Innan NATO velta stjórnvöld fyrir sér að senda 4.000 hermenn til ríkja sem eiga landamæri með Rússlandi. Er talið að með því yrði dregið úr líkum á að Rússar grípi til glannalegra hernaðaraðgerða gegn ríkjunum. Frá þessu er sagt í The Daily Telegraph (DT) fimmtudaginn 29. október.
Blaðið segir að um sé að ræða víðtæka athugun innan NATO á hvernig skynsamlegast sé að bregðast til frambúðar við innlimun Rússa á Krímskaga í mars 2014 og stuðningi þeirra við uppreisn aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Meðal tillagna sem fram hafa komið í þessari athugun er að herafli undir beinni stjórn NATO á friðartímum verði sendur til Austur-Evrópu. Til sambærilegra ráðstafana hefur ekki verið gripið áður. Líklegt er ráðamenn í Moskvu bregðist illa við ráðstöfunum af þessu tagi.
Til skoðunar er áætlun sem gerir ráð fyrir að 800 til 1.000 manna hersveitir verði sendar til Póllands, Litháens, Lettlands og Eistlands.
Talið er að stjórnarerindrekar og stjórnmálamenn vilji „senda skilaboð“ til Moskvu um að innan bandalagsins hafi ríkin samhæft sig vel og séu staðráðin í að verja ríki bandalagsins lengst í austri.
Í DT segir að fyrir liggi óskir frá Póllandi og Eystrasaltsríkjunum þremur um að NATO sýni á afdráttarlausan hátt vilja sinn til að verja löndin. Það sé hins vegar helst í Þýskalandi sem stjórnmálamenn séu hikandi við að senda her á vettvang vegna þess að Rússar kynnu að svara með því að rjúfa vopnahléð í Úkraínu sem þeir virðist virða um þessar mundir.
Árið 1994 var samið um að NATO hefði ekki „umtalsverðan“ (substantial) herafla í Austur-Evrópu. Rússar munu gagnrýna allar aðgerðir NATO sem leiða til fjölgunar í liðsafla NATO nálægt landamærum þeirra á þessum forsendum. NATO hefur hvað eftir annað sakað Rússa um að brjóta þetta samkomulag og jafnframt sagt að bandalagið hafi virt það.
Talsmaður NATO bendir á að varnir bandalagsins í austri hafi nú þegar verið auknar með hreyfanlegum herafla og sex litlum stjórnstöðvum auk þess sem heræfingum hafi fjölgað.
Leiðtogafundur NATO verður í Varsjá í júlí 2016 og þar mun athygli ekki síst beinast að stöðunni við Eystrasalt og í Austur-Evrópu.
Í DT er vitnað í Steven Pfifer, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, sem segir að það eitt að rætt sé um NATO-herfla í nágrenni Rússlands sé til marks um að innan bandalagsins líti menn ekki lengur á Rússa sem „samstarfsaðila“ heldur sem „hugsanlegan andstæðing“. Hann segir að skipið sé „tekið að snúast“. Tölurnar 800 til 1.000 hermenn sýni Rússum og öðrum alvöru málsins. NATO ætli sér að verja yfirráðasvæði sitt.
Hann segir að Rússar leggist gegn öllum herafla en viðbrögð þeirra muni ráðast af því hvers kyns herafi yrði sendur í NATO-stöðvar. „Ég mundi ekki senda brynvarða vélaherdeild til Austur-Eistlands. Ég tel að litið yrði á það sem mikla ögrun. Það má hins vegar velja annars konar liðsafla sem hefði hvorki afl né getu til að hertaka St. Pétursborg.“
Pfifer segir að ræði menn innan NATO um leiðir til að „halda Rússum í skefjum“ með því að fjölga í herliði á vegum bandalagsins felist í því „tvíræð boð“ að falla frá áformunum.