Home / Fréttir / Navalníj gabbaði FSB-útsendara sem staðfesti eiturárásina

Navalníj gabbaði FSB-útsendara sem staðfesti eiturárásina

Konstantin Kudrjavtsev
Konstantin Kudrjavtsev

Alexei Navalníj, kunnasti opinberi andstæðingur Vladimirs Pútins, sem varð fyrir eituráras í Síberíu í ágúst 2020 segir að sér hafi tekist að leika á rússneskan öryggislögreglumann og fengið hann til að viðurkenna að rússneskir njósnarar hefðu reynt að drepa sig með eitri. Navalníj dvelst nú í Þýskalandi en lífi hans var bjargað í ágúst og byrjun september 2020 undir læknishendi í Charité-sjúkrahúsinu í Berlín.

Á Bellingcat-vefsíðunni sem er vettvangur rannsóknarblaðamanna, vistuð í Bretlandi, er sagt frá 49 mínútna símtali sem Navalníji átti við rússneskan starfsmann FSB-öryggislögreglunnar sem viðurkenndi að FSB-menn hefðu eitrað fyrir rússneska stjórnarandstæðingnum. Rússneskir embættismenn þræta þó enn opinberlega fyrir það.

Mánudaginn 21. desember setti Navalníj á YouTube myndskeið undir fyrirsögninni: Ég hringdi í morðingja minn. Hann játaði. Á myndbandinu sést þegar Navalníj ræðir við þann sem hann segir FSB-mann.

Fyrir símtalið hafði rannsóknarblaðamönnum Bellingcat með aðstoð frá öðrum fjölmiðlum tekist að greina þrjá tilræðismenn gegn Navalníj. Eftir nokkur árangurslaus símtöl tókst Navalníj loks að fá einn FSB-mann, KonstantinKudrjavtsev, sem vann um tíma í eiturefnasveit FSB, til að skýra frá ýmsum atriðum í aðgerðinni gegn Navalníj

Navalníj þóttist heita Maxim Ustinov í símtalinu og sagðist vera aðstoðarmaður Nikolais Patrushevs, aðalritara rússneska öryggisráðsins. Hann hefði það verkefni að safna upplýsingum um morðtilraunina. Skýrslan færi á borð Vladimirs Pútins Rússlandsforseta.

FSB-maðurinn segir að hann hafi ekki tekið beinan þátt í eiturárásinni á Navalníj en hann hafi lagt mikið á sig við að hreinsa allar leifar sem gætu orðið til að tengja hana við banvæna, sovéska taugaeitrið novitsjok.

Í útskrift Navalníjs á símtalinu má sjá nákvæmar lýsingar Kudrjavtsevs á aðgerðum FSB til að hreinsa leifar eitursins. Þeir lögðu sig sérstaklega fram um að þvo öll föt Navalníjs og persónulega muni hans.

Þýska DW-fréttastofan segir að upptakan virðist sanna að FSB reyndi að myrða en ekki aðeins veikja eða hræða Navalníj. Á blaðamannafundi fyrir skömmu hló Vladimir Pútin hæðnislega þegar hann sagði að það sannaði að FSB hefði ekki átt hlut að máli að Navalníj væri enn á lífi. Gaf forsetinn á þann hátt til kynna að ættu FSB-menn að drepa einhvern gerðu þeir það. Ef til vill hefði verið eitrað fyrir Navalníj í Þýskalandi eða CIA, bandaríska leyniþjónustan, setti þetta á svið.

Í símtalinu sagði Kudrjavtsev að hefði flugferðin með Navalníj frá Tomsk „staðið örlítið lengur held ég að staðan hefði orðið önnur“. Vegna veikinda Navalníjs um borð nauðlenti vélin í Omsk.

Þá spurði Navalníj hvort „þessi einstaklingur“, það er hann sjálfur, hefði aðeins „lifað af vegna þess að vélin lenti of snemma“. FSB-maðurinn svaraði játandi og bætti við að hefði sjúkraflutningafólkið ekki staðið svo fagmannlega að verki hefði Navalníj líklega dáið.

Þá spurði Navalníj beint: „Var ætlunin að láta hann deyja í hótelinu eða um borð í flugvélinni?“ Kudrjavtsev svaraði: „Ég hef engar upplýsingar um það … ég held að það hafi átt að gerast skömmu síðar… Eða kannski var reiknað með að hann mundi fljúga því að eins og þú veist, já, það tekur þrjá tíma að fljúga, þetta er langt flug. Ef við hefðum ekki lent vélinni kynnu áhrifin að hafa orðið önnur.“

Þrátt fyrir áherslu FSB á að þvo líkama Navalníjs, föt hans og persónulega muni til að má burt allar eiturleifar fundust samt merki um eitrið.

Navalníj spurði Kudrjavtsev hvernig þýskir sérfræðingar gátu aflað sér vitneskju um eitrið. Hann svaraði: „Jú, þeir sneru sér til þýska hersins. Þar eru herfræðilegir efnafræðingar. Kannski búa þeir yfir einhverjum leitaraðferðum.“

Sérfræðingar í rannsóknarstofum í Þýskalandi, Frakklandi og Svíþjóð og hjá Stofnunni um bann við efnavopnum staðfestu að eitrað hefði verið fyrir Navalníj með novitsjok. Kudrjavtsev sagði að mestar eiturleifar hefðu fundist í fötum Navalníjs, einkum „innan á nærbuxum Navalníjs“ og í „saumum í klofinu“.

Ivan Zhdanov, forstjóri And-spillingarstofnunar Navalníjs, sagði við DW að Navalníj hefði greinilega rætt við einn af FSB-mönnunum sem komu að eiturárásinni á hann.

Samtalið sýni að hann „þekkti öll smáatriði aðgerðarinnar“. Hann tilgreindi „lykilmennina“ í FSB-hópnum sem er sakaður um að eitra fyrir Navalníj. Zhdanov sagði að hann og félagar hans gætu lagt fram „frekari sannanir um símtalið“.

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …