Home / Fréttir / NATO-þingmenn ræða vaxandi hernaðarumsvif Rússa á norðurslóðum

NATO-þingmenn ræða vaxandi hernaðarumsvif Rússa á norðurslóðum

Kjell Grandhagen hershöfðingi, yfirmaður leyniþjónustu norska hersins.
Kjell Grandhagen hershöfðingi, yfirmaður leyniþjónustu norska hersins.

Málefni norðurslóða hafa verið til umræðu á ársfundi NATO-þingsins sem haldið er í Stavanger í Noregi dagana 9. til 12. október. Laugardaginn 10. október ræddu þingmennirnir skýrslu og tillögu þar sem lýst er áhyggjum vegna aukinnar hervæðingar Rússa á norðurslóðum.

Ine Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs, var meðal ræðumanna við upphaf ársfundarins. Hún sagði meðal annars: „Þótt við teljum ekki að hér og nú sé um ógn gegn Noregi að ræða er ástandið óvisst og allt kann að gerast á norðurslóðum.“

Ráðherrann sagði á fundi með varnar- og öryggismálanefnd þingsins að á þessum slóðum sköruðust hagsmunir NATO og Rússa og áhrifanna gætti í Noregi. Norðmönnum þætti sérstaklega miklu varða að forsjálni og stöðugleiki ríkti í samskiptum þeirra við Rússa.

Fyrir ársfundinn var lögð skýrsla um stöðu og horfur á norðurslóðum sem samin var undir forystu Osmans Baks, starfandi formanns þingmannanefndarinnar frá Tyrklandi. Hann sagði að forðast bæri að gera aðstæður á norðurslóðum erfiðari með aukinni hervæðingu og kapphlaupi við nýtingu auðlinda – glíman við náttúruöflin nægði þar í raun.

Skýrsla Baks var unnin fyrir vísinda- og tækninefnd NATO-þingsins. Þar er lýst þeirri von að unnt verði að leysa úr ágreiningi um markalínur milli ríkja í Norður-Íshafi á friðsamlegan hátt og í samræmi við alþjóðalög. Hættan á hernaðarátökum á þessum slóðum sé „enn mjög lítil“.

NATO er hins vegar hvatt til að beina athygli sinni að verkefnum á sviði öryggismála á Norður-Íshafi og nálægum svæðum. „Á þann hátt skapar bandalagið sér stöðu til að geta brugðist af raunsæi við því sem kann að bera að höndum og undirbúa sameiginleg viðbrögð sé þeirra þörf,“ segir í skýrslunni sem lögð var fyrir þingið til samþykktar.

Kjell Grandhagen, hershöfðingi, yfirmaður leyniþjónustu norska hersins, gerði stjórnmálanefnd NATO-þingsins grein fyrir nokkrum skrefum sem Rússar hefðu nýlega stigið til að efla hernaðarmátt sinn á Norður-Íshafi. Þeir hefðu fjölgað herflugvöllum sínum, flutt þangað stórfylki landhersins og sett upp ný kerfi til strand- og loftvarna.

„Líkur á að Rússar fylgi fram enn meira ögrandi utanríkisstefnu á norðurslóðum hafa aukist,“ sagði Kjell Grandhagen við nefndarmenn. „Það skiptir höfuðmáli að fylgjast stöðugt með hervæðingu Rússa á norðurslóðum.“

Um 300 þingmenn frá 48 löndum sitja NATO-þingið í Stavanger, auk fulltrúa frá NATO-ríkjunum 28 sækja þingmenn frá samstarfslöndum NATO fundinn auk áheyrnarfulltrúa.

Á vefsíðu alþingis segir að þingmennirnir Birgir Ármannsson (Sjálfstæðisflokki), Þórunn Egilsdóttir (Framsóknarflokki) og Össur Skarphéðinsson (Samfylkingu) sitji ársfund NATO-þingsins í Stavanger.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …