Home / Fréttir / Navlníj borinn til grafar í Moskvu

Navlníj borinn til grafar í Moskvu

Úr kirkjunni áður kistunni var lokað – forreldrar Navalníjs sitja lengst til vinstri á myndinni sem var dreift af baráttuvinum hins látna.

Mörg þúsund manns komu saman í Moskvu föstudaginn 1. mars þegar leiðtogi stjórnarandstæðinga, Alexei  Navalníj, var borinn til grafar.

Áður en stjórnendur Kirkju helgimyndar Frúarinnar sem sefar sorgir mínar í hverfi Moskvu, þar sem Navalníj bjó um skeið, opnuðu dyr kirkjunnar fyrir kistu hins látna, höfðu foreldrar hans og nánir vandamenn komið að mörgum lokuðum kirkjum borgarinnar.

Um tíma var óljóst hvort lík Navalníjs fengist flutt í kirkjuna í tæka tíð fyrir kveðjustundina sem hófst klukkan 14.00 að staðartíma (11.00 ísl. tíma). Fjölskyldan átti til dæmis í vandræðum með að fá líkbíl. Hafði mörgum útfararstjórum verið hótað öllu illu tækju þeir að sér þjónustuna.

Á myndskeiðum frá líkfylgdinni má sjá þegar fólk varpar blómum í átt að kistu Navalníjs og vottar honum virðingu með því að kalla nafn hans undir lófataki. Þú varst ekki hræddur – við erum ekki heldur hrædd, hrópaði fólkið og einnig: Frjálst Rússland!

Breska blaðið The Guardian segir að áður en útförin hófst hafi lögregla handtekið nokkra alkunna stuðningsmenn Navalníjs.

Júlía eiginkona hans ákvað að vera utan Rússlands af ótta við aðför yfirvalda léti hún sjá sig.

Alexei Navalníj andaðist 16. febrúar og fer tvennum sögum af því hvernig dauða hans bar að höndum í fangabúðum nyrst í Rússlandi. Hann hafði setið inni í þrjú ár af löngum fangelsisdómi fyrir andóf við stjórnvöld.

Óstaðfestar fréttir hafa verið birtar um að daginn eftir andlát hans hefði átt að senda hann til Vesturlanda í fangaskiptum.

Fjölskylda Navalníjs fékk ekki leyfi til að jarða hann 29. febrúar eins og hún vildi og henni var ekki heldur leyft að leigja sal fyrir minningarstund.

Fimmtudaginn 29. febrúar sagði Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, að hefðu menn ekki leyfi til að koma saman á opinberum vettvangi gerðust þeir lögbrjótar. „Þess vegna verða þeir látnir standa fyrir máli sínu sem taka þátt [í slíkum samkomum]“, og vísuðu orð hans til mannsafnaðar vegna útfarar Navalníjs.

Lögregla tók ekki til við að handtaka fólk fyrr en kista Navalníjs hafði verið lögð til hinstu hvílu í Borisovskíj-kirkjugarðinum. Þegar gengið var í garðinn mátti heyra Frank Sinatra syngja lagið My Way. Titillag kvikmyndarinnar Terrminator II var hins vegar leikið þegar kistan seig í gröfinni. Segir í fréttum að lagið hafi verið Navalníj kært.

Á myndskeiðum sem dreift var á samfélagsmiðlunum X og Telegram má heyra fólk hrópa á rússnesku: „Pútin er morðingi!“ Fjölmiðlamenn vekja máls á því að þessi framganga kunni að leiða þá sem hrópa til fangelsisvistar. Þótt þeir séu ekki teknir á staðnum megi greina þá síðar á myndum öryggislögreglunnar, FSB, sem hafi myndavélar um allt og nýti sér andlitsgreiningartækni til að hafa uppi á þeim sem hún vill grípa.

Julia Navalníja birti tilfinningaþrungna kveðju til manns síns á samfélagsmiðlinum Instagram og sagði meðal annars:

„Þakka fyrir 26 ár einstakrar hamingju. Já, jafnvel fyrir gleði síðustu þriggja ára. Fyrir ástina og fyrir að styðja mig alla tíð. Fyrir að fá mig til að hlæja, jafnvel úr fangelsinu. Fyrir að þú hugsaðir ávallt til mín.

Ég veit ekki hvernig ég get lifað án þín en ég mun reyna að vekja þér gleði og stolt þarna uppi. Ég veit ekki hvort mér tekst það eða ekki en ég geri mitt besta.

Við erum þess fullviss að við hittumst að nýju… Ég elska þig að eilífu. Hvíldu í friði.“

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …