Home / Fréttir / Neikvæðni í garð Kína eykst um heim allan

Neikvæðni í garð Kína eykst um heim allan

Donald Trump og Xi Jinping.
Donald Trump og Xi Jinping.

Könnun sem bandaríska rannsóknarmiðstöðin Pew gerði í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu og 11 öðrum löndum sýnir neikvæðara viðhorf í garð stjórnvalda í Peking en nokkru sinni fyrr.

Könnunin var gerð frá júní til ágúst í ár og birtust niðurstöður hennar þriðjudaginn 6. október. Meirihluti í hverju og einu landi þar sem íbúar svöruðu spurningum í könnuninni hafði neikvæða afstöðu gagnvart Kína. Alls var hringt í 14.276 einstaklinga.

Í Ástralíu, Bretlandi, Þýskalandi, Hollandi, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Suður-Kóreu, Spáni og Kanada var andúðin í garð Kína meiri en nokkru sinni frá því að Pew hóf að spyrja um þetta atriði fyrir meira en áratug.

Bent er á að könnunin er gerð á tíma COVID-19-faraldursins sem hófst í Kína og þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti berst fyrir endurkjöri 3. nóvember en kosningabaráttan hefur að verulegu leyti snúist um Kína þegar rætt er um utanríkismál.

Þá er einnig bent á að spenna hafi magnast stig af stigi í umræðum um vestræn viðskipti við kínversk tæknifyrirtæki á borð Huawei. Bretar og Ástralar eru meðal þeirra þjóða sem vilja ekki að Huawei eigi varanlega aðild að 5G-væðingu farkerfa sinna.

Niðurstöður Pew sýna að sé litið á meðaltal þjóðanna 14 sem spurðar voru komi í ljós að 61% svarenda telja að Kínverjar hafi brugðist illa við faraldrinum en 37% telja viðbrögðin hafa verið góð.

Þegar spurt var hvernig svarendum þætti Bandaríkjamenn hafa brugðist við faraldrinum töldu að meðaltali 84% að þeir hefðu gert það illa.

Pew segir að afstaðan til þess hvernig tekið var á faraldrinum af stjórnvöldum í Peking setji almennt svip á afstöðu fólks til Kína. Þeir sem segja illa staðið að málum séu mun líklegri en aðrir til að líta neikvæðum augum til Kína.

Þetta á einnig við um afstöðu fólks þegar spurt var um traust á Xi Jinping, forseta Kína. Að meðaltali 74% í löndunum 14 sögðu að þeir bæru „ekki of mikið eða ekkert traust til þess að Xi grípi rétt á heimsmálum“.

Meðal þeirra sem litu jákvætt til aðgerða Kínverja vegna COVID-19-faraldursins treystu aðeins 40% Xi að sögn Pew. Könnunin leiddi hins vegar í ljós að í flestum landanna naut Xi meira trausts en Trump. Í Þýskalandi sögðu 78% að Xi nyti einskis trausts hjá sér en 89% sögðu þetta sama um Trump.

Þegar spurt var um afstöðu til efnahagslegs styrkleika geta Kínverjar almennt vel við unað. Íbúar Bandaríkjanna, Japans og Suður-Kóreu voru einir um að telja Bandaríkin efnahagslegt forysturíki veraldar.

Könnunin var gerð í Ástralíu, Bandaríkjunum, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Japan, Kanada, Spáni, Suður-Kóreu, Svíþjóð og Þýskalandi.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …