Home / Fréttir / Neikvætt orkuverð í evrópskum vindorkulöndum

Neikvætt orkuverð í evrópskum vindorkulöndum

94ad41c3d4878455886fef1202f0b057-800x

Vegna þess að COVID-19-faraldurinn hefur leitt til offramboðs á rafmagni í Evrópu hefur orkuverð í álfunni sums staðar verið neikvætt. Þetta hefur einkum áhrif á vindorkumörkuðum segir í skýrslu sem birtist í fyrri viku og sagt er frá á vefsíðunni EUobserver í Brussel mánudaginn 5. október.

EnAppSys-fyrirtækið birtir upplýsingar um orkumarkaðinn birtir upplýsingar um markaðsþróun fyrstu níu mánuði ársins í nokkrum Evrópulöndum og segir að meðaltal neikvæðs orkuverðs hafi verið nærri 1% af tímanum.

Þetta er þrisvar eða fjórum sinnum lengri tími en á árunum 2015 til 2018 og tvisvar sinnum lengri en árið 2019.

Orkuverð verður neikvætt þegar markaðurinn getur ekki nýtt alla orkuna sem er framleidd. Ekki er alltaf auðvelt að stöðva orkuver og ræsa þau á ný og þess vegna kann að reynast ódýrara að greiða viðskiptavinum fyrir að nota orku í stað gjaldtöku.

Þessi neikvæðu viðskipti eiga sér hins vegar aðeins stað á heildsölustigi og skila sér ekki beint til þeirra sem kaupa orkuna á smásölumarkaði. Orkuverin reyna að stytta tímann sem þau greiða viðskiptavinum fyrir að nýta orkuna eins mikið og frekast er kostur því slíkur rekstur er að öllu leyti óhagkvæmur.

Sérfræðingur hjá EnAppSys, Alena Nispel, segir árið 2020 hafa algjöra sérstöðu. Sveiflur hafa aukist vegna COVID-19, meira er framleitt af endurnýjanlegri orku en áður og tengingar á milli markaðssvæða eru betri en áður.

Vindorkuver vega mjög þungt í Þýskalandi, Danmörku og á Írlandi og þar hafa orkuver framleitt meira en þau geta selt. Vegna COVID-19 nýttu kaupendur sér ekki „orkutoppa“.

Framleiðsla orkunnar ræðst af náttúruöflunum en þau stjórna ekki eftirspurninni. Leitað er hagkvæmra leiða til að „safna upp“ orku og miðla henni eftir þörfum.

Markaðssveiflur eru minni á mörkuðum þar sem minna fer fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum eins og til dæmis í Póllandi.

Markaðsreglur í Portúgal og á Spáni banna neikvæða verðlagningu og þar hefur hún ekki komið við sögu síðan 2015 og ekki heldur í Búlgaríu, Grikklandi, Rúmeníu, Póllandi og á Ítalíu.

Reynslan af því sem gerst hefur árið 2020 nýtist á komandi árum á evrópskum orkumarkaði þar sem spáð er stigvaxandi endurnýjanlegri orku. Framkvæmdastjórn ESB ætlar til dæmis að kynna stefnu um endurnýjanlega orkugjafa á hafi úti fyrir lok þessa árs.

Talið er að árið 2030 verði unnt að mæta 34% orkuþarfarinnar með endurnýjanlegri orku í Mið- og Suðaustur-Evrópu.

 

 

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …