Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar Barents Observer skrifar þar þriðjudaginn 21. desember 2021:
Eftir að finnska ríkis farskiptafyrirtækið Cinia og rússneska fyrirtækið Mergafon lögðu fyrr á þessu ári á hilluna áform um að leggja farstreng neðasjávar fyrir norðan Síberíu frá Evrópu til Asíu hafa nýir samstarfsaðilar tekið höndum saman um að kanna leið um Ísland, Grænland, Kanada, Alaska og til Japans.
Cinia hefur ásamt fyrirtækinu Far North Digital í Alasaka ákveðið að standa að verkefni um nýjan neðansjávar streng í Norður-Íshafi. Fyrirtækin tilkynntu þetta 21. desember.
Strengurinn hefur fengið heitið Far North Fiber Express Route. Í tilkynningu frá Far North Digital segir að aldrei fyrr hafi verið lagður ljósleiðari svo langa leið á botni Íshafsins frá Asíu til Norður-Ameríku, Norður-Evrópu og Skandinavíuskaga um Norðvesturleiðina [fyrir norðan Kanada].
Strengurnn liggur frá Norður-Noregi til Japans með hliðarstrengjum til Írlands, Íslands, norðurhluta Grænlands, fjögurra staða í heimskautahéruðum Kanada og Alaska áður en hann tengist tveimur landstöðvum í Japan.
Strengkerfið skiptist í þrjá fullsamtengda hluta: Asíska Norður-Kyrrahafshlutann, Norður-ameríska arktíska hlutann og Evrópska Norður-Atlantshafshlutann.
Frá strandstöð í Norðir-Noregi teygir strengurinn sig inn í finnska hluta Lapplands.
Ari-Jussi Knaapila, forstjóri Cinia, segir í fréttatilkynningu: „Spurn eftir öruggum og hröðum alþjóðlegum fartengingum á nýjum og ólíkum leiðum eykst. Far North Fiber nær til þriggja svæða heims þar sem notkun internetsins er mest, hér er því um sannkallað hnattrænt framtak að ræða.“
Vegalengdin um um Norðvesturleiðina er 14.000 km en hefði upphaflegu áformin staðist hefði leiðin verið 10.500 km frá Japan og Kína til Kirkenes í Noregi og Kólsaskaga í Rússlandi.
Cinia segir að á árinu 2022 verði hafin athugun á hvar best sé að leggja strenginn en það megi gera ráð fyrir að strengurinn komist í notkun í lok árs 2025.
Thomas Nilsen segir að ekki hafi verið hætt við að leggja ljósleiðara fyrir norðan Rússland en þar komi aðrir að verki en upphaflega var ætlað. Ætlunin sé að leggja strenginn frá Múrmansk til Vladivostok á Kyrrahafsströnd Rússlands.
Stofnstrengurinn heitir Polar Express og í honum eru sex ljósleiðarastrengir. Strengurinn er lagður í Íshafið á rússnesku landgrunni og áætlað er að með honum verði unnt að flytja 100 tetrabit á sekúndu. Hann verði kominn í gagnið árið 2026. Áður en til þess kemur, eða árið 2024, er ætlunin að taka í notkun þann hluta strengsins sem nær frá Teriberka, fyrir norðan Múrmansk, yfir Barentshaf og Karahaf með hliðarstrengi til Amderma, Narjan-Mar og Dikson.