Home / Fréttir / Navalníj var myrtur af mönnum Pútins, segja stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins

Navalníj var myrtur af mönnum Pútins, segja stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins

Aleksei Navalníj

Fangelsisyfirvöld í Jamal-Nenets-héraði nyrst í Rússlandi segja að heimsfrægi, rússneski stjórnarandstæðingurinn Aleksei Navaníj (47 ára) hafi látist að morgni föstudagsins 16. febrúar eftir göngu í fangelsisgarði. Hann missti meðvitund eftir gönguna og dó skömmu síðar þrátt fyrir læknishjálp.

„Öll hugsanleg neyðaraðstoð var veitt en hún bar ekki neinn árangur. Bráðalæknar staðfestu dauða fangans,“ sagði í tilkynningu yfirvalda og einnig: „Unnið er að greiningu á dánarorsök.“

Aleksei Navalníj afplánaði 19 ára fangelsisdóm fyrir andstöðu gegn Vladimír Púín Rússlandsforseta. Hann sat í fangelsi í Vladimir-héraði, um 230 km fyrir austan Moskvu, þangað til hann var fluttur í fangabúðir lengst í norðri síðla árs 2023.

Í rúmar þrjár vikur spurðist ekkert til hans en síðan birtist hann í fanganýlendu 3 í Kharp, fyrir norðan heimskautsbaug.

Skömmu eftir að fréttir bárust um nýjan dvalarstað hans hélt einn lögfræðinga hans til fangabúðanna til að hitta skjólstæðing sinn.

Navalníj lýsti umgjörðinni í nýja fangelsinu á gamansaman hátt í langri færslu á X:

„Jæja, nú klæðist ég jakka úr sauðagæru, er með ushanka-húfu [loðhúfu með eyrnaskjólum] og brátt fæ ég valenki [hefðbundna rússneska vetrarskó]. Á 20 daga ferð minni [milli fangelsa] hef ég safnað skeggi.“

Navalníj lét eins og hann líktist jólasveini. Hann hefði þó ekki séð nein hreindýr, aðeins mjög fallega smalahunda.

Eiginkona fyrrverandi fanga í Kharp segir að aðstæðum þar megi líkja við helvíti á jörðu. Fá fangelsi eru fyrir norðan fanganýlendu nr. 3. Mannvirkin eru á Nenets-túndrunni um 30 km frá Labjitnangi, bæ sem Gulag-fangar reistu á tíma Stalíns.

Frá því að Navalníj sneri aftur til Rússlands árið 2021 eftir að hafa jafnað sig í Þýskalandi af eiturbyrlun rúasnesku öryggislögreglunnar, FSB, hefur hann hlotið nokkra fangelsisdóma. Við dauða hans átti hann að sitja inni í um 19 ár.

Almennt er talið að hatur Vladimirs Pútins á Nvalaníj hafi verið meira en á nokkrum öðrum lifandi manni. Allur málatilbúnaður á hendur honum mótaðist af pólitískri óvild og átti ekki við neinar raunverulegar ástæður að styðjast.

Kira Jarmysh, blaðafulltrúi Navalníjs, sagði síðdegis föstudaginn. 16. febrúar við MediaZona að hún hefði þá ekki fengið neina staðfestingu á dauða hans umfram það sem sagði í tilkynningu frá fangelsisstjórninni í Jamal-Nenets-héraði.

„Lögfræðingur Alekseis flýgur nú til Kharp. Við látum heyra frá okkur um leið og við höfum einhverjar upplýsingar,“ sagði hún á samfélagssíðunni Telegram.

Jekaterina Shulman, landflótta rússneskur rannsakandi, segir við RusNews að fyrir viku hefði hún heyrt hljóðupptöku af Navalníj í réttarhaldi í Kharp.

„Þetta var rödd heilbrigðs, kraftmikils og óbugaðs einstaklings,“ segir hún. „Fyrir einni viku var hann heilbrigður og hlaðinn orku. Það er ekki unnt að trúa neinu öðru en um morð sé að ræða.“

Réttarhöldunum var framhaldið fimmtudaginn 15. febrúar og þá virðist Navalníj einnig heill heilsu og hressilegur.

Leonid Volkov, yfirmaður skrifstofu þeirra sem studdu Navalníj, segir að tilkynningin frá fanganýlendu 3 jafngildi „játningu um að þeir hafi drepið“ Navalníj í fangelsi – það sé þó enn beðið frekari frétta.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …