Home / Fréttir / NATO-ríkin álykta gegn Lukasjenko

NATO-ríkin álykta gegn Lukasjenko

Fastafulltrúar NATO-ríkjanna í Atlantshafsráðinu sendu frá sér ályktun föstudaginn 12. nóvember þar sem þeir formdæmdu harðlega að farendum væri beitt á óeðlilegan hátt með því að stjórnvöld Hvíta-Rússlands settu á svið fjölþátta aðgerð sem beindist gegn Póllandi, Litháen og Lettlandi í pólitískum tilgangi.

Með þessum kaldrifjuðu aðgerðum væri lífi bjargarlauss fólks stefnt í hættu. Bandalagsþjóðirnar lýsa yfir samstöðu með Pólverjum, Litháum, Lettum og öðrum þjóðum í NATO sem verða fyrir barðinu á þessum aðgerðum. Bandalagsþjóðirnar ætla einnig að grípa til stuðningsaðgerða sem reistar eru á grundvallargildum og viðeigandi alþjóðalögum. NATO-ríkin grípa til þessara aðgerða hvert fyrir sig eða sameiginlega. Ástandið er þannig að viðbrögð við því krefjast náinnar samræmingar með lykilaðilum á alþjóðavettvangi.

Því er lýst yfir í ályktun Atlantshafsráðsins að á vegum NATO verði fylgst náið með öllu sem aukið geti hættu á stigmögnun og frekari ögrunum af hálfu Hvítrússa við landamæri Póllands, Litháens og Lettlands. Einnig verði lagt mat á áhrif framvindu mála á öryggi bandalagsþjóðanna. NATO-ríkin hvetja stjórnvöld Hvíta-Rússlands til að láta af þessum aðgerðum, til að virða mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir utan að virða alþjóðalög.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …