Home / Fréttir / NATO-ráðið lýsir „þungum áhyggjum“ vegna fjölþátta aðgerða Rússa

NATO-ráðið lýsir „þungum áhyggjum“ vegna fjölþátta aðgerða Rússa

Atlantshafsráðið skipað fastafulltrúum aðildarlandanna 32 lýsti fimmtudaginn 2. maí miklum áhyggjum yfir illvirkjum á landsvæðum bandalagsríkjanna. Sagði ráðið að dæmi um þau mætti sjá af rannsóknum og kærum á hendur einstaklingum vegna óvinveittra aðgerða í Tékklandi, Eistlandi, Þýskalandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi og Bretlandi.

Að fastafulltrúarnir sendi frá sér opinbera tilkynningu af þessu tagi er óvenjulegt og aðeins til marks um að þessar aðgerðir Rússa verði sífellt hættulegri.

Í yfirlýsingu NATO-ráðsins segir að um sé að ræða atvik sem tengist síauknum aðgerðum sem Rússar standi fyrir á Evró-Atlantshafssvæðinu, meðal annars í aðildarríkjum bandalagsins. Þetta séu skemmdarverk, ofbeldisverk, truflanir í netheimum og á sviði rafeinda, herferðir með upplýsingafölsunum og aðrar fjölþáttaaðgerðir. Er lýst „þungum áhyggjum“ vegna þessara aðgerða Rússa sem ógni öryggi NATO-þjóðanna.

Undanfarið hefur fréttum til dæmis fjölgað um að flugmenn lendi í vandræðum vegna þess að GPS-tæki eru gerð óvirk á ákveðnum svæðum. Rússar hafa oft og áður fyrr beitt rafeindatækni til truflana á flugi í Norður-Noregi og með aðild Svía og Finna að NATO hafa Rússar enn aukið fjölþáttaaðgerðir gegn þessum þjóðum.

Fastafulltrúar NATO lýsa yfir stuðningi og samstöðu með þeim bandalagsþjóðum sem verða fyrir áreiti af þessu tagi. Hvert ríki um sig og sameiginlega ætli ríkin að bregðast við því sem þarna er á ferðinni og eiga náið samráð um viðbrögðin. Þau munu halda áfram að efla viðnámsþrótt og styrkja þau úrræði sem eru á þeirra valdi til að snúast gegn fjölþátta aðgerðum Rússa. Takist ekki að fæla Rússa frá illvirkjunum verði brugðist við þeim á þann hátt sem best dugi hverju sinni.

„Við fordæmum framgöngu Rússa og hvetjum þá til að virða alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sama hátt og bandalagsríkin standa við skuldbindingar sínar. Aðgerðir Rússa munu ekki fæla bandalagsríkin frá því að styðja Úkraínu áfram,“ segir í lok yfirlýsingar Atlantshafsráðsins.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …