Home / Fréttir / Navlníj sýnir Svartahafshöll Pútins á myndbandi

Navlníj sýnir Svartahafshöll Pútins á myndbandi

 

Svartahafshöll Pútins
Svartahafshöll Pútins

And-spillingarstofnun (FBK) rússneska andófsmannsins Alexeis Navalníjs setti nýlega myndband á YouTube sem sagt er sýna nákvæmlega leynilega höll og lúxus-aðstöðu sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur búið sér. Á tveimur dögum höfðu 40 milljónir manna skoðað myndbandið segir þýska fréttastofan DW fimmtudaginn 21. janúar.

Myndbandið var sett í loftið https://www.dw.com/en/russian-activist-says-he-toured-putins-rumored-palace/a-56306908 til að vekja athygli á mótmælafundum sem Navalníj og stuðningsmenn hann boða til laugardaginn 23. janúar. Rússnesk lögregluyfirvöld vara almenning við að koma saman undir formerkjum Navalníjs.

Höll fyrir Pútin

Á myndbandinu Höll fyrir Pútin: Sagan um stærstu múturnar segir að í byggingunni séu 18.000 fermetrar til afnota fyrir íbúa hennar og það hafi kostað 100 milljarða rúblna að reisa hana (1,2 til 1,4 milljarða dollara).

FBK segir ríkisfyrirtækin Rosneft og Transnefnt sem lúta stjórn bandamanna Pútins, Igors Setsjins og Nikolajs Tokarevs, hafi fjármagnað risaframkvæmdirnar við gerð hallarinnar og umhverfis hennar.

Orðrómur um forsetahöll skammt frá Svartahafi komst fyrst á kreik árið 2010 þegar fjármálagögnum var lekið af rússneska kaupsýslumanninum Sergei Kolesnikov. Meðal gagnanna voru verksamningar og önnur skjöl tengd fasteignarframkvæmdunum. Kolesnikov sagði að kaupsýslumaðurinn Nikolai Shamalov stæði fyrir framkvæmdunum fyrir hönd Pútins. Uppljóstrunin vakti umtalsverðan áhuga fjölmiðlamanna á sínum tíma. Nokkrum mánuðum síðar seldi Shamalov eignina til kaupsýslumannsins Alexanders Ponimarenkos sem sagðist ætla að breyta henni í hótel.

Aðgerðarsinnar í umhverfismálum hafa árum saman haft auga með framkvæmdunum og meðferð landareignarinnar. Þeim tókst meðal annars að taka myndir af höllinni. Dmitríj Shevtsjenko sem er í forystu fyrir Borgaralegu átaki gegn umhverfisglæpum (CIAEC) er einn þessara manna. Þýska fréttastofan DW ræddi við hann.

DW: Shevtsjenko, sýndi rannsóknarmyndband Navalníjs þér eitthvað nýtt?

Dmitríj Shevtsjenko: Já, ég vissi ekki að þeir hefðu gert skautasvell undir yfirborði jarðar. Þar fyrir utan sýndi myndbandið mér ekki margt nýtt. Það er hins vegar fyrsta tilraunin til að safna skipulega öllum upplýsingum í kringum þessa byggingarframkvæmd. Þeir sem að því stóðu eiga hrós skilið fyrir að bregða birtu á flókið fjárstreymi og gervifyrirtæki.

DW: Þú heimsóttir byggingarsvæðið árið 2011. Segðu okkur frá því.

Dmitríj Shevtsjenko: Við höfum fylgst með þessum framkvæmdum frá 2004 eða 2005 þegar áformin um að reisa mannvirki á Idokopas-höfða voru kynnt opinberlega. Við urðum reið vegna þessa því að það eru ósnortnir Pitsunda-furuskógar á svæðinu, þeir eru friðaðir í Rússlandi. Það blasti við að ryðja ætti skóginn. Þegar skjölin sem lekið var af Kolesnikov árið 2010 sýndu að byggingin sem þarna reis yrði ekki barnaheimili heldur bústaður fyrir Pútin Rússlandsforseta rannsökuðum við málið nánar.

DW: Hvers vegna fóruð þið á byggingarsvæðið?

Dmitríj Shevtsjenko: Árið 2011 fórum við Suren Gazarjan, starfsbróðir minn, með Ekaterinu Solovjovu aðgerðasinna og Rimmu Atsjmirovu blaðamanni frá rússneska dagblaðinu Sobesednik til að kynna okkur málið betur á staðnum. Ég tek fram að á framkvæmdatímanum var ekki mikil öryggisgæsla um svæðið. Við fórum veginn út úr Praskoveevka og fram hjá vegatálma. Við þurftum ekki að fela okkur, hliðið var opið. Við héldum að aðalbyggingunni, næstum að mikla innganginum sem skreyttur er með tvíhöfða erninum sem sést á myndbandi Alexeis Navalníjs.

Í fyrstu veitti enginn okkur athygli. Byggingarverkamenn fóru um án þess að spyrja okkur nokkurs. Þegar varðmenn ríksins (FSO) komu auga á okkur varð hins vegar uppi fótur og fit. Þeir bönnuðu okkur að taka fleiri myndir. Ég hafði sem betur fer falið minniskubb fullan af myndum í stígvélinu mínu. Þetta eru nú einu tiltæku myndirnar af svæðinu sem ekki voru teknar af byggingarverkamönnum.

Þeir vissu ekki hvað þeir áttu að gera við okkur. Tveir starfsmenn FSO sem báru einkenni stofnunar sinnar hlupu í átt til okkar. Þeir hringdu í lögregluna og af einhverri ástæðu einnig í landamæraverði. Stór hópur einkaráðinna öryggisvarða birtist einnig. Þeir hrifsuðu af okkur eigur okkar fyrir framan lögregluna. Þeir leituðu í bílnum okkar og fóru síðan með allt sem við áttum þarna inn í höllina, gráu bygginguna.

DW: Hvað sáuð þið á svæðinu?

Dmitríj Shevtsjenko: Við sáum allan miðhluta mannvirkisins og þar á meðal aðalinngang hallarinnar; við gengum umhverfis hana og að þeirri hlið sem snýr að hafi. Ég sá þá að skógurinn hafði verið ruddur við aðalinnganginn og snotur garður var kominn í hans stað. Trén við ströndina fengu að standa. Þar með var tryggt að ekki væri unnt að sjá bygginguna af hafi. Síðan fór ég í sal sem kallaður er Aqua Disco í mynd Navalníjs. Þar er einskonar gosbrunnur sem tengist tjörn. Við kíktum einnig inn í innri garðinn. Hliðið var læst en við gátum séð inn fyrir það.

DW: Vissuð þið á þessum tíma fyrir hvern var verið að reisa þennan bústað?

Dmitríj Shevtsjenko: Við vissum nákvæmlega hvar við vorum. Við vorum þó enn undrandi á að starfsmenn FSO hefðu komið til okkar. Opinberlega er höllin í einkaeign. Við spurðum hvað FSO-menn væru að gera þarna en fengum engin svör.

Okkur undraði einnig hve margir erlendir byggingarstjórar voru á svæðinu. Þegar FSO-mennirnir stöðvuðu okkur kom maður aðvífandi og sagði okkur vera þarna í leyfisleysi og bannað væri að taka myndir. Hann talaði rússnesku með ítölskum hreim. Þá hófu öryggisverðir einkafyrirtækja að taka dótið okkar. Við fréttum síðar að sá sem stjórnaði öllum þessum aðgerðum væri frá Balkanskaga.

DW: Hvað gerðist síðan? Hafði þetta einhverjar afleiðingar?

Dmitríj Shevtsjenko: Þeir sem voru þarna á framkvæmdasvæðinu voru rólegir og höfðu ekki átt von á gestum. Þeir vissu ekkert hvað þeir áttu að gera við okkur. Þeir ákváðu þó að taka allt myndefni af okkur með því einfaldlega að hirða allar eigur okkar. Síðan fór lögregla með okkur á Divnomorskoje-stöðina. Þar gáfum við skriflega skýrslu um að eigum okkar hefði verið stolið. Næsta morgun hringdi lögreglumaður úr þorpinu og sagði okkur að eigur okkar og skilríki hefðu fundist í skóginum. Þeir afhentu okkur að sjálfsögðu ekki minniskubbana. Öllu varðandi málið var stungið undir stól.

Fyrir okkur dró það hins vegar dilk á eftir sért. Seinna þegar Suren Gazarjan ók á staðinn og reyndi að skoða strandhlutann lenti hann í vandræðum í samskiptum við öryggisverði. Honum var stefnt fyrir dómara og neyddist hann þá til að hverfa úr landi.

DW: Hafið þið farið á svæðið eftir 2011?

Dmitríj Shevtsjenko: Við höfum ekki farið inn á svæðið. Við fylgdumst hins vegar með því sem gerðist í nágrenninu. Stórum hluta strandarinnar var lokað til að halda almenningi fjarri sjónum. Þetta vakti reiði fólks. Ég hef séð landamæraverði reka fólk af ströndinni. Fólkið var neytt til að taka niður tjöld sín og sýna skilríki. Þau voru skráð í bækur varðanna. Síðar sá ég í fjölmiðlum að Olympia, snekkja Pútins, hefði sést rétt utan við ströndina. Þá var hann greinilega í fríi þarna.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …