Home / Fréttir / NATO: Tillaga um Norður-Atlantshafsherstjórn fyrir varnarmálaráðherrafund

NATO: Tillaga um Norður-Atlantshafsherstjórn fyrir varnarmálaráðherrafund

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kynnir dagskrá varnarmálaráðherrafundarins.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kynnir dagskrá varnarmálaráðherrafundarins.

Líklegt er að tillaga um að koma á fót nýrri herstjórn NATO til að gæta öryggis á siglingaleiðunum milli Norður-Ameríku og Evrópu verði samþykkt á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna í Brussel miðvikudaginn 8. nóvember. Þá verður einnig borin upp tillaga um sérstaka herstjórn til að hafa stjórn á tilfærslu herafla og hergögnum innan Evrópu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á blaðamannafundi þriðjudaginn 7. nóvember til kynningar á dagskrá ráðherrafundarins að mikilvægt væri að búa þannig um hnútana að auðvelt yrði að flytja herafla innan varnarsvæðis NATO og þar á meðal yfir Atlantshaf. Stoltenberg varaði einnig við aukinni hættu á netárásum og sagði að innan herstjórna NATO væri unnið að áætlanagerð um varnir gegn þeim. Markmiðið væri að bandalagið stæði jafn öflugt í netheimum og gegn árásum á landi, sjó og í lofti.

„NATO verður að koma á fót nýrri svæðisbundinni herstjórn til að tryggja varnir Norður-Atlantshafs gegn auknum flotastyrk Rússa,“ sagði Petr Pavel hershöfðingi, formaður hermálanefndar NATO, mánudaginn 6. nóvember við fréttamann Reuters. Um væri að ræða herstjórn sem sett yrði upp í einhverju bandalagsríkjanna með það fyrir augum að tryggja öryggi á siglingaleiðum á Atlantshafi.

Á sínum tíma hafði Atlantshafsherstjórn NATO aðsetur í Norfolk í Bandaríkjunum og féll flotastöðin í Keflavík undir hana. Herstjórninni var breytt í svonefnda umbreytingaherstjórn NATO árið 2003. Þá hvarf sérstök flotaherstjórn NATO úr sögunni og athygli beindist að öðru en vörnum Norður-Atlantshafs. Bandarísku flotastöðinni í Keflavík var lokað haustið 2006.

Í samtali við Reuters sagði Pavel að þegar litið væri til flotaútþenslu Rússa og Kínverja til allra heimshafa væri augljóst að huga yrði að vörnum siglingaleiða.

„Við sjáum aukin flotaumsvif Rússa á Norður-Íshafi og á norðanverðu Atlantshafi. Það er einnig mat okkar að gera verði ráðstafanir sem duga komi til hættuástands í framtíðinni og flytja verði liðsauka til Evrópu, opnar samgönguleiðir eru lífsnauðsynlegar þegar litið er til evrópsks öryggis,“ sagði Pavel.

Verði samþykkt að stofna Norður-Atlantshafsherstjórn NATO yrði hlutverk hennar að sinna eftirliti á risastóru svæði og gera ráðstafanir til að tryggja öryggi á siglingaleiðum svo að flytja mætti bandarískan liðsauka til Evrópu. Talið er að umfang herstjórnarinnar verði minna en hjá Atlantshafsherstjórninni sem var lögð niður árið 2002.

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …