Home / Fréttir / NATO: Varnarmálaráðherrar stofna Atlantshafsherstjórn

NATO: Varnarmálaráðherrar stofna Atlantshafsherstjórn

 

Frá varnarmálaráðherrafundinum: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna,
Frá varnarmálaráðherrafundinum: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna,

Tveggja daga fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna lauk fimmtudaginn 15. febrúar. Fundurinn snerist um breytingu á herstjórnaskipulagi bandalagsins, skiptingu útgjalda og viðleitni NATO til að stuðla að stöðugleika utan landamæra aðildarlandanna. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Ráðherrarnir tóku miðvikudaginn 14. febrúar ákvarðanir um að endurnýja herstjórnaskipulag NATO vegna breytinga á stöðu öryggismála. Með breytingunum verður meiri áhersla lögð á öryggi á höfunum, hreyfanleika herafla og hergagna auk netvarna.

Samþykkt var að koma á fót sameiginlegri Atlantshafsherstjórn til að vernda siglingaleiðir milli Norður-Ameríku og Evrópu og jafnframt nýrri stuðningsherstjórn vegna birgðaflutninga, heraflaflutninga og hernaðarlegs hreyfanleika. Í júní ákveða ráðherrarnir nánari tímasetningar vegna þessara breytinga, aðsetur herstjórnanna og fjölgun starfsliðs.

Í fréttum hefur komið fram að Atlantshafsherstjórnin verði í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum en stuðningsherstjórnin í Bonn í Þýskalandi.

Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra:

„Bandalaginu hefur á skömmum tíma tekist að laga sig að breyttu öryggisumhverfi með auknum varnarviðbúnaði. Vægi Norður-Atlantshafsins er að aukast sem endurspeglast í því að meiri áhersla verður lögð á eftirlit og viðbragð á þessari lífæð milli Evrópu og Norður-Ameríku.“

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …