
Utanríkisráðherrar Finnlands, Pekka Haavisto, og Svíþjóðar, Ann Linde, hafa hvor um sig ritað undir umsóknir landa sinna um aðild að NATO. Verða umsóknirnar sendar samhliða miðvikudagin 18. maí eftir þeim formlegum leiðum sem um þetta gilda innan NATO. Fastafulltrúar aðildarlandanna 30 fjalla um málið og tekin verður afstaða til umsóknirnar í höfuðborgum allra aðildarríkja. Öll aðildarríkin verða að samþykkja umsóknir ríkjanna.
Samstaða þjóðanna er áréttuð með því að Sauli Niinistö Finnlandsforseti er í opinberri heimsókn í Svíþjóð þegar þessar sögulegu ákvarðanir um gjörbreytta stefnu Finna og Svía í öryggismálum eru teknar.
Finnlandsforseti ávarpaði sænska þingið og tók þátt í sameiginlegum blaðamannafundi með Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svía.
Sauli Niinistö og Magdalena Andersson fara til Washington og hitta Joe Biden Bandaríkjaforseta fimmtudaginn 19. maí.
Bandaríkjastjórn er gæsluaðili Norður-Atlantshafssáttmálans, stofnskrá NATO, sem var ritað undir í Washington 4. apríl 1949. Ísland var þá eitt 12 stofnríkja bandalagsins.

Nær einhugur í finnska þinginu.
Yfirgnæfandi meirihluti finnskra þingmanna, 188 gegn 8, þrír fjarverandi, samþykkti þriðjudaginn 17. maí tillögu um að sótt yrði um aðild Finnlands að Atlantshafsbandalaginu (NATO).
Formlega þurfti ekki samþykkt þingsins alls á aðildartillögunni sem Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Sanna Marin forsætisráðherra kynntu sunnudaginn 15. maí, samþykki þingnefndar hefði dugað til að umsókninni yrði heimiluð. Á hinn bóginn var ákveðið að leita álits þingheims og hófust langar umræður sem stóðu fram á nótt mánudaginn 16. maí og lauk með atkvæðagreiðslunni þriðjudaginn 17. maí.
Alls voru 212 ræður fluttar í þingumræðunum sem stóðu í 14 klukkustundir. Til atkvæðagreiðslunnar kom vegna gagntillögu frá Markus Mustajärvi, stjórnarþingmanni í Vinstrabandalaginu, sem vill að Finnland verði áfram utan hernaðarbandalaga. Flokkssystkini hans, Johannes Yrttiaho og Katja Hänninen, voru meðflutningsmenn tillögunnar.
Vinstrabandalagið stóð, þrátt fyrir ágreining innan þess, að baki tillögu ríkisstjórnarinnar enda eiga forystumenn flokksins sæti í henni. Í þingumræðunum sagði Aino-Kaisa Pekonen, þingmaður flokksins:
„Í núverandi ástandi sé ég ekki nokkurn annan kost til að tryggja öryggi Finnlands og Finna.
Þótt Finnland yrði áfram utan hernaðarbandalaga yrði landið varla út undan í átökum milli NATO og Rússlands. Það er ef til vill betra að vera hluti af innri hring NATO heldur en að vera fastur milli tveggja aðila.“
Finnlandsforseti í Svíþjóð
Sauli Niinistö Finnlandsforseti er þriðjudaginn 17. maí í opinberri heimsókn í Svíþjóð. Hann flutti ræðu í sænska þinginu þar sem hann bar lof á „norræna módelið“ fyrir að vera „ábyrgt, öflugr og stöðugt“. Hann sagði:
„Norðurlöndin eru sterk í orðsins fyllstu merkingu. Hernaðarmáttur okkar er meðal þess sem best gerist í Evrópu og við bætum hvert annað upp með getu okkar. Hernaðarlegi þröskuldurinn gegn þeim sem vill sækja að okkur er nú þegar mjög hár.
Styrkurinn felst ekki aðeins mættinum. Hann ræðst einnig af seiglunni. Og fyrir hana eru Norðurlöndin fræg.“
Karl XVI Gústaf Svíakonungur kemur ekkert að ferlinu við ákvörðunina um NATO-aðildarumsókn Finna.
Lavrov á lágu nótunum
Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ræddi aðild Finna og Svía að NATO þriðjudaginn 17. maí og sagði hana líklegast ekki „breyta miklu“.
Herafli ríkjanna hefði um langt skeið tekið þátt í NATO-æfingum og ríkin hefðu árum saman átt samstarf við bandalagið.
Lavrov lét þau orð falla í janúar 2022 að það væri mál Finna og Svía að sækja um aðild að NATO. Rússar kynnu hins vegar vel að meta stöðu þjóðanna utan hernaðarbandalaga og hann tryði því ekki að NATO myndi virða fullveldi ríkjanna.
„NATO lítur á landsvæði þeirra sem hluta af sínu þegar skipulagðar eru hernaðarlegar aðgerðir móti Austrinu. Að þessu leyti er líklega ekki um mikinn mun að ræða. Við skulum kynnast því í reynd hvernig Norður-Atlantshafsbandalagið notar landsvæði þeirra,“ sagði Lavrov.
Fréttaskýrendur minna á að mánudaginn 16. maí hefði Vladimir Pútin Rússlandsforseti breytt um tón vegna aðidar Finna að NATO. Fram til þessa hefðu hótanir og heift gegn NATO-aðildinni borið hæst í yfrlýsingum Rússa. Nú létu Pútin og Lavrov eins og aðildin breytti í raun litlu og þá fyrst yrði gripið til rússneskra gagnaðgerða ef NATO efldi „hernaðarlega innviði“ í löndunum.
Rússar tilkynntu þriðjudaginn 17. maí að þeir segðu sig úr Eystrasaltsráðinu. Var ástæðan sögð sú að ESB og NATO noti ráðið í þágu „and-rússneskrar“ stefnu.
Áður höfðu ríkin í ráðinu, þar á meðal Ísland, lokað á þátttöku Rússa í þvi vegna innrásar þeirra í Úkraínu.