Home / Fréttir / NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C.

Greinin sem hér er sagt frá birtist á dönsku vefsíðunni Altinget.dk 15. apríl 2024.

Frá janúar til maí efnir NATO til æfingarinnar Steadfast Defender 2024. Æfingin er sú stærsta undir merkjum bandalagsins síðan í kalda stríðinu. Meira en 90.000 hermenn sýna að NATO standi að sterkum og trúverðugum vörnum fyrir allt Norður-Atlantshaf og norðurslóðir (d. Arktis), segir Liselotte Odgaard í upphafi greinar sinnar en segir síðan að bandalagið sé ekki fært um að bregðast við hernaðarumsvifum Rússa hvarvetna á norðurslóðum.

Hún minnir á að nú séu allar aðildarþjóðir Norðurskautsráðsins nema Rússar aðilar að NATO. Á hinn bóginn eigi Finnar og Svíar ekki land að Norður-Íshafi [frekar en Ísland innsk. þýð.] af þeirra hálfu beinist stefnumótandi áhersla einkum að Eystrasaltssvæðinu og hættunni af Rússum þar.

Þá bendir hún á að ekkert NATO-ríki eigi ísstyrkt herskip sem geti sinnt kafbáta- eða loftvörnum í hánorðri. Norðmenn eigi að vísu ísstyrkt varðskip en þau séu ekki hönnuð fyrir hernaðaraðgerðir frekar en íslensku varðskipin. Norsk herskip séu ekki ísstyrkt.

Rússneskir kjarnorkukafbátar búnir kjarnavopnum sem draga til Norður-Ameríku auk þess að geta rofið siglinga- og flutningaleiðir NATO yfir N-Atlantshaf sigli nú um Bjarnarhliðið – það er á milli Svalbarða og nyrsta odda Noregs – og út undir ísinn við Austur-Grænlandsströnd án þess að með þeim sé fylgst. Þarna sé mikið skarð í vörnum NATO.

Þá minnir Liselotte Odgaard á að samstarf Rússa og Kínverja aukist stig af stigi á norðurslóðum til dæmis með sameiginlegum flotaæfingum og strandgæslusamstarfi. Þetta kalli á enn frekari varnarviðbúnað í norðri og þar með á hafsvæðum við Grænland sem séu innan danska konungsríkisins. „NATO á því ekki aðeins að einbeita sér að því að efla varnir á austurvæng sínum og á íslausum hluta Norður-Atlantshafs,“ segir hún.

Rússar hafi með flotastefnu sinni frá 2022 gert umsvif á norðurslóðum að forgangsverkefni. Á árunum 2014 til 2019 hafi þeir skapað hernaðarlega aðstöðu á meira en 475 stöðum á norðurslóðum. Í Norðurflotanum á Kólaskaga séu um tveir þriðju árásarkjarnavopna rússneska sjóhersins.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hafi árið 2022 varað kröftuglega við hættunni af skorti á öflugum vörnum NATO andspænis Rússum á norðurslóðum. Þrátt fyrir það hafi bandalagið ekki enn mótað sér neina stefnu varðandi svæðið.

Í núverandi skilgreiningu á athafnasvæði NATO sé rætt um svæði í hánorðri án nánari skilgreiningar en í raun sé vísað til íslausa hluta norðurslóða. Notkun hugtaka í þessu samhengi endurspegli ágreining innan NATO um hvert sé í raun varnarsvæði bandalagsins, hvort það nái norður fyrir Norður-Atlantshaf.

Eftir því sem ísinn hopi meira í norðri láti fleiri þjóðir að sér kveða þar og siglingar aukist með norðurströnd Rússlands. Þar með vaxi áhugi og þörf Rússa á að verja siglingaleiðir til og frá flotastöðvum sínum á Kólaskaga.

Liselotte Odgaard gerir grein fyrir vaxandi samstarfi Rússa og Kínverja og hve Rússar eigi mikið undir viðskiptum við Kínverja og samskiptum í norðri þar sem í heimskautahluta Rússlands sé að finna um 15% af landsframleiðslu Rússa. Hún segir Kínverja vilja nýta aðstöðu í Rússlandi til að halda úti eigin skipum í Norður-Íshafi. Það þjóni þó ekki hagsmunum Kínverja að búa um sig sem herveldi á norðurslóðum og þeir hafi í ýmsu tilliti varann á sér í samstarfinu við Rússa. Úkraínustríðið eða samstarf Rússa og N-Kóreumanna þjóni ekki hagsmunum Kínverja.

Kínverjar hafi hins vegar mikinn hag af því að Rússar haldi NATO við efnið í norðri. Þeir geti þá sjálfir einbeitt sér að því sem gerist í næsta nágrenni Kína, á Suður- og Austur-Kínahafi og Taívan-sundi.

 

Grein sinni lýkur Liselotte Odgaard á þennan hátt:

 

„Sjóflutningaleiðin í gegnum GIUK-hliðið – hernaðarlega mikilvæga svæðið milli Grænlands, Íslands og Bretlands – er mikilvæg fyrir bandarískan og kanadískan liðsafla og vistir á leið til Evrópu ef til hernaðarátaka kemur við Rússland. Eins og staðan er núna geta Rússar truflað ferðir á þessari leið án þess að NATO geti nokkuð aðhafst.

Þetta má rekja til þess að norrænu norðurslóðaríkin ráða ekki yfir herflota sem getur elt uppi og fylgst stöðugt með rússneskum herafla sem athafnar sig nálægt ísnum í Bjarnarhliði og með strönd Austur-Grænlands suður af Hvarfi þar sem er upphaf GIUK-hliðsins.

Skörðin í vörnum NATO á norðurslóðum endurspegla að lítil ríki með takmarkaðar fjárveitingar til varnarmála bera óhóflega mikla ábyrgð. Til dæmis gegna Danir leiðandi hlutverki í herafla NATO bæði á norðurslóðum og Eystrasaltssvæðinu og Norðmenn eru framlínunni bæði til sjós og lands gagnvart langdrægum herafla Rússa á Kólaskaga.

Takmarkaðar fjárveitingar til varnarmála eru einfalda skýringin á því að þjóðirnar hafa ekki fyrr fjárfest í dýrum búnaði og axlað þar með meginábyrgð á verkefnum í þágu fælingar sem ætti raunverulega að vera í höndum allra ríkja NATO sem eru eru í Norðurskautsráðinu.

Ein helsta ástæða þess að ekkert þessara ríkja hefur eignast nauðsynlegan búnað vegna aðgerða í norðri er sú að NATO og Bandaríkin leggja áherslu á að aðildarríki verji að minnsta kosti tveimur prósentum af landsframleiðslu til varnarmála. Fjárfestingar í búnaði eins og til dæmis vel útbúnum ísstyrktum herskipum teljast ekki sem framlag til að styrkja NATO.

Þessi afstaða bitnar á öryggi á norðurslóðum og vegur þungt þegar Rússar nýta sér gloppur í vörnum NATO.

Það er brýnt fyrir NATO að bregðast við ógnarmyndinni á norðurslóðum. Í því felst ekki endilega að NATO verði að ráðast í gríðarlega hernaðaruppbyggingu sem kynni að hleypa ógnarkrafti í þróunina sem er að breyta norðurslóðum í háspennusvæði.

Rússar samþykktu til dæmis lög árið 2022 sem skilgreina norðursiglingaleiðina við íshafsströnd lands þeirra sem ísilagt svæði en það veitir rússneskum yfirvöldum rétt til að stjórna ferðum herskipa um svæðið.

Vegna þessara laga hefur verið rætt hvort gripið skuli til aðgerða til að staðfesta rétt herskipa til frjálsra siglinga um svæðið, svonefndra FONOPS-aðgerða [Freedom of Navigation Operations þýð].

Hins vegar er líklegt að slíkar aðgerðir verði túlkaðar sem mjög stigmagnandi af Rússum, sérstaklega ef um er að ræða alþjóðlegar aðgerðir með þátttöku NATO-ríkja eins og Bretlands, Frakklands og Ítalíu sem hafa ekki lögmætar eftirlitsskyldur á norðurslóðum.

Rússar telja sig berskjaldaða vegna aukinnar viðveru NATO á norðurslóðum og það gæti leitt til óvæntra hernaðarlegra árekstra. Til að koma í veg fyrir að norðurskautssvæðið verði háspennusvæði er mikilvægt að NATO-ríki sem eiga land að Norður-Íshafi axli meiri ábyrgð á því að halda Rússum í skefjum.

Í þessu felst að ríki eins og Bandaríkin, Kanada, Danmörk og Noregur verða að styrkja hernaðarlega viðveru sína á nálægum hafsvæðum sem liggja að yfirráðasvæði Rússa á þann hátt sem er nauðsynlegt til að tryggja trúverðugar varnir.

Það er erfitt fyrir ríkisstjórnir NATO-ríkja að útskýra fyrir íbúum sínum að skera þurfi niður útgjöld til velferðarmála til að fjárfesta í varnarmálum ef útgjöldin eru ekki viðurkennd sem framlag samkvæmt uppgjörskerfi NATO.

Aðild Finna og Svía hefur greinilega styrkt varnir NATO á norðurslóðum. Raunveruleikinn er hins vegar sá að enn er langt í land þar til NATO hefur eignast trúverðugan fælingarmátt gegn Rússlandi á norðurslóðum.“

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …