Home / Fréttir / NATO-ratsjá endurreist í Færeyjum – komið að Grænlandi

NATO-ratsjá endurreist í Færeyjum – komið að Grænlandi

Jenis av Rana, utanríkisráðherra í færeysku landstjórninni, og Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Dana, handsala samkomulagið um ratsjána.

Stjórnvöld Færeyja og Danmerkur eru sammála um að endurreisa NATO-ratsjá skammt frá Þórshöfn. Með ratsjánni verður lokað geil í ratsjáreftirliti á N-Atlantshafi frá Íslandi, Noregi og Bretlandi.

Jenis av Rana, utanríkisráðherra í færeysku landstjórninni, og Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Dana, rituðu undir samkomulag um endurreisn ratsjáreftirlits í þágu NATO á Sornfelli í Þórshöfn fimmtudaginn 9. júní.

Ratsjáin dregur allt að 400 km og nær til svæðis sem fellur ekki undir NATO-ratsjár á Íslandi eða Skotlandi.

Danska þingið samþykkt í fyrra sérstaka fjárveitingu til að auka viðbúnað á norðurslóðum vegna vaxandi hernaðarumsvifa Rússa. Af þessari fjárveitingu verður 390 m. dkr (um 7,2 milljörðum isk) varið til ratsjárinnar í Færeyjum.

Í Færeyjum þótti ámælisvert að danska þingið tæki þessa ákvörðun um fjárveitingu til ratsjár í Færeyjum án þess að áður yrði rætt við færeyska lögþingið.

Á Grænlandi er einnig gagnrýnt að danska þingið gerði samþykkt sína í fyrra án samráðs við grænlenska landsþingið, Inatsisartut.

Færeyski Þjóðveldisflokkurinn sem berst fyrir sjálfstæði Færeyja gagnrýnir að danska þjóðþingið og ríkisstjórnin miðli ekki betur upplýsingum til lögþingsins.

Í Færeyjum og á Grænlandi er því hreyft af sumum að huga beri að því þegar rætt sé um samvinnu landanna við NATO að stjórnvöld landanna hafi aldrei verið spurð hvort þau vilji vera í NATO eða ekki, þau séu þar sjálfkrafa vegna aðildar Dana.

Stjórnarandstaðan í Færeyjum telur að það eigi að meta það til fjár og tekna fyrir Færeyinga að þeir heimili NATO afnot af landi fyrir ratsjá. Þetta ætti til dæmis að leiða til betri viðskiptasamnings við ESB enda séu mörg ESB-lönd í NATO.

Í frétt grænlenska útvarpsins KNR segir að ekki bendi neitt til að slíkt hangi nú á spýtunni.

Í fréttinni segir þó að sl. miðvikudag hafi Danir samþykkt að standa straum af kostnaði við að reisa nýtt fangelsi í Færeyjum sem lengi hefur verið á óskalista Færeyinga. Í samtali við danska ríkisútvarpið, DR, sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, að alls ekki ætti að líta á fangelsið sem greiðslu fyrir ratsjána. Þetta væru algjörlega óskyld mál.

Grænlenska útvarpið, KNR, segir í frétt sinni um ratsjána í Færeyjum að líklega sé nú komið að Grænlendingum að semja við Dani um nokkrar NATO-strandratsjár.

Vísar KNR til fréttar sem birtist í stöðinni í fyrri viku um áform Bandaríkjastjórnar um nokkrar ratsjárstöðvar á Grænlandi. Frá því að fréttin birtist hafa stjórnvöld á Grænlandi, í Kaupmannahöfn og bandaríska sendiráðið staðfest að þessi áform séu uppi.

Í grænlenska þinginu, Inatsisartut, styður meirihluti þingmanna ratsjáráformin enda gagnist þau Grænlendingum til dæmis á sviði menntunar og til að fjölga störfum í landinu. Þá kunni þjónustusamningar að koma til sögunnar.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …