Home / Fréttir / NATO: Vettvangur daglegs öryggispólitísks samráðs og samræmingar.

NATO: Vettvangur daglegs öryggispólitísks samráðs og samræmingar.

 

Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri flytur ávarp sitt á fundi Varðbergs.
Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri flytur ávarp sitt á fundi Varðbergs.

Varðberg efndi til hátíðarfundar í tilefni af 70 ára afmæli NATO fimmtudaginn 4. apríl. Fundurinn var fjölmennur í Veröld, húsi Vigdísar.

Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, var meðal ræðumanna og hér birtist ávarp hans:

 

Allt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins fyrir 70 árum hefur ríkt stöðugleiki og friður í vestanverðri Evrópu og þegar átök brutust út austur á Balkanskaga  stillti bandalagið til friðar. Þetta er einsdæmi í síðari tíma sögu álfunnar og það er  tilefni til að fagna hvoru tveggja langvarandi friði og árangursríku samstarfi sem getur tryggt öryggi og varðveitt friðinn næstu áratugi. Á þessum mannsaldri hefur Evrópa reist við eftir blóðsúthellingu og eyðileggingu síðari heimsstyrjaldar og flestir núlifandi Evrópubúar aldrei þekkt annað en öryggi og vaxandi velsæld. Atlantshafsbandalagið hefur átt ríkan þátt í að skapa þetta ástand og getur áfram tryggt það ef vilji er til.

Það er ekki svo að fyrrnefndur árangur hafi náðst í stöðugri sátt og samlyndi aðildarríkja. Innan Atlantshafsbandalagsins hafa ávallt verið skiptar skoðanir um hlutverk þess, áherslur og framlög. Þar hafa setið við sama borð fulltrúar ríkja með mjög ólíkar aðstæður og hagsmuni. Jafnvel sum þeirra átt í hörðum tvíhliða deilum eða eru enn ósammála um margt. Eitt þeirra hætti í lengri tíma þátttöku í hermálasamstarfinu, önnur hafa hótað því að yfirgefa bandalagið, þ.á m. Ísland, en mun fleiri hafa gengið til liðs við það á undanförnum árum – úr 12 árið 1949 í senn 30 þegar Norður-Makedónía verður fullgildur aðili. Ástæðan er samstaða um grundvallargildi og hagsmuni og vitund um það afl og bolmagn sem felst í sameiginlegum varnarskuldbindingum og viðbúnaði. „Valdefling“ er hugtak sem er oft notað um þessar mundir en það á reyndar mjög vel við um þátttöku aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, einkum þeirra smærri.

Liðsmenn ítölsku flughersveitarinnar við loftrýmisgæslu sóttu fund Varbergs og sjást þeir hér með alþingismönnunum Birgi Ármanssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur auk Péturs Björnssonar, aðalræðismanns Ítalíu.
Liðsmenn ítölsku flughersveitarinnar við loftrýmisgæslu sóttu fund Varðbergs og sjást þeir hér með alþingismönnunum Birgi Ármanssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur auk Péturs Björnssonar, aðalræðismanns Ítalíu.

Það er mikilvægt að horfa til þessarar 70 ára sögu nú þegar hriktir í svonefndu alþjóðakerfi og það heyrast háværar svartsýnisraddir um framtíð Atlantshafstengslanna og bandalagsins. Aðildarríkin og bandalagið þurfa að aðlagast breyttum aðstæðum, ella gæti svartsýnin reynst á rökum reist, en skoðanamunur og breytingar á alþjóðlegu umhverfi hafa hingað til ekki reynst samstarfinu ofviða. Atlantshafsbandalagið er ekki tilgangur í sjálfu sér og aðildarríkin þurfa í raun að ákveða hvort öryggi þeirra verði betur tryggt með áframhaldandi þátttöku eða öðrum hætti. Ég held að niðurstaðan af slíkri sjálfsrýni verði augljós en þá verða efndir að fylgja orðum. Það getur ekkert fullvalda ríki ætlast til að þess eigin öryggismál séu öðrum ríkjum meira forgangsmál en því sjálfu. Náið samstarf svo margra ólíkra ríkja báðum megin Atlantshafsins um varðveislu grundvallarhagsmuna krefst stöðugrar athygli og atlætis. Carrington lávarður sagði eitt sinn að viðhald Atlantshafstengslanna byggðist á því að framkvæmdastjóri bandalagsins væri staðsettur á miðju Atlantshafi og þar væri kalt, blautt og mjög einmanalegt.

Auk Sturlu fluttu þingmennirnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Lilja D. Alfreðsdóttir ávörp á hátíðarfundi Varðbergs.
Auk Sturlu fluttu þingmennirnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Lilja D. Alfreðsdóttir ávörp á hátíðarfundi Varðbergs.

Ísland er einn af stofnaðilum Atlantshafsbandalagsins og hefur frá upphafi haft þar sérstöðu sem aðildarríki án eigin herafla. Það er áfram eina aðildarríkið sem er í landvörnum algerlega háð sameiginlegum varnarskuldbindingum bandalagsins og tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin. Við lok kalda stríðsins breyttust aðstæður að því leyti að framlög til sameiginlegra aðgerða urðu mælikvarði á samstöðu aðildarríkjanna og réttlæting á „sæti við borðið“. Um leið óx íslenska hagkerfið og það urðu efnahagslegar forsendur til beinna framlaga.  Brottflutningur bandaríska varnarliðsins frá Íslandi varð þess svo valdandi að íslensk stjórnvöld öxluðu aukna ábyrgð í varnarmálum bæði heima og að heiman. Hérlendis með rekstri og viðhaldi skilgreindra innviða og svonefndum gistiríkjastuðningi og erlendis með framlögum til aðgerða og herstjórna á okkar borgaralegu forsendum. Þessi stefna hefur reynst vel og mætt skilningi og stuðningi annarra aðildarríkja. Það er metið að Ísland axlar ekki einungis byrðar heldur einnig ábyrgð og þótt að íslensk framlög geti aldrei orðið umfangsmikil, þá vilja íslensk stjórnvöld að í þeim felist virðisauki fyrir bandalagið í heild. Skýrt dæmi um þetta er þegar Ísland tók að sér rekstur Pristina-flugvallar í Kosóvó í kjölfar átakanna þar og brúaði þannig bilið á milli annars vegar hernaðarlegrar stjórnunar á vegum Atlantshafsbandalagsins og hins vegar borgaralegrar stjórnunar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Annað nýlegra dæmi er aðstoð sprengjueyðingasérfræðinga Landhelgisgæslunnar við eyðingu jarðsprengja í Írak sem hefur gagnast almennum írökskum borgurum.

Á mínum ferli í utanríkisþjónustunni hef ég fylgst með Atlantshafsbandalaginu um langt skeið. Ég starfaði höfuðstöðvum þess þegar kalda stríðið stóð enn í lok níunda áratugarins og aftur á miklu breytingaskeiði í lok tíunda áratugarins og var svo í ýmsum stjórnsýslustörfum á Íslandi sem vörðuðu öryggis- og varnarmál. Þannig að ég hef kynnst þessum vettvangi nokkuð vel og þeim breytingum sem þar hafa orðið. Það er óþarft að fjölyrða um stakkaskiptin sem hafa orðið frá samtökum 12 aðildarríkja og skýrri ógn að austan í samtök 29 aðildarríkja og fjölþættum ógnum jafnvel úr óvæntum áttum. Allir viðstaddir þekkja þetta. Það er eitt sem ekki hefur breyst en virðist oft gleymast í umræðu á Íslandi, það er mikilvægi bandalagsins sem vettvangs daglegs öryggispólitísks samráðs og samræmingar. Þessi þáttur aðildarinnar er ómetanlegur fyrir smærra ríki eins og Ísland, því hann felur ekki einungis í sér verðmæta miðlæga upplýsingamiðlun um atburði líðandi stundar og afstöðu einstakra aðildarríkja heldur getur verið eins konar öryggisventill fyrir íslensk stjórnvöld ef þau þurfa að koma á framfæri ákveðnum sjónarmiðum eða verja mikilvæga hagsmuni. Loks gleymist oft að allar ákvarðanir bandalagsins byggjast á samhljóða samþykki jafn rétthárra aðildarríkja og þar aftur öðlast smærri ríkin hlutfallslega mikið vægi.

Þegar 70 árin eru sett í víðara samhengi, þá er ljóst að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu gaf ungu, fámennu og lengi vel fátæku lýðveldi tækifæri til að þroskast og þróast bæði pólitískt og efnahagslega. Það öryggi og stöðugleiki sem bandalagið stuðlar að var og er forsenda frelsis og velmegunar á Íslandi. Íslendingar hafa sem betur fer ekki kynnst ófriði á eigin grundu og margir virðast telja öryggið og stöðugleikann sjálfgefið og ævarandi ástand. Okkur er hollt að hafa hugfast að þetta er jákvæð afleiðing af framlögum bandalagsríkja í fjármunum og stundum fórnum í mannslífum.

Þegar Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, undirritaði Norður-Atlantshafssamninginn 4. apríl 1949, þá útskýrði hann af hverju Ísland gæti ekki lagt hernaðarlega af mörkum en bætti við: „En það er ekki einungis þessi raunsæa ástæða sem hefur mótað afstöðu okkar. Við viljum einnig að það sé alveg ljóst að við erum hluti af og viljum vera  hluti af þessu frjálsa samfélagi frjálsra þjóða sem er nú formlega sett á stofn“.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …