Home / Fréttir / NATO: Ritað undir aðildarskjal Lýðveldisins Norður-Makedóníu

NATO: Ritað undir aðildarskjal Lýðveldisins Norður-Makedóníu

Frá athöfninni i höfuðstöðvum NATO. Utanríkisráðherra N-Makedóníu heldur á aðildarskjalinu.
Frá athöfninni i höfuðstöðvum NATO. Utanríkisráðherra N-Makedóníu heldur á aðildarskjalinu.

Efnt var athafnar í höfuðstöðvum NATO í Brussel miðvikudaginn 6. febrúar þegar fastafulltrúar NATO-ríkjanna 29 rituðu undir skjal sem boðar aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu að bandalaginu. Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra N-Makedóniu, var viðstaddur athöfnina.

Eftir undirritun skjalsins getur ríkisstjórnin í Skopje sent fulltrúa til að taka þátt í störfum NATO. Aðildarskjalið sjálft verður sent til höfuðborga aðildarlandanna þar sem það verður fullgilt eftir þeim reglum sem gilda í hverju landi fyrir sig. Um leið og fullgildingarferlinu er lokið verður Lýðveldið Norður-Makedónía 30. aðildarríki NATO.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, flutti ávarp við athöfnina og sagði: „Það er hlutverk NATO að tryggja öryggi tæplega milljarðs manna í Evrópu og Norður-Ameríku og með aðild ykkar að NATO hafa þrjátíu ríki skuldbundið sig til að verja hvert annað. Aðild ykkar eykur stöðugleika á vesturhluta Balkanskaga. Það er til góðs fyrir svæðið og öryggi á Evru-Atlantshafssvæðinu.“

Stoltenberg bar lof á ríkisstjórnirnar í Skopje og Aþenu fyrir staðfestu þeirra og hugrekki við að komast að samkomulagi til lausnar á deilunni um nafn á Lýðveldinu Norður-Makedóníu.

Ríkisoddvitafundur í London

Miðvikudaginn 6. febrúar tilkynnti Jens Stoltenberg að ákveðið hefði verið að efna til ríkisoddvitafundar NATO-ríkjanna í London í desember 2019.

Hann þakkaði breskum stjórnvöldum fyrir að hafa tekið að sér að vera gestgjafar þessa fundar þegar þess er minnst að 70 ár eru frá stofnun NATO. Fyrstu höfuðstöðvar bandalagsins hefðu verið í London. Bretar hefðu verið meðal stofnþjóða bandalagsins og gegndu lykilhlutverki innan þess.

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …