Home / Fréttir / NATO-skýrsla leggur línur til 2030

NATO-skýrsla leggur línur til 2030

Frá fjarfundi utanríkisráðherra NATO-ríkjnna í desember 2020.
Frá fjarfundi utanríkisráðherra NATO-ríkjnna í desember 2020.

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna 30 efndu til fjarfunda 1. og 2. desember. Fyrir fundinn kom út skýrsla þar sem reifaðar eru tillögur um hvernig bandalagið skuli þróa stefnu sína og störf frá til ársins 2030.

Skýrslan ber heitið: NATO 2030 – United for a New Era – NATO 2030 – sameinað fyrir nýtt tímabil. Hún er dagsett 25. nóvember 2020 og má nálgast hana hér: https://www.nato.int/cps/en/natohq/176155.htm

Á fundi ríkisoddvita NATO-ríkjanna í desember 2019 var Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, falið að hefja ferli til að kalla fram viðhorf um hvernig best yrði að því staðið styrkja NATO stjórnmálalega og hernaðarlega. Sér til ráðuneytis fékk Stoltenberg hóp tíu sérfræðinga, fimm konur og fimm karla til að ræða stöðu og framtíð NATO og skila síðan skýrslu. Á COVID-19-tíma efndi hópurinn til um 200 fjarfunda með fulltrúum einstakra aðildarríkja og rannsóknastofnana við efnisöflun. Í skýrslunni er að finna á 138 tillögur á 67 bls.

Stoltenberg fagnaði skýrslunni á opinberum fundi fimmtudaginn 3. desember enda miðaði hún að því að styrkja bandalagið hernaðarlega og stjórnmálalega auk þess sem sjóndeildarhringurinn í störfum bandalagsins yrði stækkaður samhliða því sem tryggður yrði nægilegur herstyrkur til að verja Evró-Atlantshafssvæðið. Áfram yrði unnið að endurnýjun heraflans og nýsköpun.

Á tímum þegar bæti og gagnagnótt (e. big data) skiptu eins miklu máli og skot og herskip ætti NATO að láta meira að sér kveða til að tryggja bandalagsþjóðum sínum tæknilegt forskot.

Herstyrkur bandalagsins yrði að eiga að baki sér þjóðir sem hefðu viðnámsþrótt. Í honum fælist í raun fyrsta varnarlínan. Markmið NATO 2030 væri að styrkja og víkka viðnámsþrótt þjóðfélaganna og grunnvirkja þeirra.

Stjórnmálalegan þrótt NATO yrði einnig að efla. NATO væri eini vettvangurinn þar sem fulltrúar ríkja Norður-Ameríku og Evrópu hittust dag hvern til að ræða saman, taka ákvarðanir og hrinda þeim í framkvæmd. Styrkur NATO á sviði stjórnmála fælist í að viðurkenna að skoðanir innan þess væru oft ólíkar. Þannig hefði það verið og yrði áfram. Það kynni að vera erfitt að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskilinn hátt. Án þess væri þó ekki unnt að hlú að einhug og samstöðu.

Stoltenberg sagði að höfuðverkefni NATO breyttist ekki þótt sjóndeildarhringurinn stækkaði. Bandalagið væri svæðisbundið og yrði það áfram. Verkefni þess og áskoranir tækju hins vegar á sig nýja mynd og yrðu sífellt hnattrænni.

Í því sambandi nefndi hann hryðjuverk, loftslagsbreytingar, uppgang Kína og áhrif hans á hnattrænt valdajafnvægi, skipan alþjóðamála og öryggi NATO-þjóðanna. Aðeins með auknu samstarfi bandalagsríkjanna væri unnt að takast á við þessi nýju verkefni, verja alþjóðlegu skipanina sem reist er á alþjóðalögum og viðhalda þeim viðmiðum og gildum sem gera þjóðum kleift að búa við frelsi og farsæld.

Hann vék að nauðsyn þess að NATO-ríkin störfuðu náið með samstarfsríkjum sínum ­– nær og fjær. Nauðsyn bæri til þess að samhuga lýðræðisríki stæðu saman. Með NATO 2030 gæfist tækifæri til að endurnýja og styrkja Atlantshafstengslin. Það yrði best gert með því að laga sig að breyttum aðstæðum. Með því að vernda þjóðir bandalagsins nú og um langa framtíð.

Undir forystu Stoltenbergs verður unnið úr þeim tillögum sem í skýrslunni er að finna fyrir ríkisoddvitafund NATO-ríkjanna sem verður á næsta ári, 2021.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …