Home / Fréttir / NATO við góða heilsu 70 ára

NATO við góða heilsu 70 ára

BRUSSELS, BELGIUM - DECEMBER 04: Flags of the NATO member states stands in the NATO headquarters on December 04, 2018 in Brussels, Belgium. (Photo by Thomas Trutschel/Photothek via Getty Images)

Fjórða apríl verður þess minnst víða, þar á meðal á hátíðarfundi Varðbergs í Veröld, húsi Vigdísar, að 70 ár verða liðin frá stofnun NATO. Á vefsíðu bandarískra tímaritsins Foreign Affairs birtist miðvikudaginn 20. mars grein eftir Charles A. Kupchan, prófessor í alþjóðastjórnmálum, við Georgetown-háskóla í Washington undir fyrirsögninni: NATO vegnar vel þrátt fyrir Trump. Hér eru  kaflar úr greininni:

NATO 70 ára er í raun ákaflega vel á sig komið. Já, það er rétt evrópsk bandalagsríki hafa ekki staðið sig sem skyldi þegar litið er til útgjalda til varnarmála og sum ríki – sérstaklega Ungverjaland, Pólland og Tyrkland – hafa svert lýðræðislega stjórnarhætti. NATO hefur á hinn bóginn sýnt aðdáunarverða hæfni til að laga sig að nýrri geopólitískri stöðu eftir lyktir kalda stríðsins, tryggt að Bandaríkin og Evrópu vinna áfram saman. Bandalagið opnaði dyr sínar fyrir nýjum lýðræðisríkjum sem urðu til eftir hrun Sovétríkjanna og lagði sitt af mörkum til að festa öryggi og lýðræði í sessi í víðáttumeiri Evrópu. Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2014 hafa bandalagsríkin stigið mikilvæg skref til efla fælingarmátt sinn í því skyni að halda aftur af ævintýramennsku Kremlverja. NATO hefur stofnað til samstarfs við ríki um heim allan og framkvæmt metnaðarfullar aðgerðir langt út fyrir landsvæði aðildarríkjanna – þar má sérstaklega nefna Balkanríkin, Afganistan og Líbíu. Þetta hefur allt gerst á sama tíma og bandalagið hefur tileinkað sér ný verkfæri til að takast á við nýjar hættur eins og netógnir, hryðjuverk, fjölþættan hernað og farandfólk. Einmitt vegna þess að NATO hefur tekist fimlega og með góðum árangri að takast á við viðfangsefni sín nýtur bandalagið öflugs pólitísks stuðnings beggja vegna Atlantshafs svo að Trump stendur í raun einn sem hávær gagnrýnandi.

Þá er að geta þeirrar þverstæðu að lamandi árásir Trumps á bandalagið styrkja í raun NATO. Málsvarar bandalagsins koma úr fylgsnum sínum, einkum á Bandaríkjaþingi. Endurteknar skammarræður Trumps í garð bandamanna sinna fyrir að leggja ekki nóg fé af mörkum til varnarmála skila árangri: Evrópuríkin festa loksins meira fé í herafla sínum sem eykur aðeins líkurnar á því að Bandaríkjamenn ákveði að halda fast í Evrópu sem samstarfsaðila. Þá kunna efasemdir Trumps um stækkun NATO auðvelda lausn á viðvarandi ágreiningi um stækkunina, leiða bandalagsríkin til þeirrar skynsamlegu niðurstöðu að tímabært sé að loka opnum dyrum þess.

NATO hefur áttunda áratug sinn við góða heilsu vegna þess að bandalaginu tekst mjög vel að gæta sameiginlegra hagsmuna aðildarríkja sinna. Árás Rússa á Úkraínu hefur beint athyglinni innan NATO aftur að hefðbundnu hlutverki þess í þágu varna yfirráðasvæðis aðildarlandanna. Á ríkisoddvitafundi NATO árið 2016 var tekin sú forsjála ákvörðun að senda sveitir í bardagastöðu til Eistlands, Lettlands, Litháens og Póllands. Bandaríkjaher hefur aukið viðveru sína á austur vængnum og Trump-stjórnin hefur samþykkt að auka útgjöld til varna Evrópu og sent liðsauka til álfunnar. Á ríkisoddvitafundinum árið 2018 var ákveðið að koma á fót tveimur nýjum herstjórnum til að efla öryggi á sjóleiðunum milli Norður-Ameríku og Evrópu og bæta hreyfanleika heraflans innan Evrópu.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …