Home / Fréttir / NATO-varnir verða stórefldar á landi, sjó og í lofti

NATO-varnir verða stórefldar á landi, sjó og í lofti

Fjölskyldumyndin frá NATO-varnarmálaráðherrafundinum 16. mars 2022.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna komu saman í Brussel miðvikudaginn 16. mars. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, gerði grein fyrir fundinum á blaðamannafundi að honum loknum.

Stoltenberg minnti á algjöra samstöðu NATO-ríkjanna um að veita Úkraínumönnum stuðning í stríði þeirra við Rússa án þess að taka beinan þátt í stríðinu eða loka lofthelgi Úkraínu, yfirlýsing um flugbann jafngilti stríðsyfirlýsingu. Slík stigmögnun yrði ógnun við heimsfriðinn.

Þá gerði Jens Stoltenberg grein fyrir viðbrögðum NATO-ríkjanna að öðru leyti. Nú væru hundruð þúsunda hermanna bandalagsþjóðanna í hertri viðbragðsstöðu á öllu bandalagssvæðinu. Alls væru hundrað þúsund bandarískir hermenn í Evrópu. Um 40.000 hermenn væru nú undir beinni stjórn herstjórna NATO, einkum í austurhluta bandalagsins. Þeim til stuðnings væru flugherir og flotar auk loftvarna.

Framkvæmdastjóri NATO sagði að við bandalagsþjóðunum blasti nýr veruleiki í öryggismálum. Við honum yrði að bregðast með því að endurræsa sameiginlegar varnir bandalagsþjóðanna og styrkja fælingarmátt þeirra til lengri tíma.

Á fundinum hefðu ráðherrarnir falið yfirmönnum herafla landanna að kynna hugmyndir um nauðsynlegar aðgerðir hvort sem litið væri til landhers, flughers, flota, netheima eða geimsins. Í umboðinu til herstjórnanna hefðu þessi viðmið verið sett:

Á landi yrði að gera ráð fyrir umtalsvert meiri herafla á háu viðbragðsstigi í austurhluta bandalagsins. Þar yrði að auka tækjakost og birgðir.

Í lofti ætti að styrkja flugheri bandalagsins og efla samræmdar loft- og eldflaugavarnir þess.

Á sjó ætti stöðugt að halda úti flotadeildum flugmóðurskipa, kafbátum og umtalsverðum fjölda herskipa.

Jafnframt yrði hugað að framtíð netvarna bandalagsins.

Loks yrði lögð áhersla á að nýta búnað bandalagsþjóða í geimnum sem best.

Þjálfun herafla yrði aukin og æfingum fjölgað með þátttöku fleiri þjóða en til þessa.

Allt kostaði þetta verulega aukin útgjöld til varnarmála og til þeirra yrði hvert bandalagsríki að verja minnst 2% af VLF.

Í lok ávarps síns á blaðamannafundinum sagði Jens Stoltenberg:

„Á þessum viðkvæma tíma fyrir öryggi okkar er einhugur milli þjóða Norður-Ameríku og Evrópu í NATO mikilvægari en nokkru sinni.“

Í svari framkvæmdastjórans við spurningu um framkvæmd þessarar ákvörðunar ráðherranna sagðist hann sjá fyrir sér svipað ferli og vegna sögulegra ákvarðana á ríkisoddvitafundinum í Varsjá 2016 um að stórefla varnir í austurhluta NATO í ljósi ólöglegrar innlimunar Rússa á Krímskaga árið 2014. Nú teldi hann að stefna ætti að ákvörðun ríkisoddvita NATO-landanna um þetta mál á fundi þeirra í Madrid í júní 2022.

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …