Home / Fréttir / Navalníj-eiturárásin truflar Nord Stream 2 áformin

Navalníj-eiturárásin truflar Nord Stream 2 áformin

162076_582x327

Talsmaður Angelu Merkel Þýskaklandskanslara segir að hún telji „rangt að útiloka eitthvað“ þegar lagt er mat á neitun stjórnvalda í Moskvu að viðurkenna niðurstöður þýskra sérfræðinga um að eitrað hafi verið fyrir Alexei Navalníj, stjórnarandstæðingi í Rússlandi.

Navalníj var 22. ágúst fluttur í sjúkraflugvél frá Omsk í Síberíu til Berlínar í dái vegna eiturárásar. Þýskir læknar í Charité-sjúkrahúsinu héldu honum sofandi til þriðjudags 7. september þegar þeir sögðu að hann hefði verið vakinn og sýndi viðbrögð þegar við hann væri talað.

Sunnudaginn 5. september sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, að neikvæð viðbrögð frá Moskvu vegna eitrunarinnar þar sem enginn teldi sig þurfa að svara til saka kynni að ráða úrslitum um hvort Þjóðverjar hyrfu frá stuðningi sínum við Nord Stream 2 neðansjávargasleiðsluna sem rússneski orkurisinn Gazprom er að leggja til að flytja gas og selja í Þýskalandi.

Þegar Steffen Seibert, talsmaður Merkel, var spurður á blaðamannafundi mánudaginn 6. september hvort Merkel væri enn þeirrar skoðunar að ekki ætti að tengja eiturárásina á Navalníj og gasleiðsluna svaraði hann: „Kanslarinn er einnig þeirrar skoðunar að það sé rangt að úliloka eitthvað.“

Hann sagði að þýska stjórnin mundi að sjálfsögðu ekki bíða mánuðum saman eða til ársloka eftir svari frá Moskvu.

Gengið var til umdeilda gasleiðslu-verkefnisins á árinu 2018. Fimm orkufyrirtæki fjármagna það og verktakarnir eru 600. Hafa 1.855 km af leiðslu verið lagðir í rússneskri, finnskri, sænskri og þýskri lögsögu. Er lagning leiðslunnar á lokastigi.

Nú er gas flutt þessa leið með Nord Stream 1. Bandaríkjamenn hafa lengi gangrýnt að Evrópuríki vildu tvöfalda gasflutningsgetuna frá Rússlandi. Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði að beita verktaka viðskiptaþvingunum vegna aðildar þeirra að verkefninu.

Í ríkisstjórn Merkel með aðild kristilegra (CDU/CSU) og jafnaðarmanna (SPD) eru skiptar skoðanir um hvort blanda eigi málunum tveimur saman.

Upplýsingafulltrúi þýska efnahagsráðuneytisins sagði við Reuters-fréttastofuna mánudaginn 6. september að það hefði „mjög mikil“ áhrif á orkubúskap Þjóðverja ef hætt yrði við leiðsluna.

Án Nord Stream 2 er því spáð að verð á gasi hækki. Í staðinn er unnt að kaupa gas með skipum frá Bandaríkjunum og Katar eða eftir öðrum leiðslum frá Alsír, Líbíu eða Azerbaidsjan.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …