Home / Fréttir / NATO sakar Rússa um ýta undir spennu í Evrópu með eldflaugum sínum

NATO sakar Rússa um ýta undir spennu í Evrópu með eldflaugum sínum

Bastion-skotpallur Rússa fyrir eldflaugar til árása á skip.
Bastion-skotpallur Rússa fyrir eldflaugar til árása á skip.

Rússar ýta undir spennu í Evrópu með því að koma fyrir nýjum skotflaugum gegn skipum á pöllum í Kaliningrad sagði í yfirlýsingu frá NATO þriðjudaginn 22. nóvember. Af hálfu NATO er litið á nýju Bastion-skotpallana í Kaliningrad, hólmlendunni milli Litháens og Póllands, sem „ögrandi skipan vopna“.

Í yfirlýsingu NATO sem send var AP-fréttastofunni segir að flutningur þessara vopna til Kaliningrad muni alls ekki „draga úr spennu eða stuðla að því að sjá megi fyrir þróun samskipta okkar“.

NATO sendi yfirlýsinguna skömmu eftir að John Kirby, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, hafði sagt áform Rússa um að setja S-400 loftvarnaflaugar sínar upp til frambúðar í Kaliningrad ásamt Iskander-kjarnorkuflaugunum „grafa undan öryggi í Evrópu“.

Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, svaraði Kirby fullum hálsi og sagði NATO „árásar“-bandalag.

Viktor Ozerov, formaður varnarmálanefndar rússneska sambandsráðsins, efri deildar þingsins, sagði að Iskander-flaugarnar í Kaliningrad væru svar Rússa við bandaríska eldflaugavarnarkerfinu í austurhluta Evrópu.

Fyrsti hluti varnarkerfisins á landi var virkjaður í Rúmeníu í maí 2016. Annar hluti þess verður virkjaður í Póllandi árið 2018.

Rússar mótmæla einnig ásökunum um að rússnesk olíuskip hafi smyglað þotueldsneyti um ESB-hafsvæði til Sýrlands og þannig brotið gegn banni ESB.

Reuters-fréttastofan vitnaði í heimildarmenn sem sögðu að minnsta kosti tvö rússnesk skip hefðu losað farm sinn fyrir þotur í Sýrlandi. Olían hefði verið flutt um Kýpur.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði olíuskipin hafa flutt birgðir til rússneska hersins í Sýrlandi og bann ESB væri „ekki mál“ rússneskra stjórnvalda. Rússar væru ekki í ESB frekar en Bretar.

Spenna jókst einnig í Úkraínu þriðjudaginn 22. nóvember milli Rússa og Úkraínumanna eftir að rússnesk stjórnvöld sökuðu öryggislögreglu Úkraínu um að hafa handtekið tvo hermenn sína  skammt frá landamærum Krím.

Stjórnvöld í Kænugarði sögðu mennina hafa verið handtekna sunnudaginn 20. nóvember á ferð um yfirráðasvæði Úkraínustjórnar.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagði handtökuna ólöglega ögrun við Rússa á rússnesku yfirráðasvæði.

Heimild: The Telegarph co. uk.

.

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …