
NATO hvetur rússnesk stjórnvöld til að skýra alþjóðlegum eftirlitsaðilum frá meðferð sinni á novichok taugaeitrinu sem notað var gegn stjórnarandstæðingnum Alexei Navalníj. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sagði föstudaginn 4. september að aðildarríkin 30 stæðu einhuga að baki fordæmingu á þessu „hræðilega“ ódæði.
Hann sagði fullsannað að taugaeitrinu hefði verið beitt gegn Navalníj. Rússar hafna hins vegar greiningu lækna og sérfræðinga í Þýskalandi þar sem Navalníj er undir læknishendi.
Boðað var til sérstaks fundar í Atlantshafsráðinu til að fjalla um eiturárásina að ósk þýsku ríkisstjórnarinnar. Að honum loknum sagði Stoltenberg að rússnesk stjórnvöld yrðu að stofna til samstarfs við Stofnunina um bann við efnavopnum um hlutlausa alþjóðlega rannsókn á tilræðinu. Þá yrðu Rússar einnig að gera stofnuninni grein fyrir allri meðferð sinni á novichok eitrinu.
Þegar Rússar notuðu taugaeitrið árið 2018 gegn Sergei Skripal og dóttur hans í Salisbury á Englandi sökuðu bresk stjórnvöld njósnastofnun rússneska hersins um að standa að baki árásinni og 20 ríki tóku undir ásökun Breta með því að reka úr landi rúmlega 100 rússneska sendiráðsmenn og njósnara. Rússar höfnuðu allri aðild að Skripal-árásinni.
Jens Stoltenberg sagði þann mun núna að ráðist hefði verið á Navalníj í heimalandi hans en ekki í NATO-landi. Á hinn bóginn teldu NATO-ríkin árásina ófyrirleitið brot á alþjóðalögum sem banna notkun efnavopna og þess vegna yrði að bregðast við henni á alþjóðavettvangi án þess að hann gerði nánari grein fyrir því hver alþjóðlegu viðbrögðin yrðu.
Af hálfu stjórnvalda í Kreml er allri gagnrýni svarað á þann veg að þau hafi ekki verið upplýst um líðan Navalníjs og þess vegna fallist þau ekki á fullyrðingar um að fyrir honum hafi verið eitrað.
Uppljóstrun Lukasjenkos
Alexander Lukasjenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, sem berst fyrir pólitísku lífi sínu og veðjar á stuðning Kremlverja í því skyni, sagði við Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, í Minsk fimmtudaginn 3. september að leyniþjónusta sín hefði hlerað samtal milli stjórnvalda í Varsjá og Berlín áður en Angela Merkel Þýskalandskanslari lýsti sök á hendur Rússum vegna eitrunar Navalníjs miðvikudaginn 2. september. Af samtalinu mætti ráða að um „fölsun“ Þjóðverja væri að ræða.
„Það var aldrei eitrað fyrir Navalníj,“ sagð Lukasjenko á fundi sem tekinn var upp og dreift á Telegram-rásinni sem tengist valdakerfi hans.
Lukasjenko heldur því fram að Merkel hafi gefið opinbera yfirlýsingu um eitrun Navalníjs til að „hræða [Vladimir] Pútin [Rússlandsforseta] frá að blanda sér í málefni Hvíta-Rússlands“.
Frá þessu er sagt á vefsíðu Moscow Times fimmtudaginn 3. september. Þar kemur einnig fram að Lukasjenko ætli að láta rússnesku öryggislögreglunni, FSB, í té upptöku af þessu samtali. Segir í fréttinni að Mishustin sé sem steinrunninn á myndbandinu með Lukasjenko.
Rússnesk yfirvöld gefa ýmsar skýringar á því sem kom fyrir Navalníj. Sergei Naríjshkin, forstjóri SVR, njósnastofnunar Rússa erlendis, sagði við ríkisfréttastofuna RIA Novosti að „hugsanlega“ væri eitrun Navalníjs „ögrun“ af hálfu vestrænna njósnastofnana. „Hafi forseti Hvíta-Rússlands sagt það, hefur hann eitthvað fyrir sér,“ sagði rússneski njósnastjórinn.