Home / Fréttir / NATO: styrkleikahalli gagnvart Rússum við Eystrasalt

NATO: styrkleikahalli gagnvart Rússum við Eystrasalt

wwiii

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna sitja reglulegan fund sinn í Brussel miðvikudaginn 14. og fimmtudaginn 15. febrúar. Ráðherrarnir ræða meðal annars framkvæmd stefnu sem kennd er við CCC á ensku: Cash, Contribution, Capabilities – fjármagn, framlag, framkvæmd. Gerð er grein fyrir útgjöldum til varnarmála, framlagi einstakra NATO-ríkja til NATO-verkefna og framkvæmd ákvarðana einkum gagnvart Rússum.

Varnarmálaráðherrarnir taka á fundi sínum ákvarðanir um aðsetur tveggja nýrra herstjórna NATO. Önnur á að tryggja öryggi á samgönguleiðum yfir Atlantshaf og verður hún væntanlega í Norfolk í Bandaríkjunum. Hin á að skipuleggja hreyfanleika herafla og hergagna á meginlandi Evrópu og verður hún væntanlega í Bonn í Þýskalandi.

Stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur lagt áherslu á að auka útgjöld til varnarmála og í ár er gert ráð fyrir 686 milljörðum dollara til málaflokksins sem er 80 milljörðum meira en árið 2017. Varnarmálaráðuneytið telur hækkunina nauðsynlega til að svara áskorunum frá Rússum og Kínverjum.

Í fyrri viku tilkynnti franska ríkisstjórnin að útgjöld til varnarmála yrðu aukin um 33% fram til ársins 2025. Í Bretlandi hækka útgjöldin um 1,7%. Í Danmörku náðist nýlega samkomulag milli sex stjórnmálaflokka um að auka útgjöld til varnarmála um 12,8 milljarða d.kr. á næstu árum.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lýsti bjartsýni þegar hann ræddi útgjöld NATO-ríkjanna til varnarmála á blaðamannfundi þriðjudaginn 13. febrúar. Á árinu 2014 námu útgjöldin 2% af vergri landsframleiðslu í aðeins þremur NATO-ríkjum, í ár eru þau átta og verða væntanlega 15 árið 2024.

Margir varnarmálaráðherranna fara frá Brussel til München þar sem efnt er til árlegrar öryggisráðstefnu frá föstudegi til sunnudags 18. febrúar. Talið er að þar beri hátt hvernig sambandið verður milli NATO og ESB í öryggismálum eftir að ESB hefur stofnað til samstarfs í hermálum.

Í aðdraganda öryggisráðstefnunnar í München hefur bandaríska hugveitan Rand Corporation lagt fram mat á styrkleikahlutföll milli NATO og Rússlands. Þar segir að mjög halli á NATO á austurvæng bandalagsins, einkum á landamærum Eystrasaltsríkjanna og Rússlands. Í matinu er tekið mið af að Rússar ráðist á Eystrasaltslöndin. Þá getur NATO kallað saman 32.000 menn en Rússar geta sent 78.000 menn frá herstjórnarsvæði sínu í vestri. NATO á 129 bryndreka en Rússar 757. Tölurnar eru svipaðar þessu nema þegar kemur að flughernum, þar stendur NATO betur að vígi en Rússar.

Wolfgang Ischinger sendiherra og forstöðumaður München-ráðstefnunnar segir um niðurstöðu Rand: „Komi til átaka vegna yfirráða á Eystrasalti hallar verulega á Vesturlönd. Því miður blasir ekki aðeins við vígbúnaðarkapphlaup. Það er þegar hafið.“

Heimild Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …