Home / Fréttir / NATO-varnarmálaráðherrar funda í Brussel

NATO-varnarmálaráðherrar funda í Brussel

aaa

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna komu saman miðvikudaginn 26. júní til tveggja daga fundar í Brussel. Á dagskrá þeirra er að ræða skiptingu útgjalda innan bandalagsins, verkefni þess í Afganistan og afleiðingar brota Rússa á samningnum um takmörkun meðaldrægra kjarnavopna.

Þá beinist athygli ráðherranna einnig að vaxandi spennu milli stjórnvalda í Washington og Teheran og hættunni á hernaðarátökum vegna hennar.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á blaðamannafundi fyrir ráðherrafundinn að rætt yrði um ítrekuð brot Rússa á INF-samningnum um takmörkun meðaldrægra kjarnaflauga frá 1987.

Bandaríkjamenn sögðu sig frá samningnum í febrúar 2019. Sökuðu þeir og bandamenn þeirra Rússa um að hafa sett upp eldflaugakerfi sem bryti í bága við samninginn.

Rússar neituðu þessum ásökunum en fóru síðar að fordæmi Bandaríkjamanna og sögðu sig einnig frá samningnum og staðfesti efri deild rússneska þá ákvörðun miðvikudaginn 26. júní.

Fimmtudaginn 27. júní ræða NATO-ráðherrarnir framkvæmd ákvarðana á vettvangi bandalagsins um að auka fælingar- og varnarmátt þess. Í áætlunum NATO er gert ráð fyrir að einstök lönd efli herstyrk sinn og einnig getu bandalagsþjóðanna til að flytja herafla innan Evrópu og yfir Atlantshaf.

Stoltenberg taldi víst að ráðherrarnir mundu samþykkja fyrstu tillögur um hvernig tekið yrði á málum undir merkjum NATO í geimátökum.

Í ár er talið að átta NATO-ríki nái því marki að verja að minnsta kosti 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála, árið 2014 voru þrjú ríkjanna í þessum sporum.

Á blaðamannafundi þriðjudaginn 25. júní sagði Stoltenberg að nú birtust í fyrsta sinn tölur yfir varnarútgjöld árið 2019 og hefði raunhækkun þeirra orðið 3,9% í Evrópu og Kanada á árinu. Nú hefðu útgjöldin hækkað samfellt fimm ár í röð.

Væri litið til loka ársins 2020 mætti vænta þess að Evrópuþjóðirnar og Kanadamenn hefðu samtals hækkað útgjöld til varnarmála um 100 milljarða dollara frá árinu 2016.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …