Home / Fréttir / NATO skerpir línur til stuðnings Úkraínu – Rússar hóta þriðjuheimsstyrjöldinni

NATO skerpir línur til stuðnings Úkraínu – Rússar hóta þriðjuheimsstyrjöldinni

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, kemur á ráðherrafudinn í Brussel 13. október 2022.

Fái Úkraína aðild að NATO breytist stríðið í Úkraínu örugglega í þriðju heimsstyrjöldina sagði embættismaður öryggisráðs Rússlands fimmtudaginn 13. október.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti lýsti formlega yfir umsókn Úkraínu um hraðaðild að NATO aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Vladimir Pútin Rússlandsforseti sagði frá því 30. september að rússneska ríkisstjórnin hefði innlimað um 18% af landsvæði Úkraínu.

Öll NATO-ríkin 30 verða að samþykkja að umsókn Úkraínu verði tekin til formlegrar meðferðar. Ekki er talið líklegt að það gerist á næstunni.

„Stjórnin í Kyív veit vel að skref í þessa átt jafngildir örugglega stigmögnun í þriðju heimsstyrjöldina,“ hafði rússneska TASS-fréttastofan eftir Alexander Venediktov, vara-ritara rússneska öryggisráðsins.

Nikolai Patrushev, náinn og valdamikill samstarfsmaður Pútins, er ritari öryggisráðsins en Venediktov er staðgengill hans og sagðist hann viss um að umsókn Úkraínu væri ekki annað en áróðursbragð og á Vesturlöndum gerðu ráðamenn sér grein fyrir afleiðingum NATO-aðildar Úkraínu.

„Sjálfsmorðshættan sem felst í slíku skrefi er ljós NATO-ríkjunum sjálfum,“ sagði hann.

Kjarnorkufundur NATO

Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna sitja fimmtudaginn 13. október fund í Brussel. Áður en þeir komu sagði Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að Bandaríkjamenn mund verja „hvern þumlung“ landsvæðis NATO-ríkja.

Fyrir utan ráðherrafundinn er fundur í kjarnorkuáætlananefnd bandalagsins. Þar er lagt á ráðin um málefni sem snúa að kjarnorkuherafla bandalagsríkja (Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands).

Engin tilkynning hefur verið gefin um dagskrá fundarins um kjarnorkuvopn. Undanfarið hefur Pútin oftar en einu sinni nefnt rússneska kjarnorkuheraflann til sögunnar. Embættismaður NATO sagði miðvikudaginn 12. október að beittu Rússar kjarnavopnum í Úkraínu mundi það „næstum örugglega kalla fram sýnilegt andsvar frá mörgum bandalagsþjóðum og hugsanlega frá NATO sjálfu“. Gaf hann ekki frekari skýringar.

Diplómatar segja að með því að nefna hugsanlega beitingu vígvallar-kjarnavopna til varnar innlimuðum svæðum í Úkraínu vilji Rússar hræða Vestrið frá stuðningi við Úkraínu.

NATO efnir í næstu viku til árlegrar kjarnorku-viðbúnaðaræfingar sinnar. Þar æfa flugherir NATO notkun bandarískra kjarnasprengja í Evrópu án þess að sprengjur séu settar í æfingavélarnar.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði þriðjudaginn 11. október að það mundi senda „alröng“ skilaboð að aflýsa æfingunni.

Loftvarnakerfi til Úkraínu

Miðvikudaginn 12. október komu fulltrúar tæplega 50 ríkja saman í höfuðstöðvum NATO og báru saman bækur sínar um stuðning við Úkraínumenn í stríðinu við Rússa í vetur og framvegis.

Höfuðáhersla var á loftvarnakerfi. Þjóðverjar sögðu að þeir og á annan tug samstarfsþjóða innan ramma NATO ætluðu sameiginlega að leggja í té loftvarnakerfi sem gerð eru til að verja Evrópulönd gegn flugskeytum, það eru Arrow 3 kerfi frá Ísrael, Patriot kerfi frá Bandaríkjunum og IRIS-T kerfi frá Þýskalandi.

Bandaríski varnarmálaráðherrann sagði fimmtudaginn 13. október að fyrirheitið um að aðstoða Úkraínustjórn með vopnum væri ótakmarkað.

„Við leggjum Úkraínu lið eins lengi og þess er þörf,“ sagði Lloyd Austin með Jens Stoltenberg við hlið sér.

Stoltenberg fagnaði því að miðvikudaginn 12, október hefði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fordæmt „ólöglega tilraun til innlimunar“ á fjórum héruðum Úkraínu í Rússland.

„Þetta sýnir aðeins að við verðum að standa vörð um alþjóðakerfi sem er reist á lögum, um grunngildi okkar,“ sagði Stoltenberg.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …