Home / Fréttir / Navalníj undan eftirliti FSB til þýskra lækna

Navalníj undan eftirliti FSB til þýskra lækna

 

Aleksei Navalníj fluttur í hersjúkrabíl á Charité-sjúkrahúsið í Berlín.
Aleksei Navalníj fluttur í hersjúkrabíl á Charité-sjúkrahúsið í Berlín.

Starfsmenn FSB, rússnesku njósna- og öryggislögreglunnar, eru sagðir hafa fylgst með ferðum Alexei Navalníj, stjórnarandstæðings í Rússlandi, áður en sagt er að eitrað hafi verið fyrir honum. Navalníj var fluttur flugleiðis frá Omsk í Síberíu til Charité-sjúkrahússins í Berlín aðfaranótt laugardag 22. ágúst.

Navalníj veiktist hastarlega í flugvél á leið frá Tomsk í Síberíu til Moskvu fimmtudaginn 20. ágúst og segja stuðningsmenn að eitrað hafi verið fyrir honum. Hann hafi verið undir nákvæmu eftirliti FSB dagana áður að sögn dagblaðsins Moskovskíj Komsomolets.

Í blaðinu er til ónafngreindra starfsmanna FSB sem segja að útsendarar stofnunarinnar hafi fylgst með Navalníj með eftirlitsmyndavélum á ferðalagi hans til Síberíu. Í fréttinni er að finna nákvæmar upplýsingar um hvar hann og félagar hans voru, við hverja þau töluðu og meira að sjá hvað þau borðuðu í ferðinni og hvar.

Eftirlit FSB var að sögn starfsmanna stofnunarinnar nógu nákvæmt til að draga megi þá ályktun að aðeins hefði verið unnt að eitra fyrir honum þegar hann fékk te í flugstöð fyrir brottför hans til Moskvu eða í flugvélinni sjálfri.

Kira Jarmjish, upplýsingafulltrúi Navalníjs, sagði ekki undrandi á fréttum um að svo vel hefði verið fylgst með ferðum hans. Undarlegt væri þó að FSB-mennirnir hikuðu ekki við að segja frá öllu eftirlitinu.

Zhanna Nemtsova, vinkona Navalníjs og dóttir rússneska stjórnarandstæðingsins Boris Nemtsovs, sem skotinn var til bana skammt frá Kreml, sagði við þýsku fréttastofuna DW að eitur hafi verið notað gegn Navalníj.

„Það er mikið af pólitískum föngum í Rússlandi. Fylgst er með andstæðingum Pútins. Sumir þeirra hafa verið myrtir. Faðir minn var myrtur aðeins fimm hundruð metra frá Kremlarveggjum,“ sagði hún.

Þegar Nemtsovar var spurð hver hefði að öllum líkindum staðið að baki þessari meintu eitrun svaraði hún: „Ég get ekki svarað þessari spurningu eina sem ég get sagt að Navalníj hefur öflugustu andstöðu-röddina í Rússlandi. Ég tel að Vladimir Pútin, forseti Rússlands, beri að minnsta kosti pólitíska ábyrgð á að eitrað var fyrir honum.“

Árið 2018 varð rússneska stjórnin að greiða 50.000 evrur í skaðabætur eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu sagði að Navalníj hefð nokkrum sinnum sætt pólitískri handtöku.

Líðan Nvalnijs er sögð „stöðug“ eftir að hann kom á Charité-sjúkrahúsið sem talið er eitt besta sjúkrahús Þýskalands. Rússneskir læknar neituðu að hann bæri með sér að hafa borðað eitur heldur glímdi hann við efnaskiptasjúkdóm.

Það voru frjáls félagasamtök í Berlín sem sendu flugvél frá Þýskalandi til að sækja Navalníj. Samtökin, Cinema for Peace Foundation, voru stofnuð árið 2002 og standa meðal annars stórstjörnur í Hollywood að baki þeim en fundið hefur verið að leyndinni sem hvílir yfir fjárhag samtakanna.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …