað í Vestur – og Mið – Evrópu frá 1945.  Aðild að bandalaginu er ekki aðeins trygging fyrir fjarlæga framtíð því við getum þurft á hjálp þess að halda fyrr en síðar.

Í þessari grein hefur verið fjallað um netvarnir bandalagsins.  Líkt og mörg önnur ríki treysta Íslendingar mikið á netið.  Þegar við hugsum um þennan málaflokk leiðum við hugann að farsímaeign og NETFLIX sjónvarpsveitunni.  Netið tengir hins vegar anga sína mun víðar.  Þannig eru allar þær stofnanir sem sjá um að halda samfélaginu gangandi tengdar við netið.  Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 er minnst á að mikilvægt sé að verjast netárásum.  Margt er þó óunnið á þeim vettvangi.  Við erum því nokkuð berskjölduð á þessu sviði.  Aðild að NATO getur mögulega fælt aðila frá því að gera umfangsmikla netárás á Ísland og við myndum að minnsta kosti njóta aðstoðar bandalagsríkjanna við að takast á við afleiðingar hennar.

Varasamt er þó að líta á netvarnir sem einfalt mál líkt og kemur fram í úttekt breska ríkisútvarpsins (BBC) á grein Stoltenbergs í Prospect tímaritinu.  Ljóst er hvernig hefðbundin átök líta út og hvernig á að bregðast við þeim.  Í kalda stríðinu snérist varnarstefna NATO um að hefta för herja Varsjárbandalagsríkjanna inn í Vestur – Evrópu.  Ekki hefði farið á milli mála hvenær þau átök hefðu hafist.  Erfitt getur hins vegar verið að skilgreina hvað teljist alvarleg netárás og hvaðan slík árás á upptök sín.  Jafnvel þegar hægt er að rekja hana til tiltekins ríkis er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvort hún hafi verið á vegum þess eða einstaklinga.  Því er mikilvægt fyrir öryggisbandalag líkt og NATO að viða að sér sem mestri þekkingu á þessu sviði svo það geti verndað bandalagsríkin í netstyrjöld.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …