Home / Fréttir / NATO-þingið lýsir Rússland hryðjuverkaríki

NATO-þingið lýsir Rússland hryðjuverkaríki

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á ársfundi NATO-þingsins í Madrid 21. nóv. 2022.

NATO-þingið samþykkti að lýsa Rússneska sambandsríkið og stjórn þess sem hryðjuverkaríki (e. terrorist state). Var þetta samþykkt einróma á ársfundi þingsins sem lýkur í dag (21. nóvember) í Madrid.

„Í dag samþykkjum við ályktun þar sem bandalagsþjóðirnar eru hvattar til að taka af skarið og skilgreina Rússneska sambandsríkið og núverandi stjórn þess sem hryðjuverkaríki,“ sagði Gerry Connolly þingforseti fyrir atkvæðagreiðsluna.

Í ályktun þingsins er jafnframt hvatt til þess að komið verði á fót sérstökum dómstóli til að fjalla um forkastanlega stríðsglæpi rússneskra stjórnvalda.

„Við hvetjum einnig ríkisstjórnir landa okkar til að stíga næstu skref í átt til aðildar Úkraínu að NATO. Við höfum hvað eftir annað lagt áherslu á að við viðurkennum ekki neinar ólögmætar tilraunir Rússa til að innlima hluta Úkraínu þvert á fullveldi þeirra,“ sagði Connolly einnig.

Jehor Tsjernev, formaður fastanefndar Úkraínu á NATO-þinginu, sagði að sérstakur dómstóll gerði kleift að lögsækja stjórnendur Rússneska sambandsríkisins en ekki aðeins þá sem beint hefðu framkvæmt stríðsglæpina.

Miðvikudaginn 23. nóvember greiðir ESB-þingið atkvæði um ályktun þar sem segir að rússnesk stjórnvöld styðji hryðjuverk.

Þing Evrópuráðsins samþykkti einróma 13. október 2022 ályktun þar sem Rússneska sambandsríkið er sagt hryðjuverkaríki. Var Evrópuráðsþingið fyrsti fjölþjóðlegi, stofnanabundni vettvangurinn til að álykta á þennan veg um Rússland.

Sé litið til ályktana einstakra þjóðþinga má nefna að öldungadeild pólska þingsins og fulltrúadeild tékkneska þingsins hafa samþykkt að líta á stjórnvöld Rússneska sambandsríkisins sem hryðjuverkastjórn.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …