Home / Fréttir / NATO: Rússar hafa æft kjarnorkuárás á Svíþjóð úr langdrægum sprengjuvélum

NATO: Rússar hafa æft kjarnorkuárás á Svíþjóð úr langdrægum sprengjuvélum

 

.

Langdrægar rússneskar sprengjuvélar
Langdrægar rússneskar sprengjuvélar

 

Rússar æfðu kjarnorkuárás á Svíþjóð fyrir tæpum þremur árum, segir í nýlegri skýrslu frá Atlantshafsbandalaginu (NATO). Í rússneskri heræfingu árið 2013 sást hópur rússneskra flugvéla nálgast Svíþjóð yfir Finnska flóa frá St. Pétursborg. Þóttust áhafnir vélanna senda flaugar hlaðnar kjarnorkusprengjum í áttina að Svíþjóð. Er þetta ekki í eina skiptið sem rússneskir flugmenn hafa sett vélar sínar í slíka árásarstöðu segir í The Daily Telegraph (DT) föstudaginn 5. febrúar þar sem vitnað er í ársskýrslu  NATO fyrir árið 2015 sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kynnti fyrir skömmu.

Þar segir Stoltenberg að á undanförnum þremur árum hafi Rússar að minnsta kosti 18 sinnum efnt fyrirvaralaust til heræfinga, stundum með þátttöku meira en 100.000 hermanna. Þá segir hann:

„Í þessum æfingum hefur verið látið reyna á aðferðir til kjarnorkuárása á NATO-ríki ( t.d. ZAPAD [víðtæk rússnesk heræfing]) og samstarfsríki (t.d. æfingaárás á Svíþjóð í mars 2013).“

Um er að ræða atvik 29. mars 2013 þegar tvær Tupolev Tu-22M3 langdrægar rússneskar sprengjuvélar fóru í fylgd fjögurra Su-27 orrustuþotna vestur Finnska flóa og voru aðeins í 24 mílna fjarlægð frá sænsku eyjunni Gotlandi, 100 mílur frá Stokkhólmi, þegar þær breyttu um stefnu.

Áður en þær breyttu um stefnu höfðu áhafnir þeirra greinilega lokið við að æfa sprengjuárásir á skotmörk í Suður-Svíþjóð, þar á meðal herstöð og hlerunarstöð sænska hersins skammt frá Stokkhólmi.

Nokkurt uppnám varð í Svíþjóð þegar fréttir bárust af æfingunni, ekki síst vegna þess að hún kom sænska hernum í opna skjöldu en danskar orrustuþotur sem störfuðu undir merkjum NATO við loftrýmisgæslu yfir Eystrasaltsríkjunum komu á vettvang.

Í DT segir að innan NATO vilji menn ekki segja meira um málið en fram kemur í ársskýrslunni. Þá segir að rússneska varnarmálaráðuneytið hafi ekkert sagt um málið en DT náði tali af fyrrverandi rússneskum hershöfðingja sem sagði að ummælin í skýrslunni væru „vitleysa til að ýta undir móðursýki vegna Eystrasaltsríkjanna“.

Evgeníj Buzhinskíj, fyrrverandi hershöfðingi, sem stjórnar nú PIR-greiningarstofnun í Moskvu, sagði: „Þessi yfirlýsing um að æfð hafi verið kjarnorkuárás á Svíþjóð er ekkert annað en ögrun.“

NATO hefur haldið úti flugsveitum til loftrýmisgæslu yfir Eystrasaltsríkjunum og einnig efnt til æfinga til að sýna varnarmátt sinn í þágu þeirra.

Bandaríska hugveitan RAND birti nýlega skýrslu þar sem segir að þrátt fyrir varnarviðbúnað NATO mundi það aðeins taka Rússa 60 klukkustundir að leggja Eistland, Lettland og Litháen sig.

Buzhinskíj hershöfðingi blæs á slíkt tal og segir að það þjóni engum hernaðarlegum tilgangi fyrir Rússa að leggja ríkin þrjú undir sig og rússneski minnihlutinn í löndunum hafi engan á áhuga á hernaðarlegri „vernd“. Hann sagði hins vegar að Rússar mundu bregðast við auknum hernaðarumsvifum NATO á svæðinu.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …