
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði á fundi neðri deildar breska þingsins, þriðjudaginn 25. janúar, að Rússar héldu „byssu að höfði Úkraínu“ og Bretar mundu senda her til austur hluta Evrópu undir merkjum NATO ef Rússar réðust inn í Úkraínu.
„Við getum ekki samið okkur frá hugsjóninni um óskipta og frjálsa Evrópu sem varð til á árunum frá 1989 til 1991 þegar lækna átti sár álfu okkar eftir að járntjaldið hafði skipt henni,“ sagði forsætisráðherrann. „Við munum ekki opna að nýju gjána sem klauf Evrópu í öryggismálum vegna þess að Rússar halda byssu að höfði Úkraínu. Þá getum ekki heldur fallist á það sem í raun er að finna í tillögu Rússa, að öll ríki séu fullvalda en sum þó meira fullvalda en önnur.“
Að kvöldi mánudags 24. janúar ræddi Bandaríkjaforseti við forystumenn NATO, ESB, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Póllands og Þýskalands á fjarfundi til að þétta raðirnar og ákveða refsiaðgerðir gegn Rússum færu þeir með her á hendur Úkraínumönnum.
Boris Johnson sagði nauðsynlegt að taka sem fyrst allar ákvaraðnir um refsiaðgerðir gagnvart Rússum til að fælingarmáttur þeirra yrði sem mestur.
Þá minnti hann á að Bretar hefðu forystu í liðsveit NATO í Eistlandi og liðsauki þar yrði aukinn færu Rússar með her inn í Úkraínu.
Hann sagði að væri það í raun markmið Rússa að halda liðsafla NATO fjarri landamærum sínum hefði innrás þeirra í Úkraínu þveröfug áhrif. Hann sagði Úkraínumenn hafa óskoraðan siðferðilegan og lagalegan rétt til að verja land sitt. Kæmi til átaka myndi blóðbaðið líkjast því sem varð í fyrstu átökunum í Tsjetjeníju eða Bosníu eða annars staðar í Evrópu þar sem komið hefði til átaka eftir 1945. „Enginn mun bæta hlut sinn með slíkum hörmungum,“ sagði forsætisráðherrann.
Rússar hreiðra um sig
James Heappey, hermálaráðherra Breta, sagði þriðjudaginn 25. janúar í blaðinu Sun að liðsmenn „framvarðasveita rússneska hersins“ væru þegar komnir inn í Úkraínu.
„Þegar þessi orð eru skrifuð hefur okkur borist vitneskja um að hópur manna sem talið er að tengist framvarðasveitum rússneska hersins hafi nú búið um sig í Úkraínu,“ sagði Heappey í blaðagrein sinni.
Í liðinni viku sögðu bandarískir leyniþjónustumenn að Rússar ætluðu að láta til skarar skríða undir fölsku flaggi. Aðskilnaðarsinnar, hollir Rússum og studdir af þeim, ráða nú yfir héraðin Donbas í austurhluta Úkraínu.
Þriðjudaginn 25. janúar sögðu stjórnvöld í Úkraínu að þeim hefði tekist að leysa upp hóp skæruliða á vegum Rússa. Hópurinn undirbjó árásir í borgum og bæjum í landamærahéruðum Úkraínu til að grafa undan stöðugleika þar og búa í haginn fyrir innrás rússneska heraflans.
Bandaríkjamenn loka á rússneskar hrávörur
Í þýska blaðinu Bild var sagt þriðjudaginn 25. janúar að Bandaríkjamenn ætluðu að hindra útflutning á ýmsri hrávöru frá Rússlandi réðist rússneskur her inn í Úkraínu. Yrði áhersla lögð á að trufla viðskipti Rússa með olíu og gas og aðra hrávöru, grunninum undir þjóðarbúskap Rússa.
Bild segist hafa undir höndum opinber gögn sem sýni að takist Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra að stöðva þennan útflutning Rússa geti það valdið þeim allt að 50 milljarða dollara tjóni. Þá verði einnig settar skorður við útflutningi Rússa á vopnum auk þess sem stjórnarerindrekar þeirra verði gerðir brottrækir í því skyni að hefta njósnastarfsemi á vegum rússneskra sendiráða.
Talið er að til Bild hafi verið lekið frásögn af fundi sem William Burns, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, átti nýlega með Olaf Scholz Þýskalandskanslara.
Burns hélt til Berlínar til að hitta Scholz á einkafundi í því skyni að tryggja stuðning Þjóðverja við sameiginlegar aðgerðir Vesturveldanna. Þar skiptir miklu hvernig haldið er á málum varðandi umdeildu Nord Stream 2 gasleiðsluna frá Rússlandi til Þýskalands. Bandaríkjamenn vilja að leiðslan verði lögð til hliðar komi til árásar Rússa á Úkraínu. Olaf Scholz er á báðum áttum í málinu.
Bild fullyrðir að Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, og Græningjaflokkur hennar styðji áform Bandaríkjastjórnar. Afstaða þeirra sé afdráttarlausari en Scholz og Jafnaðarmannaflokksins (SPD). Um sé að ræða ágreining innan nýju þriggja flokka, þýsku ríkisstjórnarinnar.
Nú er talið að alls séu um 130.000 rússneskir hermenn við austur landamæri Úkraínu með 1.200 skriðdreka, orrustuþotur og skotpalla fyrir skotflaugar.
Sjálfskaparvíti Pútins
Sir Alex Younger, sem var forstjóri bresku leyniþjónustunnar MI6 2014 til 2020, sagði við BBC þriðjudaginn 25. janúar að Pútin liti frekar á þetta sem póker en skák til að skapa sér svigrúm. Sir Alex sagði einnig:
„Á þessu augnabliki sé ég ekki sviðsmynd þar sem hann [Pútin] getur dregið í land á þann hátt að komi til móts við væntingarnar sem hann hefur vakið. Þetta er hættulegt og verður nú greinilega enn hættulegra. Það er erfitt að koma auga á öruggan lendingarstað miðað við væntingarnar sem Pútin forseti hefur vakið.“