Home / Fréttir / NATO semur varnaráætlanir gegn innrás Rússa

NATO semur varnaráætlanir gegn innrás Rússa

Landganga æfð á strönd Póllands.

Ríkisoddvitar NATO-ríkjanna búa sig undir að samþykkja áætlanir um hvernig bandalagið skuli bregðast við árás frá Rússum, segir bandaríska vikuritið Newsweek 18. maí.

Á vegum bandalagsins hafa svo ítarlegar áætlanir til að svara árás frá Rússum ekki verið gerðar síðan í kalda stríðinu. Innrás Vladimirs Pútins í Úkraínu leiddi til þess að áætlanagerðin hófst. Haft er eftir Rob Bauer, flotaforingja og háttsettum herforingja innan NATO, að bandalagið þurfi að vera við því búið að átök geti orðið „hvenær sem er“.

Í áætlunum sem eru á þúsundum blaðsíðna er einnig að finna leiðbeiningar til  31 aðila bandalagsins um hvernig uppfæra beri herafla hvers og eins og standa að öllum búnaði.

Stefnt er að því að nýju varnaráætlanirnar verði samþykktar á fundi ríkisoddvita NATO í Vilníus í júlí nk. Talið er að þær komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en að nokkrum árum liðnum þótt af hálfu NATO sé sagt að bandalagið sé nú þegar viðbúið öllu.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Hubert Cottereau, hershöfðingja og vara-herráðsformanni Evrópuherstjórnar NATO (SHAPE): „Við erum tilbúnir til orrustu í kvöld.“

Hann sagði að bandalagið teldi ekki þörf á fleiri hermönnum í austri eins stjórnendur Eystrasaltslandanna krefjast. „Safni Rússar liði við landamærin stendur okkur ekki á sama,“ sagði hann við fréttastofuna „ef við söfnum liði við landamærin stendur þeim ekki á sama.“

Í fyrra samþykkti NATO að 300.000 hermenn ættu að vera í viðbragðsstöðu í stað 40.000 áður. NATO-ríkin hafa átt fullt í fangi með að verða við kröfum Úkraínumanna um hergögn og innan bandalagsins er nauðsynlegt að endurnýja mannvirki og tæki til að flytja megi menn með hraði í lestum og bílum.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði nú í apríl að öll NATO-ríkin hefðu samþykkt aðild Úkraínu að bandalaginu eftir að stríðinu lyki.

Talið er að Volodymyr Zelenskíi Úkraínuforseti sitji ríkisoddvitafundinn í Vilníus.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …