Home / Fréttir / Navalníj fluttur til langdvalar í fanganýlendu

Navalníj fluttur til langdvalar í fanganýlendu

Alexei Navalníj
Alexei Navalníj

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalníj hefur verið fluttur í fanganýlendu þar sem hann afplánar rúmlega tveggja ára refsivist sagði fangelsismálastjóri Rússlands föstudaginn 26. febrúar. Refsinguna hlýtur hann fyrir að hafa brotið gegn skilorði á meðan hann náði sér eftir eiturárás – var lífi hans bjargað með lækningu í Þýskalandi.

„Hann hefur verið fluttur þangað þar sem hann á vera samkvæmt dómi,“ sagði Alexander Kalashnikov fangelsismálastjóri við RIA Novosti-fréttastofuna. Hann vildi ekki skýra frá nafni fangelsisins en fullyrti að Navalníj tæki út refsingu sína við „algjörlega eðlilegar aðstæður“. Og hann bætti við: „Ég ábyrgist að ekkert ógnar lífi hans og heilsu.“

Í fyrri viku gaf Mannréttindadómstóll Evrópu rússneskum stjórnvöldum fyrirmæli um að láta Navalníj lausan, lífi hans væri hætta búin í fangelsinu. Þessari kröfu var snarlega hafnað í Moskvu.

Vadim Kobzefv, lögfræðingur Navalníjs, sagði við AFP-fréttastofuna föstudaginn 26. febrúar að hann vissi ekki hvar umbjóðandi sinn væri.

Í ágúst veiktist Navalníj í flugvél yfir Síberíu og var nauðlent með hann í borginni Omsk. Kom í ljós að honum hafði verið byrlað taugaeitrið novtsjok sem er frá Sovéttímanum í Rússlandi. Þýsk sjúkraflugvél var send til að bjarga honum sem tókst undir læknishendi á Charité-sjúkrahúsinu í Berlín. Dvaldist hann síðan nokkra mánuði í Þýskalandi. Navalníj sakar útsendara Vladimírs Pútins Rússlandsforseta um að hafa eitrað fyrir sér. Því hafna menn Pútins.

Um miðjan janúar sneri Navalníj aftur til Moskvu frá Þýskalandi en var handtekinn strax við komuna á flugvelli við Moskvu. Þá lýstu mannréttasamtökin Amnesty International Navalníj samviskufanga.

Miðvikudaginn 24. febrúar svipti Amnesty þó Navalníj þessari stöðu vegna gamalla ummæla hans sem kennd voru við hatursorðræðu. Amnesty vildi ekki tilgreina ummælin en Navalníj hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa á sínum tíma farið niðrandi orðum um ólöglega innflytjendur.

Amnesty varði ákvörðun sína fimmtudaginn 25. febrúar en sagðist mótmæla ofsóknum á hendur Navalníj og fangelsun hans. Í yfirlýsingu Amnesty sagði:

„Til að eyða öllum vafa skal tekið fram: Ekkert sem Navalníj hefur áður sagt réttlætir fangavist hans nú, að baki henni býr ekkert annað en pólitík.“

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …