Home / Fréttir / NATO-toppfundur: Úkraínumenn fá loftvarnakerfi – Stoltenberg fær frelsisorðu

NATO-toppfundur: Úkraínumenn fá loftvarnakerfi – Stoltenberg fær frelsisorðu

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í ræðu á 75 ára afmælisfundi NATO í Washington þriðjudaginn 9. júlí að Úkraína fengi fimm strategísk loftvarnakerfi að gjöf frá NATO-ríkjum. Fundurinn var settur í Mellon Auditorium, sama salnum og ritað var undir stofnskrá Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO) 4. apríl 1949.

Stjórnin í Kyiv hefur lengi óskað eftir að fá sjö Patriot-loftvarnakerfi til umráða en aðeins fengið tvö. Nú fær hún fimm til viðbótar. NATO-ríkin vilja leggja Úkraínustjórn lið við að styrkja veikasta blettinn í vörnum hennar gegn árásum Rússa.

Bandaríkjamenn gefa eitt kerfi, Þjóðverjar og Rúmenar sameinast um að gefa tvö Patriot-kerfi en Hollendingar eitt með samstarfsþjóðum sínum. Ítalir ætla að leggja Úkraínumönnum til loftvarnakerfi af gerðinni SAMP-T.

Í fréttum 10. júlí er skýrt frá því að Sir Keir Starmer, forsætisráðherra Breta, segi við Bloomberg-fréttastofuna að Úkraínuher verði heimilað að beita langdrægum Storm Shadow-flaugum frá Bretum gegn skotmörkum innan Rússlands. Flaugunum má skjóta á skotmörk í allt að 250 km fjarlægð.

Starmer segir að það sé Úkraínumanna sjálfra að ákveða hvernig þeir noti vopnin enda virði þeir viðteknar reglur í hernaði. Hann leggur jafnframt áherslu á að Úkraínumenn eigi að nota flaugarnar í „varnarskyni“.

Í ræðu sem Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO flutti á setningarfundinum sagði hann NATO ekki aðeins árangursríkasta og öflugasta bandalag sögunnar heldur einnig það sem lengst hefði starfað. Það hefði aldrei legið í hlutarins eðli að þjóðirnar stæðu saman til að tryggja öryggi sitt heldur mætti rekja það til þess að þær hefðu valið skýran kost og tekið erfiðar ákvarðanir vegna aðildar að bandalaginu og staðið saman um stofnun þess, samninga um afvopnun, stækkun bandalagsins í lok kalda stríðsins og nú um stuðning við Úkraínu.

Stoltenberg varaði við því að það kostaði sitt að vera nágranni Rússlands undir árásargjarnri stjórn og í stríði væru allir kostir áhættusamir. Kostnaðurinn yrði þó hæstur og hættan mest ef Rússar sigruðu í Úkraínu. Það yrði Pútin forseta hvatning en einnig öðrum einræðisherrum í Íran, Norður-Kóreu og Kína. „Nú er rétti tíminn til að standa vörð um frelsi og lýðræði, staðurinn til þess er í Úkraínu,“ sagði Stoltenberg og lauk máli sínu með því að segja að bandalagið myndi áfram verða að svara erfiðum spurningum í framtíðinni en við værum öflugri og öruggari saman í NATO.

Í lok athafnarinnar sæmdi Joe Biden Jens Stoltenberg Frelsisorðu Bandaríkjaforseta, æðsta borgaralega heiðursmerki Bandaríkjanna, sem viðurkenningu fyrir að hafa þjónað bandalagsþjóðunum og leitt NATO í áratug.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …